Fara í efni

Menningarnefnd

10. maí 2010

102. fundur menningarnefndar Seltjarnarness haldinn mánudaginn 10. maí 2010, kl. 17:10 heima hjá formanni að Unnarbraut 14 á Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Sólveig Pálsdóttir formaður menningarnefndar sem stýrði fundi, Bryndís Loftsdóttir, Unnur Pálsdóttir, Bjarki Harðarson, Guðbjörg Guðmundsdóttir og Ellen Calmon fræðslu- og menningarfulltrúi sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

 1. Lán á verkinu Opinberun eftir Kristínu G. Gunnlaugsdóttur. Málsnúmer 2010030100. Menningarnefnd telur sjálfsagt að lána verkið til sýningar Expo í Sjanghæ í Kína, þar sem verk eftir Kristínu verða sýnd í The Nordic Lighthouse, í september gegn því að tryggingarskilyrðum verði fullnægt
 2. Viðurkenning til útskriftarnemenda fyrir framlag til lista- og menningarmála. Málsnúmer 2010050025. Menningarnefnd var samhljóða um tilnefningu útskriftarnemenda frá Grunnskóla Seltjarnarness til verðlauna vegna framlags til lista- og menningarmála. Verðlaunaafhending fer fram við skólaslit 4. júní nk.
 3. Önnur mál. Formaður lagði fram fjórar neðangreindar ályktanir sem voru samþykktar samhljóða.
 4. I. Menningarnefnd mælist til þess að sú bæjarstjórn sem tekur við að loknum kosningum 2010 kynni sér vel efni gildandi Menningarstefnu Seltjarnarness og leggi metnað sinn í að framfylgja henni.

  Í menningarstefnu bæjarins segir m.a.

  ,, Markvisst verði unnið að listuppeldi barna og unglinga svo að menning og listsköpun verði sjálfsagður og eðlilegur þáttur í lífi þeirra.”

  Nefndin minnir á mikilvægi þess að örva skapandi og gagnrýna hugsun í uppeldi barna, en því miður er það svo að listgreinar og listuppeldi er oftast það sem látið er víkja fyrst við sparnað.

  II. Starfsfólk Bókasafns Seltjarnarness hefur á líðandi vetri haldið úti einstaklega metnaðarfullu starfi, m.a. með reglulegum uppákomum sem dregið hafa fjölda gesta að safninu. Á sama tíma og aðsókn hefur aldrei verið meiri hefur safnið þurft að skerða þjónustu sína m.a. með því að draga úr innkaupum á efni og stytta opnunartíma. Menningarnefnd ítrekar nauðsyn þess að færa þjónustu bókasafnsins í fyrra horf hið fyrsta eftir að fjárhagslegum stöðugleika bæjarins er náð.

  Eitt markmiða Menningarstefnu er: ,,Starfsemi safna innan bæjarins verði aukin og þess gætt að þau hafi aðdráttarafl fyrir alla aldurshópa.”

  III. Brýnt er að farið verði yfir útilistaverk bæjarins nú í sumar, þau snyrt og lagfærð. Sérstaklega þarf að huga að hreinsun Kviku – Bollasteinn eftir Ólöfu Nordal og aðkallandi er orðið að laga steypu og mála stöpul verksins Trúarbrögðin eftir Ásmund Sveinsson.

  Þá þarf að koma listaverki Sigurjóns Ólafssonar Skyggnst bak við tunglið aftur upp en það var fjarlægt fyrir byggingu World Class á sínum tíma. Verkið hefur verið í geymslu í húsnæði framkvæmda-og þjónustumiðstöðvarinnar.

  Í Menningarstefnu segir: ,,Umsjón listaverka í eigu bæjarins sé fagleg og viðhald þeirra reglubundið.”

  IV. Menningarnefnd Seltjarnarnesbæjar leggur til að unnið verði að framhaldi á framkvæmdum á rafrænu Ljósmyndasafni Seltjarnarness. Sjá þarf til þess útvega starfskraft til að skanna og skrá þær myndir sem bæði eru til á rafrænu og pappírs formi.

  Leggur nefndin til að þetta átaksverkefni verði innt af hendi sumarstarfskrafta sem ráðnir eru tímabundið t.d. í atvinnubótavinnu. Lauslega er áætlað að skráningarstarfið geti tekið um 6 mánuði eða ríflega tvö sumur.

  Lagt er til að skráningarvinna hefjist nú í sumar og að skjalastjóri bæjarins leiðbeini starfsfólki í upphafi skráningar, þannig að rétt sé farið með gögn og að skráning verði eins og best verður á kosið.

  Að lokum þakkaði formaður nefndarmönnum og starfsfólki fræðslu-, menningar- og þróunarsviðs frábært og ánægjulegt samstarf á síðastliðnum fjórum árum.

Fundargerð upplesin og samþykkt

Fundi slitið kl. 18:35

EC

Sólveig Pálsdóttir (sign)

Bjarki Harðarson (sign)

Bryndís Loftsdóttir (sign)

Guðbjörg Guðmundsdóttir (sign)

Unnur Pálsdóttir (sign)

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?