Fara í efni

Bæjarstjórn

17. ágúst 2016

Miðvikudaginn 17. ágúst 2016 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS),  Magnús Rúnar Dalberg (MRD) og Árni Einarsson (ÁE).

Ritari bæjarstjórnar Gunnar Lúðvíksson,  ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson  setti fund og stjórnaði.

 1.  Kosning forseta bæjarstjórnar samkvæmt 7. gr. bæjarmálasamþykktar.
  Bjarni Torfi Álfþórsson kjörinn forseti með 4 atkvæðum, en 3 sátu hjá.
  Fyrsti forseti bæjarstjórnar var kjörinn Sigrún Edda Jónsdóttir með 4 atkvæðum, en 3 sátu hjá.
  Annar forseti bæjarstjórnar var kjörinn Magnús Örn Guðmundsson með 4 atkvæðum, en 3 sátu hjá.
  Nýkjörinn forseti bæjarstjórnar tók við fundarstjórn.
 2. Fundargerð 42. fundar Skipulags- og umferðanefndar.
  Fundargerðin lögð fram.
  Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og umferðanefndar nr. 42 voru borin upp til staðfestingar:
  Mál.nr. 2014110033
  Heiti máls: Valhúsahæð og grannsvæði tillaga um deiliskipulag.
  Lýsing:  Umsögn umhverfisnefndar um tillögur að deiliskipulagi fyrir Valhúsahæð og grannsvæði.
  Afgreiðsla: Nefndin leggur til að umsögn umhverfisnefndar fylgi með deiliskipulagstillögunni og villur í  tillögu verði leiðréttar.
  Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Skipulags- og umferðanefndar, samkvæmt 43.gr Skipulagslaga nr. 123 frá 2010 og vísa til auglýsingar.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða.

  Fundargerð 43. fundar Skipulags- og umferðanefndar.
  Fundargerðin lögð fram.

  Mál.nr.
  2016040139
  Heiti máls: Kolbeinsmýri, deiliskipulagsbreyting vegna Suðurmýri 10.
  Málsaðili: Verkstjórn ehf.
  Lýsing:  Deiliskipulagsbreyting í Kolbeinsstaðarmýri vegna Suðurmýri 10 þar sem fjölgað er íbúðum í 5 og bílastæðum. Komnar 2 tillögur.
  Afgreiðsla: Samþykkt tillaga B. Hámarkshæð húss verði 7 m. Byggingarfulltrúi  falið að ákveða endanlegan gólfkvóta við hönnuði.

  Ragnhildur lagði fram eftirfarandi bókun:
  Ég er ekki á móti þéttingu byggðar en mér finnst forsendur í gildandi aðalskipulagi veikar og kalla ég eftir skýrari stefnumörkun við endurskoðun aðalskipulags. 5 íbúðir kalla á aukið álag á nágrennið og 5 bílastæði taka næstum allan suðurgarðinn. Mér finnst 3 til 4 íbúðir vera hámark á þessari lóð og fordæmi eru fyrir á svæðiu.
  Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Skipulags- og umferðanefndar, samkvæmt 43.gr Skipulagslaga nr. 123 frá 2010 og vísa til auglýsingar.
  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða.
  Til máls tóku: MÖG, GAS, ÁE, BTÁ,SEJ

  Bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Magnúsar Arnar Guðmundssonar: 
  Undirritaður gerir athugasemd við afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar. Á svæði A í deiluskipulagi Vesturhverfis er jöfn byggð einbýlishúsa og hvorki leyfð fjölgun íbúða né aukinn hæðafjöldi. Leitast skal við að samræma þakform og hæð að aðlægum húsum.
  Fyrirhugaðri breytingu á deiliskipulagi var harðlega mótmælt af íbúum nærliggjandi húsa enda engin veigamikil rök fyrir henni. Í umsögn Landslaga, bæði frá 17. maí og 6. júní 2016, er tekið undir það og flestar aðrar athugasemdir íbúa. Áður hafði bærinn synjað breytingu sem var 20cm hærri og var sú synjun úrskurðuð lögmæt af Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í umsögn skipulagshöfundar nú er mælt með að hækkun hússins um 2,5 metra frá loftplötu neðri hæðar verði samþykkt á grundvelli núverandi deiliskipulags. Þar er samt sem áður áréttað að samþykktin sé ekki fordæmisgefandi og þar með er verið að mismuna íbúum. Að mati undirritaðs er eðlilegast að skoða forsendur fyrir svæðið í heild í deiluskipulagi ef gera á slíka breytingu.
  Undirritaður telur ekki rétt að gefa út byggingaleyfi með þessum hætti og að umtalsverður vafi liggi á lögmæti framkvæmdarinnar á grundvelli núverandi deiluskipulags, og þar með skaðabótaskyldu bæjarins.
  Magnús Örn Guðmundsson (sign)

  Tillögur vegna 3. liðar 43. fundar Skipulags- og umferðanefndar
  Tillaga 1
  Undirritaður bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga ber upp tillögu um að óskað verði eftir óháðu sérfræðiáliti skipulagssérfræðings og lögfræðings á því hvort umsögn Valdísar Bjarnadóttur skipulagshöfundar á deiluskipulagi Vesturhverfis og afgreiðsla skipulagsnefndar um að hætta við auglýsta deiluskipulagsbreytingu standist fyrir dómsstólum.
  Tillaga 2
  Undirritaður bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga ber upp tillögu um að byggingarleyfi fyrir Miðbraut 34 verði afturkallað tímabundið þangað til að endanleg niðurstaða liggur fyrir í málinu.
  Tillaga 3
  Undirritaður bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga ber upp tillögu um að vísa áframhaldandi vinnu við mál Miðbrautar 34 til bæjarráðs.
  Rökstuðningur
  Undirritaður tekur með þessu enga efnislega afstöðu í málinu en telur að neðangreind rök frá lögmanni nágranna Miðbrautar 34 sýni að afgreiðsla skipulags- og umferðarnefndar sem byggð er á umsögn Valdísar Bjarnadóttur er á gráu svæði og að mikilvægt sé að kalla eftir frekari úttekt og gögnum til að koma í veg fyrir brot á skipulagslögum og hugsanlegri bótaskyldu bæjarins. Mikilvægt er að við sem sitjum í bæjarstjórn sýnum ábyrgð þegar kemur að skipulagsákvörðunum og meðferð fjármuna sveitarfélagsins.
  Með leyfi forseta vil ég fá að lesa upp samantekt Eiríks S. Svavarssonar hæstaréttarlögmanns og lögmanns nágranna Miðbrautar 34:

  “Miðbraut 34
  Samantekt á staðreyndum og röksemdum
  Nýlegt deiliskipulag Vesturhverfis frá 2007, skiptist í þrjú deiliskipulagssvæði A, B og C hluta en grundvallarmarkmið deiliskipulagsins er að tryggja meira samræmi í sundurleitri byggð.
  Skiptingin í A, B og C hluta gegnir lykilhlutverki við að tryggja þetta markmið.

  Miðbraut 34 er á A-hluta skipulagsins. Í A-hluta er jöfn byggð einnar hæða húsa. Skilmálar deiliskipulagsins banna „...aukin hæðarfjölda og fjölgun íbúða“ á A-hluta svæðisins. Það fer því gegn gildandi deiliskipulagi þegar aukið byggingarmagn felur í sér aukin hæðarfjölda.

  Eigandi Miðbrautar 34 lagði fram beiðni um hækkun hússins (þakhækkun) um heila 2,5 metra í febrúar 2016. Sambærilegu erindi hafði bærinn hafnað árið 2013 vegna Miðbrautar 34. Ekkert hefur breyst síðan, hvorki deiliskipulag né nær- umhverfi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála af eiganda Miðbrautar 34 sem með úrskurði sínum staðfesti ákvörðun Seltjarnarnesbæjar um höfnun. Í rökstuðningi sagði m.a. að í tillögunni kæmi fram að skuggavarp aukist við þessa breytingu á nærliggjandi lóðir en jafnframt að ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna hækkun hússins sé studd efnisrökum.

  Þrátt fyrir höfnun á sambærilegu erindi fyrir þremur árum ákvað Seltjarnarnesbær  nú að auglýsa hækkun þaks að Miðbraut 34 sem deiliskipulagsbreytingu. Fjöldi íbúa allt í kringum Miðbraut 34 lagði fram skrilfegt mótmælabréf auk þess sem lögmaður hópsins og einn íbúanna lögðu fram ítarlegar og rökstudda athugasemdir við fyrirhugaða deiliskipulagsbreytingu.

  Fyrir liggur álit lögmanns Seltjarnarnesbæjar, dags. 17. maí 2016, og síðar 6. júní s.á., þar sem tekið er efnislega undir flestar athugasemdanna sem íbúar í kring lögðu fram. Meðal þeirra atriða sem íbúar bentu á var tilraun beiðanda/sveitarfélagsins til að stinga þessu eina húsi að Miðbraut 34 framhjá A-hluta svæðinu (þar sem bannað er að breyta húsum með auknum hæðarfjölda) með því að draga upp nýja línu milli og A- og B-hluta deiliskipulagsins.

  Þegar fundargerðir skipulags- og umferðarnefndar nr. 41, 42. og 43 eru skoðaðar blasir við hvað gerst hefur í sumar. Í kjölfar þungra og málefnalegra röksemda íbúanna í kringum Miðbraut 34 leggst skipulagsnefnd í að kalla til bæði lögmann og hönnuð deiliskipulagsins sem kjósa að leggja það til að á meðan hækkun þaksins er innan 2,70 m. þá teljist slík hækkun ekki vera hæð í skilningi deiliskipulagsins og slík hækkun sé heimil án breytinga á deiliskipulagi. Þetta er tilbúningur sem heldur ekki þegar litið er hagsmuna allra skv. gildandi deiliskipulagi.

  Eftir að þessari ábendingu var komið til umsækjandans Ívars Ívarssonar afturkallar hann fyrri beiðni um hækkun þaks og biður nú um „uppstólun á þaki um 2,5 m“. Hvað svo sem orðið uppstólun merkir í þessu sambandi þá ákveður skipulagsnefnd nú að afturkalla þegar byrjaðan lögboðin feril fyrir deiliskipulagsbreytingu og brýtur þannig gegn skýrum málsmeðferðarreglum 1. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Það eitt getur leitt til ógildingar málsins.

  Þann 19. júlí s.l., sbr. 43. fundur skipulags- og umferðarnefndar samþykkir nefndin hina nýju beiðni Ívars Ívarssonar að Miðbraut 34 og heimilar hækkun þaksins um 2,5 m. Með þessu er ljóst að sveitarfélagið brýtur gegn þeim grundvallarprinsippum sem það barðist fyrir við gerð núgildandi deiliskipulags árið 2007 og 2008, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar 28. apríl 2008 í máli nr. 94/2007. Með þessari samþykkt er einni fasteign á A-hluta deiliskipulags Vesturhverfis, sem í dag eru allar á einni hæð, heimilað að hækka þak um 2,5 m.

  Með sömu rökum og þessi ákvörðun grundvallast á er skapað fordæmi fyrir allar fasteignir í A-hluta til að fá samþykkta sams konar hækkun svo framalega sem hún er lægri en 2,7 m. enda telst hún þá ekki hæð í skilningi deiliskipulagsins.
  Með þessari samþykkt er:
  -          Brotið gegn grundvallarmarkmiði gildandi deiliskipulags sem er að samræma stærðir húsa og yfirbragð hverfisins.
  -          Hverfur sveitarfélagið frá því að verja markmið gildandi deiliskipulags Vesturhverfis og gengur þvert gegn þeim með því að opna fyrir breytingar í A-hluta sem eru nú bannaðar.
  -          Sveitarfélagið að hyggla einum fasteignareiganda og hagsmunum hans á kostnað heildarinnar og hagsmuna þeirra, en íbúar svæðisins eiga lögmætan rétt og væntingar til þess að nýlegt deiliskipulag í þegar byggðu hverfi sé virt en ekki brotið af sveitarfélaginu sjálfu.
  -          Sveitarfélagið að baka sér skaðbótaskyldu fyrir mjög háum fjárhæðum enda má ljóst vera að eigandi Miðbrautar 34 og/eða íbúar nærliggjandi fasteigna munu krefja sveitarfélagið um háar bætur komi til þess að byggingarleyfi bæjarins verði talið ólögmætt. Athugið að bótaábyrgð bæjarins er hlutlæg og þarf því ekki að sanna sök. Dómar hæstaréttar vegna Suðurhúsa 2 staðfesta að aðstaðan sem nú er kominn upp í máli Miðbrautar 34 mun leiða til skaðabótaábyrgðar bæjarins reynist ákvörðun bæjarins ólögmæt.

  Skynsamir bæjarfulltrúar efna lögbundnar skyldur sínar gagnvart öllum íbúum í Vesturhverfi með því að koma í veg fyrir þetta skipulagsslys og um leið koma í veg fyrir háar skaðabótagreiðslur úr bæjarsjóði, langar grenndarerjur og aðrar afleiðingar þessa máls með því að staðfesta ekki ákvörðun skipulagsnefndar þegar fundargerð 43. fundar nefndarinnar verður tekin fyrir á bæjarstjórnarfundi þann 17. ágúst n.k. “
  Guðmundur Ari Sigurjónsson
  Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

  Tillögu Guðmundar vísað til bæjarráðs.
 3. Fundargerð 276. fundar Skólanefndar.
  Fundargerðin lögð fram.
 4. Fundargerð 267. fundar Umhverfisnefndar.Fundargerðin lögð fram.
  Bæjarstjórn óskar eftir eftir rökum fyrir bókun nefndarinnar varðandi reiðhjólastíg á Vestursvæðinu.
  Til máls tóku: ÁE, ÁH, GAS, BTÁ 
 5. Fundargerð 8. fundar vinnuhóps um deiliskipulag.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: SEJ, ÁE
 6. Fundargerð 25. fundar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis.
  Fundargerðin lögð fram.
 7. Fundargerðir 363. og 364. fundar stjórnar SORPU bs.
  Fundargerðirnar lagðar fram.
 8. Fundargerðir 430. og 431. fundar  stjórnar SSH.
  Fundargerðirnar lagðar fram.
 9. Fundargerðir, 246., 247. og 248. fundar stjórnar STRÆTÓ bs.
  Fundargerðirnar lagðar fram.
 10. Fundargerð 841. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: ÁE, ÁH

  Tillögur og erindi:
 11. a)  Bréf Velferðarvaktarinnar um hvatningu til sveitarstjórna um að leggja af kostnaðarþátttöku foreldra vegna ritfangakaupa, dags. 09.08.16.
  Bæjarstjórn vísar bréfinu til fræðslusviðs og m.a. kostnaðargreina það.

Til máls tóku: SEJ, ÁE, GAS

 

 

 

 

Fundi var slitið kl.: 17:44

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?