Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir, Sjöfn Þórðardóttir, Þór Sigurgeirsson, Árni Einarsson og Haukur Geirmundsson.
Dagskrá:
1. Lokayfirferð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2000.
2. Tómstundahópar fyrir 6 – 9 ára börn.
3. Önnur mál.
1. Ráðið vill vekja sérstaka athygli á viðhaldsliðum fjárhagsáætlunar og ítrekar mikilvægi þess að sem fyrst verði ráðist í óhjákvæmilegt viðhald og viðgerðir. Í umræðum kom fram að sundlaugargestum hefur fækkað undanfarið ár. Ráðið harmar þá þróun og telur nauðsynlegt að bregðast við henni með gagngerum endurbótum og andlitslyftingu sundlaugar. Bendir ráðið á að aðstaðan er að mestu óbreytt frá því að laugin var opnuð fyurir 16 árum. Fjölgun sundlauga á höfuðborgarsvæðinu og endurnýjun þeirra í takt við breyttar kröfur skýrir vafalítið þróunina í aðsókninni hér. Við því verður að bregðast og stefna að fjölgun gesta á ný. Ráðið vekur sérstaka athygli á lið 06-62 í áætluninni þar sem sótt er um 5 milljónir króna til endurbóta á knattspyrnuvelli við Suðurströnd á næsta ári. Ráðið beinir því til bæjarstjórnar að sem fyrst verði tekin afstaða til þess hvenær og hvernig bætt verði úr aðstöðu til knattspyrnuiðkunar á Seltjarnarnesi. Ráðið bendir á að þegar liggi fyrir ýmsar tilllögur sem hafa verið lagðar fram og ræddar á undanförnum árum og því í höndum bæjarstjórnar að ákveða frekara framhald. Ráðið fagnar þeim áfanga í uppbyggingu íþróttaaðstöðunnar sem nýbygging við íþróttahúsið er og þeim nýju möguleikum sem þar skapast til íþróttaiðkunar og félagsstarfs íþróttafólks í bænum. Í fjárhagsáætlun er ekki gert ráð fyrir hækkun gjalda- eða tekjuliða í rekstri Selsins. Í framhaldi af viðræðum við forystu Gróttu samþykkir ráðið fjárhagsáætlun Gróttu fyrir árið 2000.
2. Rætt um starfrækslu tómstundahópa fyrir 6 – 9 ára börn sem yrðu reknir í tilraunaskyni frá janúar – maí og september – desember árið 2000: Tveir hópar starfræktir, annars vegar 6 – 7 ára börn og hins vegar 8 – 9 ára börn. Í hvorum hóp eru að hámarki 15 krakkar. Líklega ekki grundvöllur fyrir kynjaskiptingu vegna fæðar. Það þyrfti þó að athuga betur. Leiðbeinandi sé kennaramenntaður með einhverja sérþekkingu á málefnum barna með hegðunarröskun eða samskiptavanda. Sjálfsagt er að óska eftir þjónustu frá forvarnafulltrúa bæjarins. Vel mætti hugsa sér einhverja ráðgjöf fyrir foreldra samhliða þessu í tengslum við skólann. Það er þó e.t.v. annað mál. Gera mætti ráð fyrir að hvor hópur hittist tvisvar í viku en leiðbeinandinn hefði rúman tíma til skipulagningar, samskipta og umsjónar. Þátttöku að einvherju leyti stýrt þar sem um takmarkaðan fjölda er að ræða. Leita samstarfs við Mýrarhúsaskóla við val á þátttakendum, svo og Gróttu. Annað hvort mætti bjóða öllum börnum í þessum aldursflokkum að sækja um þátttöku og velja úr umsóknum eða velja úr fyrirfram og bjóða þeim börnum sérstaklega. Líklega er fyrri kosturinn eðlilegri. Markmið: Bjóða börnum sem finna ekki afþreyingu við sitt hæfi í því íþrótta- og æskulýðsstarfi sem fyrir er í bænum. Lögð áhersla á forvarnagildi starfsins og að finna sem flestum í hópnum viðfangsefni við hæfi annarsstaðar með stuðningi og eftirfylgni. Hóparnir og starf þeirra séu annars vegar markmið í sjálfu sér sem tómstundatilboð en hins vegar hugsaðir sem brú yfir í annað starf. Byggja starfið upp á sömu forsendum og annað æskulýðsstarf, þ. e. að tilheyra hóp, taka þátt í því sem gert er, leggja eitthvað að mörkum (t. d. fjáröflun vegna sérverkefna, ferðalaga o. þ. h.) og fá viðurkenningu fyrir góðan árangur og ástundun. Hópurinn hafi nafn og samastað. Leggja áherslu á fjölbreytni, aga og umburðarlyndi. Virkja þarf foreldra vel í starfi hópanna en gera má ráð fyrir að viðkomandi foreldrar séu tilbúnir til þess og þakklátir fyrir þennan möguleika fyrir börnin. Samstarf: Starfsemi hópanna felur í sér kynningu og þátttöku í því starfi sem fyrir er í bænum í samvinnu við þjálfara og leiðbeinendur hverju sinni. Hóparnir koma inn í starfsemi annarra og taki þátt í ýmsu starfi sem fyrir er meðal annars til þess að koma í veg fyrir einangrun eða stimplun af einhverju tagi.
3. Engin.
Næsti fundur ákveðinn 2. nóvember 1999, kl. 17:30
Fundi slitið kl. 13:15. Fundarritari Árni Einarsson.