Fara í efni

Öldungaráð

29. mars 2017

Fimmti fundur Öldungaráðs Seltjarnarnesbæjar var haldinn á bæjarskrifstofunum að Austurströnd 2 hinn 29. marz 2017 kl. 15:00 til 17:10

Mættir: Ólafur Egilsson formaður, Magnús Oddsson, Hildigunnur Gunnarsdóttir, Birgir Vigfússon og Sigríður Ólafsdóttir í fjarveru Þóru Einarsdóttur erlendis.

Auk þess sat Snorri Aðalsteinsson félagsmálastjóri bæjarins fundinn og var fundarritari.

  1. Mál efst á baugi hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík. Ellert B. Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík mætti á fundinn og greindi frá starfi félagsins að undanförnu. Um 11 þúsund manns eru félagar. Margt er í boði, m.a. farnar ferðir, námskeið í bridds og skák, spilað, og ýmsar aðrar samverustundir. Félagsmenn fá víða afslátt. Ellert hefur eftir nokkra bið átt fund með Þorsteini Víglundssyni velferðarráðherra um kjör ellilífeyrisþega. Þar kom fram að ríkisstjórnin ætlaði sér 4 ár til að afnema í áföngum bagalegar skerðingar á bótum almannatrygginga sem eldri borgarar sæta ef þeir vinna sér inn aukatekjur, þ.e. hækka frítekjumark smám saman úr núverandi 25 þús.kr. í 100 þús.kr. Stjórnarfundir félagsins eru tvisvar í mánuði yfir veturinn. Ellert hefur fundað með Hauki Ingibergssyni formanni Landssambands eldri borgara. Rætt hefur verið um úrsögn félagsins úr landssambandinu þar sem starf þess sé ekki nógu öflugt. Ellert hefur verið í forystu fyrir starfi að heilsueflingu eldra fólks með bættri aðstöðu og fræðslu um hreyfingu. Félagið hefur nýlega undirritað samning við verktaka um byggingu fjölbýlishúss í Breiðholtinu með 60 íbúðum ætluðum eldri borgurum. Þessa dagana er verið að kanna á vegum félagsins ýmis lagaleg álitamál í þágu eldri borgara, m.a. frjálslega ráðstöfun ríkisins á fé Framkvæmdasjóðs aldraðra, vanefndir Ríkisútvarpsins – RÚV á lagaskyldu til textunar talaðs máls og hvort rétt sé að stuðla að málssókn til heimtu um 5 milljarða bóta sem nýgerðar breytingar á lögum um almannatryggingar kváðu á um en ekki voru greiddar út þar sem þær áttu rætur að rekja til mistaka við lagasetningu Alþingis. Harðlega er gagnrýnd ákvörðun ríkisstjórnar og Alþingis að hverfa frá því í hinni nýsettu löggjöf að allir eldri borgarar njóti grunnlífeyris óháð tekjum.

    Töluverðar umræður urðu eftir kynningu Ellerts. Var Ellerti m.a. kynnt samþykkt 4. fundar Öldungaráðsins varðandi breytingar á almannatryggingum um síðustu áramót.

    Öldungaráðsfulltrúar voru á einu máli um að mikilvægt sé að stjórnvöld vinni markvíst að bættum hag eldri borgara, þ. á m. kom á ný fram hve brýnt ráðið telur að flýtt verði afnámi hverskyns skerðinga á greiðslum almannatrygginga. Margir eldri borgarar í landinu séu sárlega illa staddir.
  2. Hugmyndir um kirkjugarð. Guðmundur Einarsson formaður Sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju mætti á fundinn og greindi frá undirbúningsvinnu síðan árið 2012 -- og rökum fyrir því að hafa kirkjugarð í bæjarfélaginu. Kirkjugarðsnefnd skipuð þeim Guðmundi Ásgeirssyni, Hrafnhildi B. Sigurðardóttur og Sigurði Gizurarsyni, auk Guðmundar Einarssonar, hefur unnið að málinu. Langt er í næstu kirkjugarða og umferðarálag mikið og vaxandi. Ennþá lengra verður að sækja þegar ráðgerður nýr kirkjugarður við Úlfarsfell verður tekinn í notkun á næstu árum. Fjarlægðin raskar útförum oft verulega og veldur bæjarbúum einnig vandkvæðum þegar þeir vilja vitja að staðaldri leiða náinna ættmenna. Guðmundur kynnti tillögur sóknarnefndar að svæðum þar sem kirkjugarður gæti verið staðsettur. Heppilegast þykir svæði sunnan Nesstofu, nálægt þar sem kirkjugarður var fyrr á tíð. Áður hefur verið viðruð hugmynd um duftgarð nálægt kirkjunni en sóknarnefnd telur ekki fært að greina á milli greftrunarhátta. Bent er m.a. á að það marki enn skýrar sjálfstæði bæjarfélagsins, sem rík samstaða sé með bæjarbúum að viðhalda, að hafa innan þess þá grunnþjónustu sem felist í kirkjugarði, þar sem boðið sé upp á hefðbundna greftrun og duftgarð, eins og nú er í öllum hinum bæjarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Ályktað var til stuðnings málinu á aðalfundi Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi (FebSel).

    Öldungaráð hvetur bæjaryfirvöld einróma til þess að endurskoða við fyrsta tækifæri aðal- og deiliskipulag með það að leiðarljósi að gert verði ráð fyrir kirkjugarði þar sem best þykir innan bæjarmarka
    .
  3. Fasteignagjöld eldri borgara. Lagðar fram reglur um afslátt af fasteignagjöldum í Vestmannaeyjum og á Seltjarnarnesi. Snorri kynnti samanburð á heildarálagningu fasteignagjalda á sambærilegri eign í þessum tveimur sveitarfélögum og hvernig afslættir eru veittir. Ákveðið að óska eftir frekari upplýsingum um heildarfjárhæð afsláttar og hve margir njóta hans.

    Öldungaráð leggur áherslu á að eldri borgarar í bæjarfélaginu verði aðnjótandi sem allra bestra kjara að því er varðar skatta og önnur gjöld tengd fasteignum. Þeim verði þannig auðveldað að búa sem lengst í eigin húsnæði.
  4. Viðbrögð við samþykktum Öldungaráðs. Snorri kynnti afgreiðslur bæjarstjórnar á fundargerðum Öldungaráðsins og umræður um þær.
    Öldungaráð ítrekar að mál sem varða eldri borgara berist ávallt til ráðsins og að það sé haft með í ráðum.
  5. Staða byggingarframkvæmda við hjúkrunarheimilið. Snorri kynnti málið og lagði fram mjög nýlega loftmynd af athafnasvæðinu. Búið er að taka grunn hússins. Gert er ráð fyrir 40 dvalarrýmum, þar af 30 til fastrar vistar og tíu til hvíldarinnlagna, auk dagdeildar o.fl. Áætluð verklok eru síðla árs 2018. Samningur um rekstur heimilisins hefur verið gerður við Elliheimilið Grund sem býr að mikilli reynslu á því sviði og skapar tækifæri til ávinnings af samlegðaráhrifum. Færni- og heilsumatsnefnd mun annast umsóknir um dvöl á heimilinu.

    Öldungaráð lýsir ánægju með að verklegar framkvæmdir við langþráð hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi skuli vera hafnar og lýsir eindreginni von um að byggingin verði fullgerð á áætluðum tíma fyrir árslok 2018.
  6. Önnur mál.
  1. Formaður greindi frá fundi í Eiðismýri 30 sem honum var boðið að mæta á. Þar búa eldri borgarar í fjölbýlishúsi sem er sérstaklega ætlað 60 ára og eldri. Höfðu íbúarnir óskað eftir fundi með Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra og Snorra Aðalsteinssyni félagsmálastjóra um ýmis atriði sem þau óskuðu eftir stuðningi bæjarfélagsins við. Salur í húsinu er í eigu bæjarfélagsins og kom fram að kostur væri að nýta hann betur en nú er gert í þágu eldri borgara í bæjarfélaginu, jafnframt því sem margskonar þjónusta veitt í félagsaðstöðu aldraðra við Skólabraut stendur öllum til boða. Allmörg atriði borin upp á fundinum eru til jákvæðrar skoðunar hjá bæjarfélaginu.

    Öldungaráð hvatti til þess að leitast verði við að koma til móts við óskir og þarfir íbúanna að Eiðismýri 30 eftir því sem frekast er unnt.

  2. Tilfærsla gangstéttar við nýtt fjölbýlishús á horni Nesvegar og Suðurstrandar. Formaður vísaði til umræðna um málið á fyrra fundi ráðsins, sem tengjast m.a. gönguferðum eldri borgara úr fjölbýlishúsunum við Skólabraut til innkaupa á Eiðistorgi og sér til hressingar. Hann ritaði bæjaryfirvöldum bréf þar sem hann óskaði nánari upplýsinga um breytt gangstéttarstæði. Fékk þær upplýsingar að öryggissjónarmið hefðu ráðið því að stéttin, sem áfram er ætluð almenningi, var færð upp að húsinu og bílastæði íbúa höfð á milli hennar og götunnar. Stæðið undir gangstéttinni við götuna var m.ö.o. ekki selt með lóðinni, enda upphaflega ætlunin að hún yrði opnuð á sama stað eftir að byggingarframkvæmdum lyki. Fram kom hins vegar í svörunum að ekki hefur í samningum um lóðina og fjölbýlishúsið, eða í staðfestu bæjarskipulagi, verið formlega gengið frá því að um almenna gangstétt er áfram að ræða. Formaður hefur bent bæjaryfirvöldum á að nauðsynlega þurfi að tryggja að eigendur íbúða eða íbúar hússins geti ekki síðar meir sakir ókunnugleika talið gangstéttina tilheyra húsinu einu -- og því amast við eða reynt að hindra réttmæta för almennings um hana. Fulltrúar í ráðinu eru allir sammála um þetta.

    Öldungaráð leggur áherslu á að bæjaryfirvöld gangi hið fyrsta formlega frá því að flutningur gangstéttar frá götu upp að nýja fjölbýlishúsinu á Hrólfsskálamel við Nesveg, sem átti sér stað í öryggisskyni og til að skapa hentugt rými fyrir bílastæði fjölbýlishússins, breytir engu um að áfram er um almenna gangstétt að ræða.

Fleira ekki gert.

Fundi slitið.

Snorri Aðalsteinsson

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?