Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

18. október 2022

131. fundur skipulags- og umferðarnefndar haldinn í fundarsal skrifstofu skipulags- og umhverfissviðs Austurströnd 1, þriðjudaginn 18. október, 2022 kl. 08:15

Nefndarmenn: Svana Helen Björnsdóttir formaður, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir varaformaður, Örn Viðar Skúlason aðalmaður, Karen María Jónsdóttir aðalmaður,  Bjarni Torfi Álfþórsson aðalmaður

Starfsmenn: Brynjar Þór Jónasson, sviðsstjóri

Fundargerð ritaði: Brynjar Þór Jónasson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs.


Dagskrá:

1. 2022080251 - Umferðaröryggisáætlun Seltjarnarnesbæjar - endurskoðun 2022

Lögð fram tilboð í endurskoðun umferðaröryggisáætlunar Seltjarnarnesbæjar.

Skipulags- og umferðarnefnd frestar erindinu og felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að fá betri skýringar á tilboðum bjóðenda.


2. 2022100084 - Vallarbraut 3

Lögð fram byggingarleyfisumsókn Brynhildar Sólveigardóttur, dagsett 10. október 2022, þar sem sótt er um leyfi til að byggja tvöfaldan bílskúr á lóðinni Vallarbraut 3 ásamt því að loka svölum með gleri.

Skipulags- og umferðarnefnd hafnar erindinu, samræmist ekki deiliskipulagi.


3. 2022090054 - Látraströnd 54 - Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis

Lögð fram umsagnarbeiðni frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 5. september 2022, um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki II að Látraströnd 54. Málið var áður á dagskrá 129. fundar skipulags- og umferðarnefndar þar sem því var frestað.

Í gildandi aðalskipulagi Seltjarnarness er ekki fjallað sérstaklega um gististarfsemi. Í greinargerð aðalskipulags segir í kafla 3.1. um íbúðabyggð;

„Gert er ráð fyrir að í íbúðarhverfum geti verið atvinnustarfsemi svo fremi að hún valdi óverulegum óþægindum, nánar tiltekið innan eftirfarandi marka:

  • Starfsemin fari fram innan hefðbundins dagvinnutíma.
  • Starfsemi hvers rekstraraðila valdi ekki ónæði, t.d. vegna umferðar, lyktar eða hávaða.
  • Bílastæðanotkun gangi ekki verulega á afnot íbúa í nálægum húsum af sameiginlegum bílastæðum.

Óheimilt er á íbúðarsvæðum að reka áfengisveitingastaði, sbr. flokk II og III. skv. 4. gr. laga nr. 85/2007.“

Landnotkun er oft skilgreind nánar í deiliskipulagi. Í deiliskipulagi stranda er ekki nánari skilgreining að öðru leyti en því að svæðið er skilgreint sem íbúðabyggð (ÍB-9) í aðalskipulagi. Umsóknin var á sínum tíma kynnt nágrönnum þ.e. eigendum 14 húsa, að húsi nr. 54 með töldu, þ.e. Látraströnd 15, 17, 19, 21, 46, 48, 50, 52, 54, 58, Barðaströnd 45, 47, 49 og 51. Eigendur 7 húsa gerðu athugasemdir þ.e. húsa við Látraströnd nr. 15, 17, 21, 46, 50, 52 og 58.

Um athugasemdir nágranna vísast til þeirra og til umsagnar Landslaga, dags. 8. mars 2021. Efnislegar athugasemdir þeirra sem gerðu athugasemdir sneru því einkum að ónæði vegna starfseminnar á nóttunni og snemma á morgnanna þ.e. vegna umgengni viðskiptamanna gististaðarins við komur og brottfarir þ.e. að hávaða við þau tækifæri. Þá var kvartað undan notkun á almennum bílastæðum. Í raun má þó líklega segja að ónæði af starfseminni, umfram það sem almennt verður að telja að felist í notkun húsnæðis sem íbúðarhúsnæðis, felist einkum í meiri umgengni á nóttunni og snemma á morgnanna, með tilheyrandi auknu ónæði umfram það sem almennt má gera ráð fyrir frá hefðbundnu íbúðarhúsnæði. Enginn athugasemdaaðila kvartaði þó beint yfir óþægindum frá starfseminni eins og hún var rekin en lýstu áhyggjum af ónæði. Þó kom fram að fyrrverandi eigendur að Látraströnd 15 hafi orðið fyrir óþægindum vegna ónæðis.

Með vísan til athugasemda var talið að starfsemin færi a.m.k. að einhverju leiti fram utan hefðbundins dagvinnutíma þ.e. komur og brottfarir. Af því var talið leiða að slík starfsemi í íbúðarhverfi myndi líklega, almennt séð, valda nágrönnum eitthvað meira ónæði en hefðbundin búseta og væri því í andstöðu við aðalskipulag. Ekki liggur fyrir með beinum hætti að ónæði hafi verið frá fyrri starfsemi nema upplýsingar um að fyrri eigendur að Látraströnd nr. 15 hafi orðið fyrir ónæði.

Í athugasemdum lögmanns umsækjanda, dags. 17. október sl., kemur fyrst fram að starfsemin fari fram á dagvinnutíma og að umsækjandi bjóði ekki upp á næturþjónustu. Það er að segja að ferðamenn verði að innrita sig milli kl. 15.00 og 17.00 og þurfi að fara fyrir kl. 11.00.

Með vísan til þess, þ.e. ef komur og brottfarir eru almennt á dagvinnutíma, þ.e. að starfsemin hafi ekki í för með sér aukna umferð eða ónæði utan dagvinnutíma, telur meirihluti nefndarinnar ekki forsendur til að leggjast gegn umsókninni að svo komnu enda eigi móttaka ferðamanna og brottfarir sér aðallega stað á dagvinnutíma. Framangreint er algjör forsenda þess að meirihluti nefndarinnar leggst ekki gegn umsókninni. Breytist móttöku- eða brottfarartími ferðamanna miðað við þetta almennt eða verði verulegt ónæði af starfseminni bresta forsendur fyrir jákvæðri afstöðu meirihluta nefndarinnar til starfseminnar. Áskilur nefndin sér rétt til að bregðast við á viðeigandi hátt m.a. með tilkynningu þar um til sýslumanns sem væntanlega tekur þá til skoðunar hvort forsendur fyrir leyfisveitingunni séu brostnar.

Vísað til staðfestingar í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar.


4. 2022100075 - Umsagnarbeiðni - Suðurströnd 2, Hátíðarsalur Gróttu

Lögð fram umsagnarbeiðni frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 10. október 2022, um leyfi til reksturs veitingaleyfis-G og samkomusalar í flokki II í hátíðarsal Gróttu, Suðurströnd 2.

Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að veita jákvæða umsögn um umsókn um rekstrarleyfi fyrir veitingaleyfi G, samkomusalur í flokki II. Samkvæmt Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 er heimilt að reka veitingastaði í flokki II innan svæðisins.

Vísað til staðfestingar í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar.


Fundi slitið. 10:01

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?