Fara í efni

Íþrótta- og tómstundanefnd

298. fundur 13. september 2005

298. (37) fundur æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness, haldinn 13. september, 2005 kl. 17:30 í Íþróttamiðstöð Seltjarnarness

Mætt voru: Ásgerður Halldórsdóttir, Árni Einarsson, Sigrún Edda Jónsdóttir, Sjöfn Þórðardóttir og Haukur Geirmundsson.

Forföll: Nökkvi Gunnarsson.

Fundargerð ritaði: Árni Einarsson.

1.       Aðalskipulag Seltjarnarness. Greinargerð , stefnumörkun.

2.       Knattspyrnuvöllur, áætlun.

3.       Drög að fjölskyldustefnu. Umsögn.

 

1.       Liður 3,2, bls. 10-12 var sérstaklega skoðaður með tilliti til íþróttastarfs og möguleika til útivistar. Einnig liður 4.4, bls. 21. ÆSÍS gerir ekki athugasemdir við fyrirliggjandi greinargerð, en óskar eftir að í kaflanum Grunn- og leikskólar og tónlistarskóli þar sem segir: Umhverfi skólanna verði aðlaðandi og uppfylli þarfir nemenda, á bls. 21, komi: m.a. með tilliti til útivistar og leikja.

2.       Farið yfir frumáætlun um byggingu knattspyrnuvallar við Suðurströnd sem unnin er af VSÓ Ráðgjöf, dags. 1. sept. 2005. ÆSÍS ályktar eftirfarandi og vísar til bæjarstjórnar: Hafist verði sem fyrst handa við gerð keppnisvallar með gervigrasyfirborði í fullri stærð, 68x105 m við Suðurströnd, og framkvæmdum ljúki í einum áfanga. Hönnun hefjist ekki síðar en í september 2005, útboð verði í október og framkvæmdir við jarðvinnu hefjist í nóvember. Miðað verði við að yfirborðshæð verði 1,5 m undir hæð núverandi malarvallar. Gert er ráð fyrir að knattspyrnuvöllurinn verði af gerð C, skv. reglugerð KSÍ. Gervigras nái 3 m út fyrir völlinn sjálfan og því til viðbótar komi 3 m öryggisvæði meðfram hliðarlínum og 4,5 m við endalínur. Yfirborð vallarins uppfylli kröfur KSÍ um keppnisvelli lagða gervigrasi, kröfur norrænna staðla og staðal alþjóðasamtakanna UEFA og FIFA. Austan knattspyrnuvallarins í sömu breidd og í beinu framhaldi komi 50 m æfingasvæði með sama yfirborði og knattspyrnuvöllurinn. Við enda æfingasvæðis í átt að sundlaug verði gert ráð fyrir leiksvæði barna, s.s. brettapöllum. Við norðurhlið vallarins komi stúkubygging fyrir 300 manns. Undir henni verði gert ráð fyrir 4 búningsklefum, aðstöðu fyrir dómara, aðstöðu fyrir iðkendur/áhorfendur og geymslurými. Hlaupabraut verði milli stúku og vallar með fjórum 1,22 m breiðum og 100 m löngum hlaupabrautum með upphafs- og endasvæðum alls 130 m. Yfirborð uppfylli kröfur IAAF. Ljósamöstur verði umhverfis völlinn og æfingasvæðið sem uppfylli kröfur til keppnislýsingar. Knattspyrnuvöllurinn verði tilbúinn til notkunar um miðjan maí 2006. Stúka og hlaupabraut verði tilbúin ekki síðar en í byrjun ágústmánaðar. Varðandi tæknilega þætti vísast til frumáætlunar VSÓ.

3.       Farið yfir þá þætti draganna sem einkum snúa að æskulýðs- og íþróttastarfi. Lítilsháttar athugasemdir gerðar. Sigrúnu Eddu falið að koma þeim á framfæri við félagsmálaráð sem fer með gerð fjölskyldustefnunnar.

 

Fundi slitið kl. 19.10.Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?