Fara í efni

Bæjarstjórn

13. nóvember 2013

Miðvikudaginn 13. nóvember 2013 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Guðmundur Magnússon (GM), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Lárus B. Lárusson (LBL), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ) Árni Einarsson (ÁE) og Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ).

Ritari bæjarstjórnar, Gunnar Lúðvíksson ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson, setti fund og stjórnaði.

  1. Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2014.
    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri, fylgdi áætluninni úr hlaði með eftirfarandi greinargerð.

    ,,Fjárhagsáætlun 2014 var unnin sameiginlega af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, Neslista og Samfylkingar. Og í þeirri vinnu var haft að leiðarljósi óbreytt þjónustustig, að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Vil ég þakka gott samstarf í bæjarstjórn á liðnu ári og starfsmönnum bæjarins fyrir að gæta skilvirkni í rekstri bæjarins. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árin 2015-2017 og vil ég þakka öllum þeim sem komu að þessari vinnu fyrir vel unnin störf.
    Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur samantekins ársreiknings 2014 er áætlaður 18 milljónir króna. Útsvarsprósenta á árinu 2014 er 13,66%, sem er undir leyfilegu hámarksútsvari sem er 14,48%. Útsvarstekjur eru áætlaðar 1.846 m.kr. Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 232 m.kr. sem er sama álagningarhlutfall og árið 2014.
    Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 5% frá upphafi til loka ársins 2014. Bæjarfulltrúar fái ekki greidd nefndarlaun fyrir árið 2014. Spár gera ráð fyrir 6,0% til 9% atvinnuleysi í landinu. 

    Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2014.
    1. Álagningarhlutfall útsvars verður 13,66%.
    2. Fasteignagjöld:
        a. Fasteignaskattur:
            A- hluti – íbúðarhúsnæði, álagningarhlutfall 0,21% af fasteignamati.
            B- hluti - opinbert húsnæði, álagningahlutfall 1,32% af fasteignamati.
            C- hluti – atvinnuhúsnæðis og óbyggt land, álagningarhlutfall 1,25% af fasteignamati.
        b. Lóðarleiga: A-hluta 0,40% og B-hluta 1,75% af lóðarhlutamati.
        c. Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,11% af fasteignamati.
        d. Sorpgjald á hverja eign: Urðunargjald kr. 13.600,- Sorphreinsigjald kr. 6.300,-.
        e. Fráveitugjald: Álagningahlutfall 0,13% af fasteignamati.

    Elli og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi af íbúðarhúsnæði til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um. 
    Laun eru hækkuð til samræmis við gildandi kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.
    Ekki er gert ráð fyrir breytingum á íbúafjölda á árinu 2014
    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri
    (sign)

    Til máls tóku: ÁH, ÁE, GM, MLÓ
    Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun 2014 með fimm atkvæðum og tveir sátu hjá.

    Fulltrúar Neslistans og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
    Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013 var samstaða innan bæjarstjórnar um að fresta endurbótum og viðbyggingu við íþróttamiðstöðina til næsta árs og nota tímann til þess að undirbúa þá framkvæmd enn betur. Settur var á laggirnar undirbúningshópur til þess verks og skilaði hann skýrslu í september síðastliðnum. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 er ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna verkefnisins, hvorki undirbúnings eða framkvæmda og því algjör óvissa um framhaldið. Þetta er miður og ekki jákvæð skilaboð til þess mikla fjölda sjálfboðaliða sem heldur uppi íþróttastarfinu í bænum. Í þessu tilviki ekki síst til þeirra sem standa að starfi fimleikadeildarinnar. Það skortir framtíðarsýn í uppbyggingu innviða og þjónustu og ákvarðanir um framkvæmdir einkennast af stöðugu undanhaldi og frestunum.
    Samkvæmt fjárhagsáætluninni hækka helstu gjaldskrár um 5% til að mæta verðlagsbreytingum ársins 2014. Hins vegar hækka ýmsir kostnaðarliðir í rekstri allra málaflokka sem heyra undir aðalsjóð ekki á milli ára. Í ljósi þess að rekstrarniðurstaða aðalsjóðs er í járnum samkvæmt áætluninni má ætla að kostnaðarhliðin sé vanáætluð og því hæpið að hægt verði að skila rekstri sveitarfélagsins hallalausum á næsta ári að því gefnu að aðrir liðir, bæði gjalda- og tekjumegin, standist.
    Við teljum óraunhæft að gera ekki ráð fyrir neinum verðbreytingum á þessum liðum og því sé í raun reiknað með talsverðri raunlækkun sem verður varla mætt nema með skerðingu á þjónustu. Ákvarðanir um slíkt verða að vera gegnsæjar og vel rökstuddar. Við bendum á að mikið hefur verið hert að í rekstri bæjarins á undanförnum árum og vafamál að lengra verði gengið í mörgum tilfellum.
    Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Neslista sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Seltjarnarness fyrir árið 2014.
    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista
    Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
  2. Lögð var fram til síðari umræðu, þriggja ára áætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2015-2017.
    Til máls tóku: ÁH, ÁE, GM
    Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun 2015 - 2017 með fimm atkvæðum og tveir sátu hjá.

    Fulltrúar Neslistans og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
    Minnihlutinn hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins sé ítarleg og endurspegli framtíðarsýn og áherslur bæjarins um þjónustu og uppbyggingu.
    Þriggja ára fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir ber með sér að eingöngu er verið að uppfylla lagskyldu og engin tilraun gerð til að leggja mat á þarfir og þróun samfélagsins til næstu ára.
    Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Neslista sitja hjá við afgreiðslu þriggja ára fjárhagsáætlunar Seltjarnarness.
    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista
    Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
    Fjárhagsáætlun 2015 – 2017 var unnin með ábyrgum hætti og unnin eftir rauntölum 2013 og áætlun 2014. Ekki er gert ráð fyrir neinum lántökum á þessum árum.
    ÁH, GM, SEJ, LBL, BTÁ
  3. Fundargerð 382. fundar Félagsmálaráðs.
    Fundargerðin lögð fram.
    Til máls tóku: ÁE, MLÓ, ÁH, SEJ
  4. Fundargerð í samráðshópi um áfengis- og vímuvarnir.
    Fundargerðin lögð fram.
    Til máls tóku: ÁE, SEJ, ÁH
  5. Fundargerðir 6. og 7. fundar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis.
    Fundargerðirnar lagðar fram.
  6. Fundargerð 809. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Fundargerðin lögð fram.
  7. Tillögur og erindi:

  1. Lagt fram bréf dags. 21/10/13 um tillögur að breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 vegna aðalskipulags Reykjavíkur og annarra sveitarfélaga.

  2. Tillaga Margrétar Lindar Ólafsdóttur frá síðasta fundi bæjarstjórnar.

    Til máls tóku: MLÓ

    Tillögunni vísað til Fjárhags- og launanefndar.

  3. Samkomulag Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness vegna endurskoðunar svæðisskipulags.

    Til máls tóku: ÁH, ÁE, BTÁ, LBL, GM

    Samkomulagið samþykkt samhljóða.

Fundi var slitið kl. 17:46

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?