Fara í efni

Öldungaráð

15. september 2016

Þriðji fundur Öldungaráðs Seltjarnarness haldinn á Bæjarskrifstofum Seltjarnarness að Austurströnd 2 þann 15. september 2016 kl. 15:00 til 16:45.

Mættir: Ólafur Egilsson, Magnús Oddsson, Þóra Einarsdóttir, Hildigunnur Gunnarsdóttir, Birgir Vigfússon. Haukur Ingibergsson formaður Landssambands eldri borgara sat fundinn undir 1. lið.

Auk þess sat Snorri Aðalsteinsson fundinn og ritaði fundargerð.

  1. Fyrirhugaðar breytingar á lögum um almannatryggingar, einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur og fleira snýr að eldri borgurum. Fomaður bauð Hauk Ingibergsson formann Landssambands eldri borgara velkominn en hann var gestur fundarins Haukur rakti stöðu eldri borgara í samfélaginu almennt og ræddi breytingar á stöðu almannatrygginga m.t.t. breytinga á lífeyriskerfinu gagnvart eldri borgurum. Hlutfall greiðslna til eldri borgara skiptist þannig núna að 75% greiðslna koma úr lífeyrissjóðum en 25% í formi almannatrygginga frá Tryggingastofnun ríkisins. Gliðnunin er 2% á ári sem bætist á lífeyrissjóðina. Færri hlutfallslega fá núorðið lítið úr lífeyrissjóðum en meðal þeirra sem lítið fá þaðan eru heimavinnandi húsmæður og fólk af erlendu bergi brotið, konur oftast, en einnig íslendingar sem ungir hleyptu heimdraganum og hafa komið heim aftur án réttinda. Svo þeir sem komið hafa sér hjá því að greiða í lífeyrissjóði. Nefndir á vegum Alþingis hafa verið starfandi í mörg ár að samræma og endurskoða lífeyriskerfið. Búið er að vera að vinna að því í 15 – 20 ár að búa til nýtt lífeyrissjóðskerfi. Hrunið setti strik í reikninginn. Kerfin þurfa að vera einföld og skýr. Í núverandi tillögum eru sameinaðir 3 aðalflokkar bóta, lífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót. Skerðingar sem nema krónu á móti krónu hverfa og skerðing verður aldrei meira en 45%. Allar tegundir tekna skerða jafnt. Breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar hafa haft áhrif á að farið var í þessar breytingar. Auknir valkostir verða í boði varðandi starfslok, hægt er að hefja lífeyristöku við 65 ára aldur en fólk getur einnig frestað henni til 80 ára aldurs. Mögulegt er að vera í hlutastarfi og taka lífeyri að hluta á móti. Samræma þarf réttindakerfi almannatrygginga og réttindakerfi lífeyrissjóða. Á næstu 24 árum verður lífeyrisaldur hækkaður úr 67 árum í 70 ár skv. tillögunum. Kerfisbreytingin þýðir kostnaðaraukningu um 5 milljarða á næsta ári í greiðslu lífeyris frá Tryggingastofnun. 62% af þeirri upphæð fer til kvenna með lágan lífeyri. Landssamband eldri borgara styður það frumvarp sem nú liggur fyrir. Það er kapp við tímann um að þetta verði að lögum fyrir áramót. Hugmyndir um frestun á gildistöku laganna um eitt ár falla ekki í góðan jarðveg. Allir fá grunnlífeyri í dag frá Tryggingastofnun en skv. þessum tillögum fá þeir sem hafa yfir 500 þús á mánuði ekki grunnlífeyrinn. Um 4200 ellilífeyrisþegar fá greiðslur yfir 500 þúsund á mánuði. Landssamband eldri borgara hefur óskað eftir að endurskoðunarákvæði verði sett inn í lögin sem heimili endurskoðun eftir 2 – 3 ára reynslu. Ekki er eining um að breyta lögum um almannatryggingar sbr. umræðu í fjölmiðlum þessa dagana. Fyrirspurnir og umræður urðu eftir kynningu Hauks og var m.a. bent á nauðsyn þess að aðilar vinnumarkaðarins kæmu að málinu varðandi sveigjanleg starfslok.
  2. Forgangsröðun verkefna í þágu aldraðra sbr. tillögur íbúaþings um málefni eldri bæjarbúa á Seltjarnarnesi 28.3.2015. Farið var yfir lista með þeim atriðum sem fram komu á málþinginu og verkefnum raðað eftir mikilvægi þeirra og einnig metið hvort Seltjarnarnesbær geti haft áhrif á framgöngu þeirra eftir eðli þeirra.
  3. Magnús Oddsson formaður félags eldri borgara á Seltjarnarnesi áréttaði að bæjarstjórn og nefndir bæjarins vísuðu erindum sem vörðuðu eldri borgara til umsagnar og umfjöllunar í Öldungaráði Seltjarnarness.

Fleira ekki gert.

Fundi slitið.

Snorri Aðalsteinsson

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?