Fara í efni

Íþrótta- og tómstundanefnd

437. fundur 30. nóvember 2022

437.(4.) fundur Íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness var haldinn í fundarherberbi íþróttahússins, miðvikudaginn 30. nóvember kl. 8:15.

Fundinn sátu: Örn Viðar Skúlason, Guðmundur Helgi Þorsteinsson, Inga Þóra Pálsdóttir, Guðmundur Gunnlaugsson og Ólafur Finnbogason.
Starfsmaður: Haukur Geirmundsson íþrótta- og tómstundafulltrúi
Ritari fundar: Haukur Geirmundsson.

Dagskrá:

 

1. 2022110243 - Styrkbeiðni – Grótta knattspyrnudeild

Lögð fram beiðni frá Knattspyrnudeild Gróttu um styrk til kaupa á mörkum. Um er að ræða bilanir á stærri mörkum og þörf fyrir fleiri mörk af minnstu gerð. Áætlaður kostnaður við 4 mörk af hvorri gerð er um 2,7 m.kr.

ÍTS leggur til að starfsmenn þjónustumiðstöðvar athugi hvort hægt sé að lagfæra stærri mörkin og lengja þar með líftíma þeirra. Íþróttafulltrúa var falið að fylgja málinu eftir og fá nánari upplýsingar frá Gróttu um málið.

2. 2022110244 - Kjör íþróttamanns og konu Seltjarnarness 2022 

Árlegt kjör á íþróttamanni og konu Seltjarnarness hefur farið fram fljótlega eftir áramótin ár hvert. Ákveðið var að kjörið fari fram fimmtudaginn 26. janúar 2023. Óskað verður eftir tilnefningum hjá aðildarfélögum bæjarins og í auglýsingu í Nesfréttum.

3. 2022110245 - Samstarfssamningur Nesklúbbs 

Samstarfssamningur Seltjarnarnesbæjar og Nesklúbbsins rann út í lok árs 2021. Á fundi með forsvarsmönnum golfklúbbsins kom fram að mikil aukning hefur verið í barna og unglingastarfi klúbbsins. Félagið öðlaðist vottun Íþrótta- og Ólympíu-sambandsins sem fyrirmyndarfélag sem er mikil viðurkenning á öflugu barna- og unglingastarfi undanfarin ár.

ÍTS óskar Nesklúbbnum til hamingju með árangurinn og tekur vel í endurnýjun á samstarfssamningi. Ákveðið var að formaður ÍTS hugi að uppfærslu á samningnum með forsvarsmönnum golfklúbbsins og að stefnt verði að umfjöllun um uppfærðan samning á fundi ÍTS í janúar.

4. 2022110246 - Samstarfssamningur Gróttu

Samstarfssamningur Seltjarnarnesbæjar og Íþróttafélagsins Gróttu rennur út um næstu áramót.

Ákveðið var að formaður ÍTS eigi fund með forsvarsmönnum Gróttu um uppfærslu á samningnum. Stefnt verði að umfjöllun um uppfærðan samning á fundi ÍTS í janúar.

5. 2022110247 - Aðstöðumál Gróttu 

Á haustmánuðum barst ÍTS bréf sem innihélt framtíðaráform Íþróttafélagsins Gróttu í aðstöðumálum.

ÍTS sér ekki fram á að umbætur á aðstöðu Gróttu verði fyrirferðarmikil í rekstrar- og fjárfestingaáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir 2023. Nefndin hyggst þó fara betur yfir hugmyndirnar á næsta ári og hvetja til þess að hluti þeirra verði settur á dagskrá árin 2024 - 2025.

6. 2022110248 - Útleiga íþróttamannvirkja

Að undanförnu hefur skapast umræða um almenna útleigu Íþróttafélagsins Gróttu á samkomusölum í íþróttahúsi og knattspyrnuvelli til skemmtanahalds. Í umræðunni hefur verið bent á mikla áfengisdrykkju og hávaða sem fylgt hefur útleigunni. Fyrir liggur að forsvarsmenn Gróttu hafa skerpt á reglum og vinnulagi við útleigu, en aðalstjórn Gróttu hyggst ræða frekari aðgerðir í þá veru á næstunni.

ÍTS ítrekar mikilvægi þess að vel sé haldið utan um þessi mál hjá Gróttu og óskar eftir að fá sendar upplýsingar um frekari fyrirbyggjandi aðgerðir frá aðalstjórn félagsins.

7. 2022030175 - Sjósund á Seltjarnarnesi

Á fundi ÍTS nr. 432 þann 25.mars sl. var fjallað um endurnýjun á sjósundsskýli við Kotagranda og tekið vel í hugmyndir Margrétar Leifsdóttur sem hefur hannað nýtt skýli fyrir sjósundsiðkendur. Málið hefur ekki hlotið framgang.

ÍTS felur formanni ÍTS að taka málið aftur upp við Margréti. Skoðað verði hvernig staðið yrði að rekstri þess og þrifum, yfirfara kostnaðaráætlun og huga að möguleikum til að tengja kalt og heitt vatn við skýlið. Ný og betri aðstaða fyrir þá sem stunda sjósund er hvetjandi og styður við heilsueflandi Seltjarnarnesbæ.

 

Fundi slitið kl.9:30.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?