Miðvikudaginn 15. apríl 2015 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.
Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) boðaði forföll, Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ) og Árni Einarsson (ÁE).
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri ritaði fundargerð í tölvu.
Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson setti fund og stjórnaði.
- Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2014, fyrri umræða.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði ársreikningi Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2014.
Auðunn Guðjónsson endurskoðandi KPMG gerði grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins, lykiltölum og endurskoðunarskýrslu.
Bæjarstjóri lagði til að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn og færði starfsmönnum bæjarins þakkir fyrir þeirra hlut í mun betri afkomu bæjarins en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi Seltjarnarnesbæjar 2014 til annarrar og síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar, sem er 29. apríl 2015.
Til máls tóku: ÁE,MLÓ,ÁH - Fundargerð 11. fundar Bæjarráðs.
Fundargerðin sem er 11 tl. er samþykkt samhljóða. - Fundargerð 24. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 23 voru borin upp til staðfestingar:
Bæjarstjórn samþykkir eftirfarandi liði í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar.
Mál.nr. 2014060035
Heiti máls: Aðalskipulag Seltjarnarness 2006-2024 endurskoðun.
Lýsing: Ákvörðun um kynningu Aðalskipulags á vinnslustigi.
Afgreiðsla: .Samþykkt að vísa til bæjarstjórnar ákvörðun um kynningu Aðalskipulags á vinnslustigi.
Bæjarstjórn samþykkir forkynningu á tillögu að nýju aðalskipulagi verði kynnt íbúum á íbúafundi 22. apríl nk., hún verði sett fram með uppdráttum og greinargerð. Tillagan verði gerð aðgengileg í þjónustuveri og á heimasíðu. Á forkynningarstigi verður hægt að koma með ábendingar um innihald tillögunnar sem unnið verður úr og tillagan síðan lögð fyrir skipulagsnefnd og bæjarstjórn að nýju. Kynning aðalskipulagstillögu á vinnslustigi fari eftir grein 4.6.1 í skipulagsreglugerð.
Samþykkt með fimm atkvæðum, einn sat hjá.
Bókun Neslista:
Það er mikilvægt að virkja íbúa til þátttöku í skipulagsvinnu á öllum stigum hennar þannig að sem mest sátt skapist. Neslistinn styður því að kallað sé eftir viðbrögðum íbúa við endurskoðun aðalskipulags Seltjarnarness þegar á undirbúnings- og vinnslustigi eins og afgreiðsla skipulags- og umferðarnefndar felur í sér. Það er faglegt og sýnir vilja nefndarinnar til að upplýsa íbúa um álitamál og fá frá þeim hugmyndir og athugasemdir, enda telur bæjarfulltrúi Neslistans að hér sé um að ræða óformlega íbúakynningu en ekki tillögu til umsagnar hjá formlegum, lögbundum umsagnaraðilum.
Bæjarfulltrúi Neslista tekur hins vegar undir ábendingu sem fram kemur í bókun Stefáns Bergmanns um mikilvægi þess að tillögur sem lagðar eru fram á vinnslustigi séu greinargóðar og upplýsandi og feli í sér upplýsingar um eðli og inntak þeirra hugmynda sem unnið er með. Það er grundvallarforsenda efnislegrar umræðu.
Bæjarfulltrúi Neslista minnir líka á að svörum við skriflegum spurningum fulltrúa Neslista og Samfylkingar í skipulags- og umferðarnefnd hefur ekki verið svarað. Það er til vansa. Í svörum við þeim spurningum felast mikilvægar og gagnlegar upplýsingar sem myndu auðvelda íbúum að átta sig á eðli margra þeirra hugmynda sem fram koma í skipulagstillögunni.
Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista
Bókun meirihlutans.
Meirihlutinn vill taka fram að íbúar hafa verið hvattir til þátttöku í þessu ferli. Efnt hefur verið til funda með íbúum og hagsmunaaðilum þar sem kallað var eftir hugmyndum um innihald lýsingar á aðalskipulagsgerðinni. Nú hefur bæjarstjórn samþykkt forkynningu, kynningin verður sett fram með uppdráttum og greinargerð. Á forkynningarstiginu verður hægt að koma með ábendingar um innihald tillögunnar sem unnið verður úr og tillagan síðan lögð fyrir skipulagsnefnd að nýju.
Á meðan á aðalskipulagsferlinu stendur verður hægt að kynna sér allt sem lýtur að aðalskipulagsgerðinni á vef Seltjarnarnesbæjar eða hjá skipulagsstjóra.
Ásgerður Halldórsdóttir (sign) Bjarni Torfi Álfþórsson (sign)
Sigrún Edda Jónsdóttir (sign) Magnús Örn Guðmundsson (sign)
Til máls tóku: ÁE, MÓL,ÁH, BTÁ
Byggingamál samkvæmt Mannvirkjalögum 2010/160
Afgreiðslur byggingarfulltrúa
10. apríl 2015, 2015030061 Tjarnarból 15. Áform um byggingarleyfi v/breytinga inni samþykkt. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu byggingarfulltrúa.
10. apríl 2015, 2015040027Hrólfsskálamelur 1-5. Áform um byggingarleyfi 34 íbúða fjölbýlishús samþykkt. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Til máls tóku: ÁE, BTÁ - Fundargerð 391. fundar Fjölskyldunefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: MLÓ - Fundargerð 380. Fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: ÁE,MÖG,ÁH,MLÓ,SEJ - Fundargerð 255. fundar Umhverfisnefndar.
Fundargerðin lögð fram. - Fundargerð 115. fundar Veitustofnana.
Fundargerðin lögð fram. - Fundargerð aðalfundar Hrólfsskálamels ehf.
Fundargerðin lögð fram. - Fundargerð stjórnar Félagsheimilis Seltjarnarness.
Fundargerðin lögð fram. - Fundargerð 215. fundar stjórnar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram. - Fundargerðir 348. og 349. fundar stjórnar SORPU bs.
Fundargerðirnar lagðar fram. - Fundargerð 145. fundar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.
Fundargerðin lögð fram. - Fundargerð 827. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
Fundargerðin lögð fram. - Fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs.
Fundargerðin lögð fram. - Fundargerð 56. fundar svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins.
Fundargerðin lögð fram.
Fundi var slitið kl. 18:26