Fara í efni

Bæjarstjórn

23. nóvember 2016
Miðvikudaginn 23. nóvember 2016 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Árni Einarsson (ÁE).

Ásgerður Halldórsdóttir ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson setti fund og stjórnaði.

Forseti kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun sem lögð er fram í nafni allra bæjarfulltrúa.

"Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar skorar á Alþingi að grípa inn í og endurskoða sem allra fyrst nýlegan úrskurð kjararáðs um þingfararkaup og laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar. Bæjarstjórn telur brýnt í nafni stöðugleika að laun kjörinna fulltrúa og laun æðstu embættismanna ríkis og sveitarfélaga fylgi almennri launaþróun í landinu á hverjum tíma.
Bæjarstjórn samþykkir að laun kjörinna fulltrúa og nefndarmanna á Seltjarnarnesi, sem tengjast þingfararkaupi og þar með ákvörðun kjararáðs, hækki ekki í samræmi við nýlegan úrskurð kjararáðs heldur haldist óbreytt að sinni og bíði umræðu á Alþingi um úrskurðinn."

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

 1. Forseti óskaði eftir að fundargerð bæjarráðs nr. 40 frá því fyrr í dag verði tekin inn á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða.Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2017 – síðari umræða.
  Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2017-2020.
  Forseti gaf bæjarstjóra orðið og fór bæjarstjóri yfir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir árið 2017-2020.

  ,,Fjárhagsáætlun 2017 var unnin í samvinnu allra bæjarfulltrúa, með það að leiðarljósi að styðja vel við grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Þetta verklag hefur gefist vel og undirstrikar skilning bæjarfulltrúa á fjármálum bæjarins, sem þeir bera ábyrgð á. Vil ég þakka gott samstarf í bæjarstjórn á liðnu ári og starfsmönnum bæjarins fyrir að gæta skilvirkni í rekstri bæjarins. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árin 2018-2020.
  Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 4% frá upphafi til loka ársins 2017.

  Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2017.
  Álagningarhlutfall útsvars verður 13,70% með vísan til 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.
  Fasteignagjöld:
  A- hluti – íbúðarhúsnæði, álagningarhlutfall 0,20% af fasteignamati
  B- hluti - opinbert húsnæði, álagningahlutfall 1,32% af fasteignamati
  C- hluti – atvinnuhúsnæðis og óbyggt land, álagningarhlutfall 1,1875% af fasteignamati
  b. Lóðarleiga: A-hluta 0,40% og B-hluta 1,75% af lóðarhlutamati

  Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,10% af fasteignamati húsa ásamt lóðarréttindum, sbr. heimild í reglugerð um vatnsveitur
  Sorp- og urðunargjald kr. 23.800.- á hverja eign
  Fráveitugjald: Álagningahlutfall 0,14% af fasteignamati
  Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2017 verða óbreyttir frá fyrra ári.
  Elli og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi af íbúðarhúsnæði til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um.
  Laun eru hækkuð til samræmis við gildandi kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.
  Gert er ráð fyrir fjölgun íbúa árinu u.þ.b. 70.

  Ásgerður Halldórsdóttir (sign).

  Að lokinni umræðu um fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir starfsárið 2017 - 2020, ásamt gjaldskrá og greinargerð, var gengið til atkvæðagreiðslu um áætlunina í heild sinni.
  Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun 2017 samhljóða.

  Bókun Neslista og Samfylkingar vegna fjárhagsáætlunar 2017
  Bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar styðja þá tillögu að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2017 sem hér liggur fyrir þrátt fyrir að við hana megi gera ýmsar athugasemdir. Við vinnslu hennar kom vel í ljós að rekstur bæjarins er í algerum járnum og sáralítið má út af bera til þess að forsendur hennar bresti og margir óvissuþættir eru fyrir hendi. Kjaramál grunnskólakennara eru í hnút og ófyrirséð hvernig þeim lyktir.

  Framundan er óhjákvæmileg uppbygging á þjónustu við fatlað fólk og það er algert forgangsmál að hefja strax undirbúning að byggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk. Flýta þarf áætlanagerð vegna þessa þannig að notendur þjónustunnar hafi sem gleggstar upplýsingar um það sem framundan er. Við bendum einnig á að óásættanlegur biðlisti er eftir félagslegum íbúðum og bæta þarf aðstöðu fyrir vaxandi hóp eldri borgara á Seltjarnarnesi. Framundan eru viðamiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir við íþróttamiðstöðina og bygging hjúkrunarheimilis er í pípunum. Allt eru þetta þættir sem geta haft afgerandi áhrif á rekstur sveitarfélagsins og því ljóst að halda þarf vel á spilunum.

  Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista
  Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
  Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar

  Bókun Sjálfstæðismanna, meirihluta:
  Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2017 hefur nú verið samþykkt. Þar er gert ráð fyrir að tekjur bæjarfélagsins verði tæpir 2,9 milljarðar króna og rekstrarafgangur verði 16 milljónir króna. Fjárhagsáætlun skal gefa glögga mynd af rekstri sveitarfélagsins, efnahag og breytingum á handbæru fé. Bæjarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að bæjarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.

  Fjárhagsáætlun var unnin á samráðsfundum meiri- og minnihluta og eru það vinnubrögð sem við Sjálfstæðismenn teljum farsæl fyrir bæjarfélagið. Við teljum að markmið og áherslur um forgangsröðun í þágu barnafjölskyldna hafi náð fram að ganga í fjárhagsætluninni.

  Það er stefna bæjarstjórnar að leikskólagjöld á Seltjarnarnesi séu með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu. Á liðnu ári lækkuðu leikskólagjöld á Seltjarnarnesi um 25% og var það gert til að koma til móts við barnafjölskyldur í bæjarfélaginu. Tómstundastyrkir voru einnig hækkaðir á liðnu ári en með hverju barni 6 – 18 ára eru greiddar kr. 50.000,- og niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum hafa einnig verið hækkaðar í samræmi við lækkun leikskólagjalda.

  Álagning fasteignagjalda í A-flokki verður 0,20% af matsverði íbúðarhúsnæðis og lóðar og álagningarprósenta útsvars verður langt undir hámarki eða 13,70%, en hámarkið er 14,52%.

  Helstu framkvæmdir á næsta ári felast í byggingu 40 rýma hjúkrunarheimilis en búið er að samþykkja tilboð í verkið fyrir tæpan 1.5 milljað króna. Einnig stendur til að endurnýja og byggja við íþróttamiðstöð bæjarins þar sem aðstaða fimleikadeildar verður endurnýjuð.

  Endurbætur og viðhald á stofnunum bæjarins hefur gengið vel eftir, og halda áfram á nýju ári. Undirbúningur fyrir gatnaframkvæmdir við Bygggarða eru í skoðun.

  Skuldastaða sveitarfélagsins er með því lægsta er gerist á landinu og komið niður í 50%. Seltjarnarnesbær hefur staðið fyrir miklum framkvæmdum í bænum, framkvæmt hefur verið fyrir rúman milljarð á liðnum fjórum árum.

  Ásgerður Halldórsdóttir (sign) Bjarni Torfi Álfþórsson (sign)
  Sigrún Edda Jónsdóttir (sign) Magnús Örn Guðmundsson (sign)

  Til máls tóku: ÁH, ÁE, GÁS
 2. Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2018 – 2020.

  Forseti gaf bæjarstjóra orðið og fór bæjarstjóri yfir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir árið 2018 – 2020.

  3ja ára áætlun fyrir árin 2018-2020 samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta, minnihluti situr hjá.

  3ja ára áætlun 2018-2020.

  Bókun Neslista og Samfylkingar vegna þriggja ára fjárhagsáætlunar
  Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Neslista sitja hjá við afgreiðslu þriggja ára fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar. Með þeirri þriggja ára fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir er eingöngu verið að uppfylla lagaskyldu og engin tilraun gerð til að leggja mat á þarfir og þróun samfélagsins til næstu ára. Minnihlutinn hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins sé ítarleg og endurspegli framtíðarsýn og áherslur íbúa um þjónustu og uppbyggingu. Að því markmiði má meðal annars vinna með því að gefa íbúum tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku við að velja á milli og forgangsraða verkefnum og þjónustu.

  Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista
  Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
  Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar

  Bókun Sjálfstæðismanna:
  Í þriggja ára áætlun birtist sýn sjálfstæðismanna á hvernig starfsemi og fjármál sveitarfélagsins komi til með að þróast á næstu þremur árum út frá gefnum forsendum.

  Tilgangur þriggja ára áætlana er að bæjarstjórn horfi til framtíðar við vinnslu hennar og setji ramma um rekstur, framkvæmdir og fjármál bæjarfélagsins með ákveðin markmið í huga. Við slíka vinnu hljóta að koma upp ýmis sjónarmið varðandi ákvarðanatöku, umfang framkvæmda, áherslur og fjárhagslega getu bæjarins út frá ýmsum sjónarmiðum.

  Við gerð þriggja ára áætlunar ríkir óvissa um ýmsa þætti sem skipta verulega máli við áætlanagerð. Óvissan eykst eftir því sem lengra er skyggnst inn í framtíðina m.a. óvissa um verðlagsþróun. Því eru niðurstöður þriggja ára áætlunar ætið háðar ákveðnum óvissuatriðum. Grundvallaratriði er aftur á móti að mati Sjálfstæðismanna að vandað sé til allra vinnslu þriggja ára áætlunar til að hún komi að því gagni sem ætlast er til, útsvarstekjur, fasteignaskattur, greiðslur úr jöfnunarsjóði hefur verið áætlaðar með tilliti til fyrri ára og fjárhagsáætlunar ársins 2017. Varðandi gjöldin er laun og launatengd gjöld stærsti einstaki liðurinn.

  Við samþykkt 3ja ára fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2018-2020 skal tekið fram að niðurstaða fyrir seinni þrjú ár fjárhagsáætlunar er ekki bindandi.

  Ásgerður Halldórsdóttir (sign) Bjarni Torfi Álfþórsson (sign)
  Sigrún Edda Jónsdóttir (sign) Magnús Örn Guðmundsson (sign)

  Bæjarstjóri lagði til að skipaður yrði 3ja manna teymi til að leiða vinnu við að skoða rafræna þátttöku íbúa bæjarfélagsins varðandi þeirra nærumhverfi og þau verkefni sem þar þarf að vinna.

  Markmið verkefnisins er að tengja bæjaryfirvöld við íbúa, hvetja íbúa til að láta sig nærumhverfið varða, koma hugmyndum sínum á framfæri og að íbúar forgangsraði síðan hluta fjármagns sem ráðstafað er í þetta verkefni árlega með íbúakosningu.

  Lagt er til að teymið skili af sér tillögu að útfærslu rafrænna kosninga um nærumhverfi íbúa eigi síðar en 28. febrúar 2017 til bæjarráðs.

  Bæjarstjórn samþykkir að tilnefna, Guðmund Ara Sigurjónsson sem formann, Árna Einarsson og Sigrúnu Eddu Jónsdóttur og starfsmaður Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri.
  Til máls tóku: ÁE, ÁH,
 3. 40. fundur Bæjarráðs.
  Fundargerðin er í tveimur liðum, liður nr. 1 og liður nr. 2, bornir upp til samþykktar, samþykkt samhljóða.
  Til máls tóku: GAS, SEJ, MÖG, ÁE
 4. 407. fundur Fjölskyldunefndar.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: ÁE, ÁH, GAS,
 5. 121. fundur Veitustofnana Seltjarnarness.
  Fundargerðin lögð fram. Fundargerð staðfest samhljóða.
  Til máls tóku:ÁE, MLÓ
 6. Fundur hjá Samráðshópi um áfengis- og vímuvarnir.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: ÁE, GAS,
 7. 355. fundur Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: MÖG, GAS,
 8. 254. fundur stjórnar Strætó bs.
  Fundargerðin lögð fram.
  Til máls tóku: SEJ, GAS,
 9. 254. fundur stjórnar SSH.
  Fundargerðin lögð fram.
 10. Erindi: Lögð var fram yfirlýsing, dags. 27. október 2016 frá Björgunarsveitinni Ársæli vegna flugeldasölu frá 1. desember 2016 til 10. janúar 2017. Bæjarstjórn samþykkir leyfi til flugeldasölu fyrir tímabilið 1.12.2016-10.01.2017.
  Til máls tóku: BTÁ

Fundi var slitið kl.: 17:49

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?