Fara í efni

Íþrótta- og tómstundanefnd

41. fundur 07. mars 2002

Fundinn sátu: Ásgerður Halldórsdóttir, Þór Sigurgeirsson, Árni Einarsson, Sjöfn Þórðardóttir, Haraldur Eyvinds Þrastarson, Lúðvík Hjalti Jónsson og Haukur Geirmundsson.
Gestur fundarins: Hildur Jóhannsdóttir.
Forföll: Sigrún Edda Jónsdóttir.

Dagskrá:

  1. Ársskýrsla 2001.
  2. Tómstundakönnun ÆSÍS.
  3. Bréf frá bæjarstjóra..
  4. Önnur mál.

1. Íþróttafulltrúi lagði fram og kynnti drög að ársskýrslu ÆSÍS vegna ársins 2001.

2. Hildur Jóhannsdóttir kynnti fyrirhugaða tómstundakönnun ÆSÍS, drög að spurningalistum, tímaáætlun, kostnaðaráætlun og aðgerðaáætlun. Gert er ráð fyrir að ÆSÍS óski eftir liðsinni frá skólunum og tilkynni Persónuvernd um könnunina.

Samkvæmt áætlun hennar geta niðurstöður legið fyrir í lok maí.. Hildur vék af fundi þegar hún hafði lokið kynningunni.

3. Lagt fram bréf frá bæjarstjóra dags. 28. feb. 2002 þar sem óskað er eftir skýrri afstöðu ráðsins til fyrirhugaðs knattspyrnuvallar, s.s. varðandi stærð, gerð gervigrass o.fl.

Eftirfarandi bókun samþykkt vegna bréfs bæjarstjóra:

Samanber hjálagt bréf frá 28.febrúar frá bæjarstjóra þar sem bæjarstjórn óskar eftir að fá skýra afstöðu ráðsins vegna eftirfarandi atriða:

Stærð vallarins:

ÆSÍS leggur til að stærð aðalvallarins verði 73x109m og æfingavöllur við endann á aðalvelli 25x73m.

Yfirborð:

Að svo stöddu telur ÆSÍS ekki rétt að taka ákvörðun um val á yfirborði vallarins fyrr en nær dregur að framkvæmdum, þar sem tæknibreytingar eru örar.

Yfirbygging vallarins:

Skiptar skoðanir eru innan ÆSÍS hvort byggja á yfir völlinn eða ekki. Í þeirri útfærslu sem nú liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir yfirbyggingu.

Hlaupasvæði umhverfis völl og fleira:

Við lokafrágang svæðisins verður tekið tillit til almenningsíþrótta, fyrirhugaðrar endurskoðunar á sundlaugarsvæði og heildarskipulags svæðisins.

Samkvæmt bréfi bæjarstjóra kemur í ljós að til standi að fara í gerð útboðsgagna vegna vallarins. ÆSÍS telur ekki rétt að sú vinna fari fram fyrr en arkitektar hafa skoðað heildarsvæði Íþróttamiðatöðvarinnar með breytingu á sundlaug og tengingu gervigrasvallar við svæðið.  Því er ekki rétt að hefja framkvæmdir nú í sumar og skilja svæðið eftir í sárum í heilt ár.  Eins og fram hefur komið tekur verkferlið ekki lengri tíma en frá vori til hausts.  Því leggur ÆSÍS til að ekki verði farið í framkvæmdir fyrr en næsta vor og þeir fjármunir sem gert var ráð fyrir að færu í framkvæmdir í ár, flytjist yfir á næsta fjárhagsár. Þó verði gert ráð fyrir allt að 3 milljónum vegna kostnaðar við hönnun.

Ráðið mun á næstu dögum ræða við landslagsarkitektinn Þráinn Hauksson og arkitektinn Margréti Leifsdóttir varðandi tillögur að frágangi heildarsvæðisins og breytingum á sundlaug. Starfshópur á vegum ráðsins vegna endurskoðunar sundlaugar tekur til starfa í næstu viku.

4. Önnur mál:

  1. Haraldur Eyvinds Þrastarson sagði frá undirbúningi meistaraflokks karla í knattspyrnu. Flokkurinn keppir í 3. deild í sumar. Ráðinn hefur verið þjálfari og mikill hugur er í mönnum og æfingar vel sóttar. Ráðið fagnar því að kominn er á ný meistaraflokkur Gróttu í knattspyrnu.
  2. Kjöri íþróttamanna Seltjarnarness var lýst 28. febrúar sl. Harpa Snædís Hauksdóttir fimleikakona og Jónatan Arnar Örlygsson dansari voru kjörin íþróttamenn Seltjarnarness fyrir árið 2001. Einnig voru ungu og efnilegu íþróttafólki á Seltjarnarnesi veittar viðurkenningar, alls 38 manns.
  3. Kynntur breyttur skólatími barna í Mýrarhúsaskóli. Frá og með næsta hausti hefja nemendur skóladaginn kl. 8.2o. Unnið er að samræmingu skóladags og æfingatíma á vegum Gróttu.

Fundi slitið kl. 19.10.

Ritari fundar, Árni Einarsson.Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?