Fara í efni

Öldungaráð

14. mars 2018

Níundi fundur Öldungaráðs Seltjarnarnesbæjar (ÖS) var haldinn á bæjarskrifstofunum að Austurströnd 2 hinn 14. mars 2018 kl. 15:00 til 16:35

Mættir: Ólafur Egilsson formaður, Birgir Vigfússon, Hildigunnar Gunnarsdóttir, Magnús Oddsson og Þóra Einarsdóttir. Auk þess sat Snorri Aðalsteinsson félagsmálastjóri bæjarins fundinn og var fundarritari.

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri var einnig á fundinum undir 1. lið.

  1. Heilsueflandi samfélag. Dr. Janus Guðlaugsson kynnti verkefnið. Hann greindi frá því að upphaflega hefði staðið til að vinna verkefnið „Heilsuefling eldra fólks“ hér á Seltjarnarnesi í tengslum við doktorsritgerð árið 2007 en af því varð ekki. Fyrir tveimur árum var svo ákveðið að ýta úr vör verkefni um heilsueflingu meðal eldri borgara og varð Seltjarnarnes eitt af fjórum sveitarfélögum sem ætluðu að taka þátt í verkefninu. Þrátt fyrir jákvæðar undirtektir ríkisins brást fjárstuðningur af þess hálfu og málið rann út í sandinn vegna ríkisstjórnarskipta o.fl.
    Nú eru hins vegar komin af stað sambærileg verkefni í Reykjanesbæ og Hafnarfirði og er mjög góð þátttaka meðal eldri borgara þar. Markmiðið er að styrkja hreyfigetu eldra fólks og auka lífsgæði þess í sem lengstan tíma.
    Mjög mikil fjölgun í aldurshópi eldra fólks, sem aukast mun á næstu 15 árum, er þegar farin að kalla á viðbrögð stjórnvalda varðandi heilsu og velferð þessa hóps. Staðan í íslensku samfélagi er núna þannig að 6 vinnufærir einstaklingar eru á móti hverjum einum 67 ára og eldri en stefnir í að verði 2,8 einstaklingar vinnufærir á móti hverjum einum eldri borgara innan ekki mjög margra ára. -- Hlutfall 65 ára og eldri er með því hæsta hér á Seltjarnarnesi af landinu öllu eða um xx%.
    Í lögum um félagsþjónustu er kveðið á um það markmið „að aldraðir geti eins lengi og unnt er búið við eðlilegt heimilislíf“ og að sveitarfélögin skuli veita aðstoð til þess að „íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum“. Fram kom hjá Janusi að kostnaður við dvöl einstaklings á hjúkrunarheimili er um 13 – 15 milljónir á ári en kostnaður við heilsueflingu 80 – 100 einstaklinga áætlaður um 12 – 14 milljónir á ári.
    Góð heilsa hefur forspárgildi fyrir lífsgæði á efri árum. Aðalatriði er að eldri einstaklingar geti tekist á við athafnir daglegs lífs, búið sjálfstætt og lifað lífinu lifandi. Hluti af verkefni Janusar er að skanna fyrir heilabilunarsjúkdómum. Markmiðið er einnig að spara fyrir sveitarfélögin með því að koma á fót forvarnarleið, markvissri fjölþættri heilsueflingu fyrir eldri borgara.
    Verkefnið í Hafnarfirði er undir heitinu „Heilsueflandi sveitarfélag“ og á að draga úr innlögnum á hjúkrunarheimili, bæta lífsgæði íbúanna og færni þeirra til athafna daglegs lífs. Aðgengi er að heilsuræktarstöð fyrir þol og styrktarþjálfun, heilsufarsmælingar eru í upphafi og síðan reglulega á 6 mánaða fresti, markviss þjálfun undir leiðsögn sérfræðinga allt að þrisvar í viku. Regluleg fræðsluerindi, stöðumat reglulega, vefsíða og aðgengi að upplýsingum á heimasíðunni janusheilsuefling.is. Janus er kominn í tengsl við Evrópuráðið um að leiða sambærilegt verkefni í þremur löndum í Evrópu.
    Kostnaður í Hafnarfirði er 2.667.- á mánuði pr. einstakling. Frístundastyrkur eldri borgara þar í bæ er 4000.- kr á mánuði. Árlegur kostnaður nemur 32 þús hjá hverjum þátttakanda á ári. Þátttakendur eru 160 í Hafnarfirði. -- Ef farið yrði af stað hér á Seltjarnarnesi má búast við að allt að 80 til 100 einstaklingar vildu taka þátt. Kostnaður gæti orðið um 12 – 14 milljónir.
    Fundarmenn þökkuðu Janusi afar góða og ítarlega kynningu. Voru ráðsfulltrúar á einu máli um nytsemi starfsemi af þessu tagi.
  2. Umsögn um lagafrumvarp. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu (réttur til einbýlis og sambúðar við maka á öldrunarstofnunum), 178. mál. Óskað er umsagnar ráðsins sbr. bréf frá bæjarstjóra. Öldungaráð lýsir ánægju með frumvarpið, einkum að makar geti búið saman og þar með leiði vistun á hjúkrunarheimili ekki til þess að einstaklingar verði þvingaðir úr sambúð. Það er ánægjulegt að stefnt skuli að því að allir eigi völ á að búa í einbýli og geti því búið í friðsemd og ráðið meiru en ella um hvernig þeir haga eigin lífi. Telur ráðið eðlilegt að koma þessu í framkvæmd sem fyrst eða á næstu 5 árum. Þegar maki óskar að dvelja hjá maka sínum sem þarfnast hjúkrunarheimilisdvalar er kveðið á um að kostnaði skuli stillt í hóf sbr. 3. gr. b liður og að maki sem ekki þarfnast hjúkrunar greiði sanngjarna leigu vegna veru sinnar og þann kostnað sem af dvöl hans hlýst. Það er matsatriði hvað er sanngjarnt, þetta orðalag því nokkuð óljóst og æskilegt að kveða skýrar að orði um að greiðslan sé fyrir húsnæði og fæði. Það þarf að vera skýrara í lögunum sjálfum hvað felst í kostnaði heilbrigða makans, gengið verði t.d. út frá að hámarksgreiðsla verði innan þeirrar fjárhæðar sem hann nýtur frá almannatryggingum og haldið í lágmarki, þannig að fjárhæðin verði aldrei svo há að úr verði þröskuldur sem hamli að sambúðarmakinn geti notfært sér heimildina til búsetu með vistuðum maka sínum á hjúkrunarheimilinu.
  3. Önnur mál
    (a) Formaður upplýsti um gagnlegan fund sem hann hefði átt með forystu Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi (FebSel) og fyrir sitt frumkvæði verið haldinn í framhaldinu samráðsfundur þeirra með Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra um málefni sem fjallað hefði verið um á vettvangi ÖS. Samkomulag hefði orðið um að slíkir samráðsfundir ÖS/FebSel með bæjarstjóra verði framvegis tvisvar á ári til að fara yfir mál eldri borgara og fylgja þeim eftir.
    (b) Þá greindi formaður frá fundi í Valhúsaskóla í gær þar sem kynnt var verkefnislýsing fyrir áformaðan búsetukjarna fatlaðs fólks með 6 íbúðum ásamt starfsmannarými alls rúml. 500 ferm. vestan kirkjunnar.

Fundi slitið 16:35

Snorri Aðalsteinsson

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?