308. (2) fundur æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness, haldinn fimmtudaginn 10. ágúst 2006 í samkomusal Gróttu í íþróttamiðstöðinni kl. 17.30.
Mætt voru: Lárus B. Lárusson, Páll Þorsteinsson, Unnur I. Jónsdóttir, Magnús Ö. Guðmundsson, Felix Ragnarsson, Margrét Sigurðardóttir og Haukur Geirmundsson.
Ritari fundar: Páll Þorsteinsson.
Dagskrá:
- Stækkun fimleikasalar - niðurstaða þarfagreiningar og skýrsla fimleikadeildar. (2005080007)
- Önnur mál.
Erindi frá TKS.. (2006080006)
Styrkbeiðni fimleikadeildar. (2006080007)
Sparkvöllur við Mýrarhúsaskóla. (2006010055)
Styrkbeiðni sunddeildar KR.. (2006080008)
Útgáfumál ÆSÍS.. (2006080009)
Vefsvæði ÆSÍS. (2006080010)
Gervigrasvöllur. (2003090031)
Fundur settur kl. 17.30
1. Á fundinn komu Jórunn Þóra Sigurðardóttir, Björgvin Finnsson og Kristín Finnbogadóttir.
Jórunn Þóra kynnti niðurstöðu þarfagreiningar sem unnin var af fimleikadeild vegna fimleikaaðstöðu Gróttu.
Björgvin Finnsson sagði frá Glitnisdeginum sem fyrirhugaður er 26. ágúst. ÆSÍS styður þá hugmynd knattspyrnudeildar að gervigrasvöllurinn verði einnig tekinn formlega í notkun þann dag.
Jórunn, Björgvin og Kristín viku af fundi kl. 18.05
Lögð fram tillaga að umsögn vegna minnispunkta vinnuhóps um aðstöðu fimleikadeildar.
Vinnuhópur, skipaður fulltrúum frá Íþróttafélaginu Gróttu, fimleikadeild félagsins og þjálfurum auk eins fulltrúa frá Æskulýðs- og íþróttaráði Seltjarnarness hefur skilað hugmyndum um breytingar á aðstöðu til fimleikaiðkunar í Íþróttamiðstöð Seltjarnarness. ÆSÍS þakkar hópnum fyrir góða hugmyndavinnu um kosti þess að bæta fimleikaaðstöðuna. Óskir vinnuhópsins eru í meginatriðum þær að stækka aðstöðu til fimleikaiðkunar á Seltjarnarnesi og bæta áhaldakost deildarinnar sem nú sinnir fjölmörgum Seltirningum og börnum úr öðrum bæjarfélögum. ÆSÍS telur að hugmyndir vinnuhópsins séu gott innlegg í fyrirhugaða vinnu ráðsins við betrumbætur á aðstöðu til fimleikaiðkunar á Seltjarnarnesi í samstarfi við ráðgjafa bæjarins, áframhaldandi þróun skipulags innan núverandi lóðamarka Íþróttamiðstöðvar Seltjarnarness sem nú er í vinnslu í skipulags- og mannvirkjanefnd bæjarins og möguleikum á breyttu fyrirkomulagi innanhúss sem ÆSÍS mun taka til umfjöllunar á næstunni.
Á undanförnum mánuðum hefur Seltjarnarnesbær varið háum fjárhæðum í endurbætur á sundlaug og byggingu gervigrasvallar við Suðurströnd. Áætluðum framkvæmdum íþróttamannvirkja sem þegar eru ákveðnar er ekki lokið þ.e. byggingu áhorfendastúku við gervigrasvöll, hlaupabraut o.fl. Hvað röð framkvæmda við íþróttamiðstöð áhrærir hefur verðið mörkuð sú stefna að áhorfendastúka við gervigrasvöll, umgjörð vallarins, bygging líkamræktarstöðvar og innisundlaugar auk endurbóta á bílastæðum við íþróttamiðstöðina gangi fyrir öðrum endurbótum á Íþróttamiðstöð Seltjarnarness.
ÆSÍS telur mikilvægt að leitast verði við að koma verði til móts við óskir fimleikadeildarinnar um bætta aðstöðu og jafnframt mögulegt að koma til móts við þær með breytingum á innra skipulagi í íþróttamiðstöð og stækkun húsakynna innan núverandi lóðarmarka. Raunhæft er að ætla að slík framkvæmd liggi fyrir á síðari hluta yfirstandandi kjörtímabils, þegar sér fyrir endan á öðrum framkvæmdum við miðstöðina, og mun ÆSÍS vinna málið með það að markmiði.
Samþykkt með 4 atkvæðum. Felix Ragnarsson sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Önnur mál:
Erindi frá TKS. (2006080006)
Um æfingatíma í gamla sal. Framkvæmdastjóri svarar erindinu.
Styrkbeiðni fimleikadeildar. (2006080007)
Ósk um ferðastyrk vegna Bandaríkjaferðar. Samþykkt að veita 140.000 kr. til ferðarinnar. Samþykkt með 4 atkvæðum.
Magnús Örn Guðmundsson sat hjá við afgreiðslu málsins, þar sem núverandi ÆSÍS hefur ekki sett sér starfsreglur varðandi úthlutun slíkra styrkja. Framkvæmdastjóra falið að svara erindinu.
Magnús Ö. Guðmundsson vék af fundi kl. 19.03.
Sparkvöllur við Mýrarhúsaskóla. (2006010055)
Upplýst að framkvæmdum við völlinn verður frestað til næsta árs.
Styrkbeiðni sunddeildar KR. (2006080008)
Samþykkt að veita 65.000 kr. vegna ókeypis sundæfinga fyrir 7 – 9 ára börn á Seltjarnarnesi í september og október. Framkvæmdastjóra falið að svara erindinu og að kalla eftir skýrslu um árangur af námskeiðinu.
Útgáfumál ÆSÍS. (2006080009)
Vetrarbæklingur hefur ekki verið gefinn út s.l. tvö ár. Tekið var undir þá skoðun framkvæmdastjóra að ekki væri þörf fyrir bæklinginn og lagt til að auka upplýsingaflæði um starfsemi á vegum ÆSÍS á Internetinu. Sjá næsta lið.
Vefsvæði ÆSÍS. (2006080010)
Formaður lagði fram bókun um að hafin verði vinna við undirbúning fyrir vefsvæði ÆSÍS.
Formaður leggur til að hafin verði vinna að undirbúningi vefsvæðis sem tilheyrir málaflokkum ÆSÍS eins fljótt og auðið er. Tilgangurinn er að gera starfið sýnilegra og þar komi fram helstu upplýsingar sem varða málefni ÆSÍS. Á vefsvæðinu myndi koma fram til mynda reglur um úthlutun styrkja og upphæðir, reglur um afreksmannastyrki, rafræn umsóknareyðiblöð, upplýsingar um námskeið á vegum ÆSÍS og Selsins og verðskrár, málefni sem tengjast Selinu, auglýsingar um afreksstyrki og tilnefningar, íþróttamaður Seltjarnarness, helstu íþróttamannvirki, myndabanki. Þessar hugmyndir eru ekki tæmandi, heldur eru þetta hugmyndir sem slíkt vefsvæðið gæti hýst.
Samþykkt.
Gervigrasvöllur. (2003090031)
Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir stöðu framkvæmda.
Margrét Sigurðardóttir upplýsti um gang sumarnámskeiða. Góð þátttaka var á námskeiðunum og almenn ánægja hjá börnum sem sóttu námskeiðin og foreldrum þeirra. Skýrsla um námskeiðin verður lögð fyrir næsta fund.
Fundi slitið kl. 20.03