Fara í efni

Bæjarstjórn

30. apríl 2014

Miðvikudaginn 30. apríl 2014 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Guðmundur Magnússon (GM), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Lárus B. Lárusson (LBL), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ) Árni Einarsson (ÁE) og Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ).

Ritari bæjarstjórnar, Gunnar Lúðvíksson ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson, setti fund og stjórnaði.

  1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2013, síðari umræða.
    Á fundinn undir þessum dagskrárlið er mættur Auðunn Guðjónsson, endurskoðandi Seltjarnarnesbæjar.
    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri ræddi ársreikning 2013 og gerði grein fyrir niðurstöðum hans.
    Forseti gaf orðið laust og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu.
    Til máls tóku: ÁH, ÁE, GM, MLÓ

    Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2013. Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég þakka öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2013 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.

    Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi, ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2013 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

    Lagðir voru fram ársreikningar ársins 2013 fyrir Hitaveitu Seltjarnarness, Vatnsveitu Seltjarnarness, Fráveitu Seltjarnarness, Hrólfsskálamel ehf., Félagslegt íbúðarhúsnæði á Seltjarnarnesi, Dvalar- og hjúkrunarheimili Seltjarnarness, Félagsheimili Seltjarnarness og Gjafasjóð Sigurgeirs Einarssonar.

    Gert var fundarhlé til að undirrita ársreikning 2013 frá kl. 17:25

    Bókun :
    ,,Niðurstaða ársreiknings Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2013 er jákvæð og umtalsvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, sem einkum skýrist af hærra framlagi úr Jöfnunarsjóði en gert var ráð fyrir í áætlun, svo og betri innheimtu eldri útsvara. En einnig urðu rekstrargjöld nokkru lægri en áætlað var. Því hefur reynst mögulegt að minnka skuldir. Sé litið til rekstrarniðurstöðu einstakra málaflokka sést að almennt hefur gengið vel að halda fjárhagsáætlun. Það tekst einungis með aga og ábyrgð. Þessu ber að fagna.

    Þrátt fyrir þetta er engu síður mikilvægt að ávallt sé tryggt að hvorki sé gengið of langt í hagræðingu eða þrengt um of að þjónustu, s.s. skóla,- félags- og æskulýðsmálum, né viðhaldi fasteigna og nauðsynlegum nýframkvæmdum skotið svo á frest að það skerði þjónustu og þar með lífsgæði íbúa. Því miður er ekki unnið eftir langtíma viðhalds- og framkvæmdaáætlun sem myndi auðvelda yfirsýn og um leið styrkja framtíðarsýn í uppbyggingu bæjarins sem íbúarnir gætu þá komið að og mótað.

    Núverandi bæjarstjórn tók við bæjarsjóði í hallarekstri. Bankahrunið og fjármálaerfiðleikar léku fjölskyldur, fyrirtæki, ríkissjóð og sveitarfélög grátt. Atvinnumissir og tekjuskerðing varð hlutskipti margra. Sveitarstjórnarfólki var sá vandi á höndum að mæta samdrætti í tekjum með hagræðingu og niðurskurði, en án þess að skerða úr hófi þjónustu við íbúana; fresta óhóflega ýmsum mikilvægum framkvæmdum og viðhaldsverkefnum; hækka útsvar, fasteignagjöld og þjónustugjöld eða safna skuldum. Ársreikningar sveitarfélaga sem birtir hafa verið að undanförnu sýna almennt þá jákvæða niðurstöðu að hagur sveitarfélaga fer batnandi.

    Neslistinn hefur á kjörtímabilinu lagt áherslu á ábyrga og málefnalega þátttöku við stjórn bæjarins og lagt sig fram um að skapa forsendur fyrir samstarfi og samstöðu við gerð fjárhagsáætlana og rekstur bæjarins. Sú jákvæða nýbreytni var tekin upp á kjörtímabilinu að bæjarfulltrúar kæmu allir að vinnslu og gerð fjárhagsáætlana Seltjarnarnesbæjar. Þetta er vinnulag sem ég tel til fyrirmyndar og eftirbreytni og er jákvæð tilraun til þess að komast upp úr gamaldags hjólförum í samskiptum meiri- og minnihluta í bæjarstjórn.

    Neslistinn hefur lagt áherslu á leið félagshyggju og jöfnuðar út úr vandanum sem bankahrunið leiddi af sér og minnir á að skeytingarleysi gagnvart þeim sem minna mega sín og misskipting elur enn frekar á vandanum, sundrung og vantraust í þjóðfélaginu. Því ber að fagna að á kjörtímabilinu hefur fjárhagsaðstoð hækkað og leitast hefur verið við að koma til móts við barnafjölskyldur, m.a. með því að hækka tómstundastyrki og leikskólagjöld hafa ekki hækkað á kjörtímabilinu. Þá hafa verið teknar upp sérstakar húsaleigubætur sem hafa að markmiði að létta undir með þeim fjölskyldum sem standa höllustum fæti. Oftar en ekki eru það fjölskyldur ungra barna.

    Seltjarnarnes býr að því að útsvarstekjur á hvern íbúa eru með því sem hæst gerist í landinu án þess að heimild til útsvars sé fullnýtt. Það hefur auðveldað stjórnendum sveitarfélagsins að ná jákvæðri rekstrarniðurstöðu síðustu ár og á að gera okkur mögulegt að halda úti háu þjónustustigi og góðu og fjölbreyttu samfélagi á Nesinu.”
    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista

    Bókun:
    Ársreikningar Seltjarnarnesbæjar liggja nú fyrir og eru niðurstöður jákvæðar og betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það helgast m.a. af því að framlög úr jöfnunarsjóði reyndust mun meiri en reiknað var með og svo innheimta eldri útsvarskrafna.

    Þá hafa áætlanir staðist í meginatriðum sem sýnir að vel er haldið utan um rekstur og og ber að þakka starfsmönnum og stjórnendum bæjarins og greinilegt er að hér starfar framúrskarandi starfsfólk sem að leggur sig fram um að sinna þjónustu við bæjarbúa af ábyrgð.

    Enn og aftur vil ég benda á mikilvægi þess að farið sé eftir þeim ábendingum sem að koma fram í endurskoðunarskýrslu KPMG, þar með talið fjármögnun fráveitunnar en eins og fram kemur skiptir miklu máli að leita leiða til að lækka skammtímaskuldir veitunnar, viðvarandi hallarekstur áhaldahúss svo og rekstur félagslegra íbúða og leita leiða til að ná jafnvægi milli tekna og gjalda. Þessar ábendingar hafa komið fram ár eftir ár en ekki hefur verið brugðist við þeim. Ég tel nauðsynlegt að farið sé vandlega yfir þessa liði svo og aðra sem ábendingar voru um og tekið tillit til þeirra í næstu áætlunargerð.

    Fjárfestingar bæjarins árið 2013 fela nær eingöngu í sér nauðsynleg viðhaldsverkefni en ekki verkefni sem lúta að uppbyggingu og þróun til framtíðar. Eftir niðurskurð og hagræðingu sl. ára er nauðsynlegt að fjárferstingar nái til fleiri verkefna heldur en viðhaldsverkefna með það að markmiði að efla lífsgæði bæjarbúa og bæta þjónustu.
    Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

    Bókun:
    Bæjarfulltrúar D-lista vilja þakka minnihlutanum fyrir samstarfið í fjárhagsáætlunargerð fyrir bæinn. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar varpar skýru ljósi á góða fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins. Ársreikningur sveitarfélagsins er í fullu samræmi við sveitarstjórnarlög og hefur endurskoðandi áritað hann. Framsetning ársreikningsins er í samræmi við tilmæli innanríkisráðuneytisins um hvernig ársreikningar skulu lagðir fram. Rekstur Seltjarnarnesbæjar gekk mjög vel á árinu 2013 og var niðurstaðan mun betri en áætlun gerði ráð fyrir. Endurskoðandi bæjarins hefur lagt fram ábendingar í endurskoðunarbók sem vert er að skoða fyrir uppsetningu ársreiknings fyrir árið 2014.
    Virðingarfyllst,
    Ásgerður Halldórsdóttir, Guðmundur Magnússon, Sigrún Edda Jónsdóttir, Lárus B. Lárusson, Bjarni Torfi Álfþórsson.
    Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.

    Fundi framhaldi 17:31
  2. Fundargerð 28. fundar Almannavarna höfuðborgarsvæðisinsins.
    Fundargerðin lögð fram.
  3. Fundargerð 815. fundar stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga.
    Fundargerðin lögð fram.
  4. Fundargerð 45. fundar svæðisskipulagsnefndar höfuðb.svæðisins.
    Fundargerðin lögð fram.
  5. Fundargerð 131. fundar Slökkviliðs höfuðb.svæðisins bs.
    Fundargerðin lögð fram.

Fundi var slitið kl. 17:33

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?