Fara í efni

Bæjarstjórn

588. fundur 25. febrúar 2004

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.
Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.
Fundargerð síðasta fundar staðfest.

1.         Lögð var fram til fyrri umræðu langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2005 til 2007.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Árni Einarsson.

Samþykkt að vísa áætluninni til síðari umræðu.

2.           Lögð var fram fundargerð 341. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness dagsett 18. febrúar 2004 og var hún í 10 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

3.           Lögð var fram fundargerð 35. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness dagsett 19. febrúar 2004 og var hún í 6 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

4.           Lögð var fram fundargerð 164. fundar Umhverfisnefndar Seltjarnarness dagsett 12. febrúar 2004 og var hún í 8 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

5.           Lögð var fram fundargerð 137. (32.) fundar Skólanefndar Seltjarnarness dagsett 16. febrúar 2004 og var hún í 17 liðum.

Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Jónmundur Guðmarsson, Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

 

“Á fundi skólanefndar 16.02.2004 lagði formaður skólanefndar fram minnisblað frá Rannsóknarstofnun KHÍ.  Minnisblað þetta er svar við bréfi Bjarna Torfa Álfþórssonar sem sent var í kjölfar samþykktar skólanefndar frá 5. mars 2003.  Stofnunin fellst á að gera úttektina og dregur ákveðnar ályktanir af bréfi formannsins.  Bréf formanns skólanefndar var ekki lagt fram á fundi skólanefndar en sent í tölvupósti til nefndarmanna 17.02.2004.

Í bréfi til umræddrar stofnunar sem formaður loks lagði fram segir m.a.  “Eftir umræðu í skólanefnd þykir okkur einsýnt að kostir sameiningar séu margir en óskum eftir úttekt á verkinu frá viðurkenndum fagaðila”.  Þetta er alls ekki það sem tillaga skólanefndar fjallaði um!  Í fundargerð skólanefndar frá 5. mars 2003 segir í 6. lið:  “Skólanefnd samþykktir að leita til Rannsóknastofnunar KHÍ um faglega úttekt á kosti þess og göllum að sameina grunnskóla Seltjarnarness undir eina stjórn”.

Minnisblað KHÍ er dagsett 27. mars 2003, og ekki lagt fram í skólanefnd fyrr en tæpu ári síðar, þegar margsinnis hafði verið eftir því gengið að fá gögn um samskipti við þá fjölmörgu aðila sem formaður skólanefndar fullyrti að hann hafi beðið um að taka þessa úttekt að sér.

Formaður nefndarinnar fer vísvitandi með rangt mál þegar hann heldur því fram að allir sem hann hafi leitað til hafi neitað að taka verkið að sér.  Einu gögnin sem hann getur lagt fram um er þetta minnisblað, þar sem KHÍ fellst á að taka verkið að sér.

Verklag formanns skólanefndar í þessu alvarlega máli er mjög ámælisvert og er hann þar uppvís að alvarlegu og grófu trúnaðarbroti við skólanefnd.  Formaðurinn segir ósatt um þau svör sem hann hefur sannanlega fengið, leynir skólanefnd gögnunum, fer út fyrir umboð sitt er hann hefur samband við stofnanir vegna samþykktrar tillögu skólanefndar og gefur í skyn að hann hafi ráðfært sig við fjölda rannsóknaraðila án þess að gera það formlega.  Er nema von að spurt sé hvaða annarlegu sjónarmið ráða ferð meirihlutans í máli þessu?”

   Árni Einarsson   Sunneva Hafsteinsdóttir   Guðrún Helga Brynleifsd.

         (sign)                     (sign)                                  (sign)

 

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun vegna 10c liðar:

“Ályktun kennarafundar endurspeglar það erfiða ástand sem skapast hefur í grunnskólum bæjarins í kjölfar einhliða ákvörðunar meirihluta Sjálfstæðismanna um að sameina grunnskóla Seltjarnarness.  Það er auðséð að þessi vinnubrögð hafi haft mjög alvarleg áhrif á allt skólastarf á Seltjarnarnesi og mun að taka langan tíma að bæta það sem tapast hefur.”

 

   Árni Einarsson   Sunneva Hafsteinsdóttir  Guðrún Helga Brynleifsd.

         (sign)                      (sign)                                 (sign)

 

Formaður skólanefndar lagði fram eftirfarandi bókun:

Undirritaður hafnar því að hafa leynt gögnum eða að hafa farið með ósannindi í þessu máli.  Samkvæmt minnisblaði frá KHÍ sem vitnað er til, er lagt til að fara í allt annað verkefni en lagt var fyrst með.  Rétt er að taka fram að framlenging umsóknarfrests um stöðu skólastjóra var tekinn eftir tillögu Mannafls í fullri sátt við alla aðila skólanefndar.

                                                  Bjarni Torfi Álfþórsson

                                                             (sign)

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

6.           Lögð var fram fundargerð 279. (18.) fundar æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness,  dagsett 10. febrúar 2004 og var hún í 4 liðum.

Til máls tóku: Árni Einarsson, Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Ásgerður Halldórsdóttir, Inga Hersteinsdóttir og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

7.           Lögð var fram fundargerð 296. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness dagsett 19. febrúar 2004 og var hún í 11 liðum.

Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.

Gjaldskrá heimaþjónustu samkvæmt 4. lið fundargerðarinnar samþykkt samhljóða.

Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

8.           Lögð var fram fundargerð fundar Jafnréttisnefndar Seltjarnarness, dagsett 12. febrúar 2004 og var hún í 2 liðum.

Til máls tók: Árni Einarsson.

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:

“Bæjarstjórn felur jafnréttisnefnd Seltjarnarness að afla tölfræðilegra kyngreindra upplýsinga um stöðu karla og kvenna í stjórnsýslu bæjarins svo og hvernig jafnréttisfræðslu er háttað í skólum og staðið er að jafnréttismálum á vinnustöðum (stofnunum og fyrirtækjum) Seltjarnarnesbæjar.”

 

Rökstuðningur

Aflað verði sérstaklega upplýsinga sem varpa ljósi á:

1.                      Kynjaskiptingu í starfsnefndum og undirnefndum/starfshópum;

2.                      Kynjaskiptingu í stjórnum stofnana;

3.                      Kynjaskiptingu stjórnenda á vegum bæjarins;

4.                      Kynjaskiptingu starfsmanna á stofnunum og fyrirtækjum bæjarins;

5.                      Vinnutíma og laun með tilliti til kynferðis;

6.                      Fyrirkomulag við nýráðningar með tilliti til jafnréttis og hvernig staðið er að því að jafna hlut kynja á vinnustöðum bæjarins.

7.                      Hvað gert er til þess að gera starfsfólki Seltjarnarnesbæjar kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu, s.s. með sveigjanlegum vinnutíma (hvernig er fyrirkomulag í þeim efnum?);

8.                      Hvað gert er til þess að gera foreldrum langveikra barna kleift að taka á sig aukna fjölskylduábyrgð;

9.                      Hvernig tekið er tilliti til kvenna á meðgöngutíma og við umönnun barna;

10.                  Hvernig jafnréttisnefnd hefur staðið að árlegri samkeppni um verkefni ætluð börnum og ungmennum til að auka skilning á jafnrétti;

11.                  Hvað hefur jafnréttisnefnd gert á tímabilinu jan.2001 – des. 2004 til þess að tryggja/jafna stöðu kynjanna á vettvangi Seltjarnarneskaupstaðar?

 

Gert verði ráð fyrir að hægt sé að endurtaka umrædda upplýsingaöflun á fjögurra ára fresti á þann hátt að niðurstöður séu sambærilegar og varpi ljósi á árangur / breytingar til þess að auðvelda endurskoðun og framkvæmd jafnréttisáætlunar.

 

Núgildandi jafnréttisáætlun var samþykkt 12. desember árið 2000.  Í henni er gert ráð fyrir að hún verði endurskoðuð að fjórum árum liðnum, þ.e. þegar að loknu árinu 2004, og því tímabært að hefja gagnaöflun vegna þeirrar endurskoðunar.

 

    Árni Einarsson   Sunneva Hafsteinsdóttir   Guðrún Helga Brynleifsd.

            (sign)                  (sign)                                   (sign)

 

Afgreiðslu tillögunnar frestað til næsta fundar.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

9.           Lögð var fram fundargerð 1. fundar starfshóps um ferlimál, dagsett 12. febrúar 2004.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

10.      Lögð var fram fundargerð 264. fundar stjórnar SSH dagsett 9. febrúar 2004 og var hún í 5 liðum.

Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

11.      Lögð var fram fundargerð 710. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 23. janúar 2004, og var hún í 27 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

12.      Lögð var fram fundargerð 200. fundar stjórnar SORPU dagsett 5. febrúar 2004 og var hún í 4 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

13.      Lögð var fram fundargerð 1. fundar Almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins dagsett 23. janúar 2004 og var hún í 6 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

14.      Lögð var fram fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs dagsett 3. febrúar 2004, og var hún í 7 liðum.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Árni Einarsson.

Kjörnir voru fulltrúar Seltjarnarnesbæjar í stjórn Reykjanesfólksvangs, þeir sömu og eru í stjórn skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, aðalmaður Egill T. Jóhannsson, Selbraut 24 og til vara Ingimar Sigurðsson, Selbraut 70.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

15.      Lögð var fram fundargerð stjórnar Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins dagsett 28. janúar 2004 og var hún í 7 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

16.      Lögð var fram fundargerð 8. fundar samstarfsnefndar Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga og Launanefndar sveitarfélaga dagsett 9. febrúar 2004 og var hún í 1 lið.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

17.      Lögð var fram fundargerð 15. fundar samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Kjarna dagsett 5. febrúar 2004 og var hún í 3 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

18.      Lögð var fram fundargerð 191. fundar Launanefndar sveitarfélaga dagsett 4. febrúar 2004 og var hún í 5 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

19.      Erindi:

a)     Lagt fram afrit af svarbréfi Menntamálaráðuneytisins til formanns foreldraráðs Mýrarhúsaskóla, dagsett 16. febrúar 2004, vegna óskar foreldraráðsins um úrskurð ráðuneytisins um valdsvið foreldraráða í grunnskóla.

Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

“Svarbréf Menntamálaráðuneytisins dags. 16. febrúar s.l. vegna fyrirspurnarbréfs foreldraráðs Mýrarhúsaskóla til ráðuneytisins um valdsvið foreldraráða er um margt athyglisvert.  Í fyrsta lagi er þar staðfest að menntamálaráðuneytið er ekki úrskurðaraðili um stjórnvaldsákvarðanir sveitarstjórna.  Sú niðurstaða kemur ekki á óvart en skv. 103. gr. Sveitarstjórnarlaga heyrir sá málaflokkur þ.e. um réttmæti/lögmæti stjórnvaldsákvarðana sveitarstjórna undir félagsmálaráðuneytið.  Ekki kemur fram í bréfi menntamálaráðuneytisins að um formlegt álit þeirra sé að ræða heldur er talað um “almennar leiðbeiningar” um álitaefnið.  Menntamálaráðuneytið staðfestir að ekki verði af grunnskólalögunum ráðið að það sé skylda sveitarstjórna að leita umsagnar foreldraráða áður en ákvörðun er tekin um að sameina rekstur eins eða fleiri grunnskóla.  Þarf sú niðurstaða ekki heldur að koma á óvart, en í 16. gr. grunnskólalaga er kveðið á um það að foreldraráð gefur umsögn til skólans og skólanefndar.  Því má nokkuð ljóst ver að foreldraráð gefur ekki umsögn beint til bæjarstjórnar.  Hefði mál þetta um sameiningu skólanna fengið stjórnsýslulega meðferð í skólanefnd af hálfu meirihluta sjálfstæðismanna má vera nokkuð ljóst að fulltrúar foreldraráðs hefðu komið að þessu máli með formlegum hætti eins og telja verður að sé markmið laganna með því að kveða sérstaklega á um þennan rétt þeirra.  Þeirri spurningu er því enn ósvarað hvort stjórnsýslulega hafi verið rétt að því staðið af hálfu meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn að sniðganga skólanefndina og svipta þar með foreldraráðið rétti sínum til að hafa árif á starfsemi skólanna þegar ákvörðun um sameiningu skólanna var tekin af meirihlutanum í bæjarstjórn.”

  Guðrún Helga Brynleifsd.   Sunneva Hafsteinsd.   Árni Einarsson

             (sign)                                  (sign)                          (sign)

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Niðurstaða menntamálaráðuneytisins kemur ekki á óvart og sýnir svo ekki verður um villst að málflutningur og fullyrðingar minnihlutans um ranga málsmeðferð eiga ekki við rök að styðjast.  Menntamálaráðuneytið staðfestir bæði sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga sem og skýrt umboð bæjarstjórnar til stefnumörkunar og ákvarðanatöku um málefni bæjarins, þar með talið í fræðslumálum.  Hvetur meirihlutinn bæjarbúa til að kynna sér vel niðurstöðu ráðuneytisins og bera saman við fullyrðingar minnihlutans í bæjarstjórn, nefndum og fjölmiðlum.

Þá má líka benda á niðurstöðu félagsmálaráðuneytis frá 30. júní 2000 vegna ákvörðunar hreppsstjórnar Öxarfjarðarhrepps um sameiningu skóla  (tilvitnun FEL 00040004/1001/SÁ).  Þar er sjálfsákvörðunarréttur sveitarstjórna undirstrikaður og jafnframt bent á að sveitarstjórn er fyllilega frjálst að taka ákvarðanir um stjórnskipulag skóla án aðkomu annarra aðila s.s. skólanefnda.  Vekur furðu að minnihlutinn hefur ekki kynnt sér þá niðurstöðu áður en til bréfaskipta við ráðuneytið kom þar sem álitaefninu hafði þegar verið svarað.

         Jónmundur Guðmarsson            Ásgerður Halldórsdóttir

                 (sign)                                               (sign)

         Inga Hersteinsdóttir                    Bjarni Torfi Álfþórsson

                (sign)                                                (sign)

 

b)    Lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett 10. febrúar 2004,  varðandi fyrirhugað grunnskólaþing sveitarfélaga sem halda á 26. mars 2004.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Árni Einarsson.      

Erindinu vísað til skólanefndar Seltjarnarness.

c)     Tekin var fyrir eftirfarandi tillaga bæjarfulltrúa meirihluta D-lista um ljósleiðaratengingu heimila á Seltjarnarnesi.

 

“Lagt er til að bæjarstjóra verði falið að kanna færar leiðir við ljósleiðaralögn á Seltjarnarnesi.  Miðað skal við að lögnin nái inn á hvert heimili í bænum og verði gengið frá henni þar með endabúnaði.  Bærinn stefni að því að vera í fararbroddi bæjarfélaga í þessum málum og taki þannig þátt í að skapa grundvöll fyrir framförum byggðum á samvirkni lífsgæða, viðskipta og tækniframfara.”

Rökstuðningur

Seltjarnarnesbær lítur á ljósleiðaranet sem veitu sem verði hluti af veitukerfi bæjarins en það ert ljóst að kröfur íbúa um að slík lögn verði lögð á næstu 5-10 árum fara vaxandi.  Fyrir eru hitaveita, vatnsveita, fráveita og rafmagnsveita.  Ljósleiðaratenging inn á hvert heimili er hagsmunamál fyrir bæjarbúa.  Þeir hagsmunir sem í húfi eru lúta t.d. að tækifærum íbúa til menntunar, lífsgæða og afþreyingar.  Tenging við ljósleiðaranet stuðlar einnig að því að varðveita verðgildi fasteigna á Seltjarnarnesi og að bærinn verði síður undir í samkeppni við önnur svæði á höfuðborgarsvæðinu.  Ljóst er að það er markmið Reykjavíkurborgar að leggja ljósleiðaranet um alla borg á næstu 5-10 árum og sambærilegt net verður t.d. lagt í bryggjuhverfi Garðabæjar.  Forskot Seltjarnarness í ljósleiðaravæðingu getur skapað fjölmörg tækifæri fyrir bæjarfélagið varðandi ýmis frumherjaverkefni er geta verið verðmæt fyrir íbúana og bæinn í heild.  Einnig skapa framkvæmdir á þessum tímapunkti mikilvægt svigrúm fyrir bæinn varðandi framboð á störfum fyrir ungt fólk á Seltjarnarnesi.

 

          Jónmundur Guðmarsson             Ásgerður Halldórsdóttir

                     (sign)                                           (sign)

          Inga Hersteinsdóttir                     Bjarni Torfi Álfþórsson

                     (sign)                                           (sign)

 

Að loknum umræðum var málið afgreitt með því að bæjarstjórn samþykkti samhljóða eftirfarandi bókun:

“Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að kanna möguleika á uppsetningu ljósleiðara á Seltjarnarnesi og forsendur fyrir upplýsingaveitu með tengingu við öll heimili og fyrirtæki í bænum.”

Fundi var slitið kl. 19:40 Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?