165. fundur Menningarnefndar Seltjarnarnesbæjar haldinn í Gallerí Gróttu fundarsal á Bókasafni Seltjarnarness, föstudaginn 26. september 2025 kl. 12:00
Mættir: Þórdís Sigurðardóttir formaður, Inga Þóra Pálsdóttir, Þröstur Þór Guðmundsson, Stefán Árni Gylfason og Bryndís Kristjánsdóttir.
Fundargerð ritaði: María Björk Óskarsdóttir, sviðsstjóri Þjónustu- og samskiptasviðs.
Dagskrá:
1. 2024120050 – Trúarbrögðin eftir Ásmund Sveinsson
Sviðsstjóri lagði fram upplýsingar er varðar viðgerð á útilistaverkinu Trúarbrögðin eftir Ásmund Sveinsson og upplýsti enn fremur að bæjarráð hefði á síðasta fundi sínum samþykkt fjármögnun á viðgerðinni. Listaverkið verður því fljótlega fjarlægt af stöplinum og fer í viðeigandi ferli.
Menningarnefnd fagnar niðurstöðu málsins og biður sviðsstjóra að upplýsa bæjarbúa þegar þar að kemur.
2. 2025030122 – Ástandsskoðun útilistaverka á Seltjarnarnesi
Sviðsstjóri lagði fram skýrslu með niðurstöðum ástandsskoðunar annarra útilistaverka Seltjarnarnesbæjar sem fagaðilar hjá Listasafni Reykjavíkur framkvæmdu fyrir Seltjarnarnesbæ í sumar.
Menningarnefnd þakkar fyrir góða skýrslu og telur mikilvægt að sinna reglubundnu viðhaldi útilistaverka bæjarins. Nefndin beinir til bæjarráðs að tryggja fjármagn í nauðsynlegar viðhaldsviðgerðir útilistaverkanna.
3. 2024060005 – Dæluhús, útlit
Sviðsstjóri upplýsti að listaverkið Litaveita hefði verið fjarlægt af dæluhúsinu í lok sumars og að nú væri búið að mála það aftur hvítt að beiðni arkitekta hússins.
4. 2025050172 – Ný Litaveita, tillögur
Kynntar tillögur Þórdísar Zoëga að nýrri Litaveitu, útilistaverki í stað þess sem fjarlægt var af dæluhúsinu. Hugmynd er uppi um að ný Litaveita verði sett upp á svipuðum slóðum enda vakti sú fyrri mikla athygli á gönguleiðinni til og frá Snoppu.
Menningarnefnd þakkar listakonunni fyrir áhugaverðar tillögur og felur sviðsstóra að óska eftir nánari upplýsingum í samræmi við umræður fundarins.
5. 2025050173 – Haustið á bókasafninu
Sviðsstjóri sagði frá haustdagskrá bókasafnsins en viðburðastarfið er komið á fullt og framundan er mikil og spennandi dagskrá á safninu.
Menningarnefnd þakkar fyrir yfirferðina og líst vel á metnaðarfulla dagskrá vetrarins.
6. 2025050174 – Menningarhátíð 2025
Menningarhátíð Seltjarnarnesbæjar hefur alla jafna verið haldin að hausti annað hvert ár. Sviðsstjóri lagði til að menningarhátíð 2025 verði haldin í byrjun nóvember og lagði fram fyrstu drög að skipulagi og dagskrá hátíðarinnar.
Menningarnefnd telur afar jákvætt að halda menningarhátíð bæjarins á þessum tíma og telur líkur á því að þátttaka bæjarbúa verði góð og felur sviðsstjóra að halda skipulagningu og undirbúningi hátíðarinnar áfram.
7. 2025090203 – Bæjarlistamaður 2026
Tekin umræða um bæjarlistamann næsta árs og að auglýsa eftir umsóknum um þá heiðursnafnbót sem Menningarnefnd veitir.
Menningarnefnd felur sviðsstjóra að auglýsa eftir umsóknum og tilnefningum um bæjarlistamann eins og reglur kveða á um.
8. 2025060165 – Almyrkvi á sólu 12. ágúst 2026
Sviðsstjóri upplýsti um þá vinnu sem þegar er komin í gang í tengslum við þann einstaka viðburð náttúrunnar þegar að almyrkvi á sólu mun ganga yfir vestasta hluta Íslands þann 12. ágúst 2026 og fer nú m.a. yfir höfuðborgarsvæðið í fyrsta sinn frá árinu 1433. Síðasti almyrkvi sem náði inn á landið var árið 1954. Gert er ráð fyrir miklum ferðamannastraumi til Íslands í tengslum við almyrkvann og má gera að ráð fyrir að fjölmenni, Íslendinga og erlendra ferðamanna leggi leið sína á Seltjarnarnes enda mun almyrkvinn sjást hvað lengst hér af öllu höfuðborgarsvæðinu. Sviðsstjóri er hluti af aðgerðarhópi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sem í sameiningu vinnur nú að undirbúningi fyrir þetta mikla sjónarspil. Skipuleggja og huga þarf að viðburðastjórn og öllum umferðar- og öryggismálum þennan dag. Hvernig best verður hægt að aðgangsstýra þeim fjölda sem ætlar að sjá almyrkvann, hvernig fræða má skólabörn og íbúa um þetta einstaka náttúruundur sem flestir sjá aðeins einu sinni á ævinni.
Menningarnefnd þakkar fyrir kynninguna.
Fundi slitið: 13:45