Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

136. fundur 09. febrúar 2023

136. fundur Skipulags- og umferðarnefndar var haldinn í fundarsal bæjarstjórnar Seltjarnarness, fimmtudaginn 9. febrúar, 2023 kl. 08:15

Fundinn sátu: Svana Helen Björnsdóttir, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Örn Viðar Skúlason, Karen María Jónsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson

Starfsmaður: Brynjar Þór Jónasson, sviðsstjóri

Fundargerð ritaði: Brynjar Þór Jónasson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs

Dagskrá:

1. 2023010197 - Húsnæðisáætlun Seltjarnarnesbæjar 2023

Lögð fram til kynningar húsnæðisáætlun Seltjarnarnesbæjar 2023.

Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir Húsnæðisáætlun Seltjarnarnesbæjar 2023 og vísar til staðfestingar í bæjarstjórn.

2. 2022050369 - Skólabraut 12 - umsókn um byggingarleyfi

Lögð fram byggingarleyfisumsókn Helgu Vilmundardóttur fyrir hönd eigenda Skólabrautar 12, dagsett 30. maí 2022, þar sem sótt er um leyfi fyrir viðbyggingu á annarri hæð út frá íbúð 201 í samræmi við meðfylgjandi aðaluppdrætti.

Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir byggingaráform, samræmist deiliskipulagi.

3. 2023020034 - Deiliskipulag Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæði - breyting vegna grenndarstöðva

Lagt fram minnisblað Ingimars Ingimarssonar garðyrkjustjóra, dagsett 6. febrúar 2023, þar sem lagðar eru til staðsetningar innan deiliskipulagssvæðisins á móttökustöðvum fyrir endurvinnsluefni.

Skipulags- og umferðarnefnd felur skipulagsfulltrúa að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæðis og leggja fyrir næsta fund nefndarinnar. Nefndin leggur til að litlar grenndarstöðvar verða staðsettar við Plútóbrekku og á mótum Norðurstrandar og Lindarbrautar og stór grenndarstöð verði staðsett við björgunarsveitarhús á Suðurströnd.

4 2023020035 - Deiliskipulag Suðurstrandar og Hrólfsskálamels - Skólabraut 1

Lögð fram drög að breytingu á deiliskipulagi Suðurstrandar og Hrólfsskálamels, dagsett 6. febrúar 2023, í breytingunni fellst að gerður er nýr byggingareitur fyrir færanlegar kennslustofur og nýtingarhlutfall aukið.

Skipulags-og umferðarnefnd samþykkir að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Suðurstrandar og Hrólfsskálamels skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagsslaga nr. 123/2010. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.

5. 2023010131 - Melabraut 16 - Fyrirspurn til skipulagsfulltrúa

Lögð fram fyrirspurn Jóns Einars Jónssonar, dagsett 9. janúar 2023, þar sem óskað er heimildar til að vinna deiliskipulagsbreytingu fyrir Melabraut 16 í samræmi við meðfylgjandi gögn.

Skipulags- og umferðarnefnd tekur jákvætt í erindið og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.

6. 2022110119 - Nesvegur 103-105 - Deiliskipulagsbreyting

Lögð fram umsókn Guðna Valbergs fyrir hönd Sunnu Guðnadóttur, dagsett 12. desember 2022, um breytingu á deiliskipulagi Lambastaðhverfis vegna Nesvegar 103-105. Í umsókninni felst ósk um að hækka nýtingarhlutfall á lóðinni úr 0,3 í 0,4 en að byggingarreitur haldist óbreyttur.

Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir tillöguna. Fallið er frá grenndarkynningu þar sem ekki eru aðrir taldir eiga hagsmuna að gæta en Seltjarnarnesbær og samlóðarhafi sem gefið hefur undirritað samþykki á kynningargögn. Nefndin felur skipulagsfulltrúa að auglýsa breytinguna í B-deild stjórnartíðinda og senda Skipulagsstofnun til varðveislu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga 123/2010. Vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

7. 2022120200 - Umsagnarbeiðni vegna gistingar - Lindarbraut 13

Lögð fram frekari gögn varðandi umsagnarbeiðni frá Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna rekstrarleyfis fyrir gistiheimili í flokki II-C við Lindarbraut 13.

Í gildandi aðalskipulagi Seltjarnarness er ekki fjallað sérstaklega um gististarfsemi. Í greinargerð aðalskipulags segir í kafla 3.1. um íbúðabyggð;

„Gert er ráð fyrir að í íbúðarhverfum geti verið atvinnustarfsemi svo fremi að hún valdi óverulegum óþægindum, nánar tiltekið innan eftirfarandi marka:

  • Starfsemin fari fram innan hefðbundins dagvinnutíma.
  • Starfsemi hvers rekstraraðila valdi ekki ónæði, t.d. vegna umferðar, lyktar eða hávaða.
  • Bílastæðanotkun gangi ekki verulega á afnot íbúa í nálægum húsum af sameiginlegum bílastæðum.

Óheimilt er á íbúðarsvæðum að reka áfengisveitingastaði, sbr. flokk II og III. skv. 4. gr. laga nr. 85/2007.“

Landnotkun er oft skilgreind nánar í deiliskipulagi. Í deiliskipulagi Vestursvæðis að Lindarbraut er ekki nánari skilgreining að öðru leyti en því að svæðið er skilgreint sem íbúðabyggð (ÍB-7) í aðalskipulagi.

Umsóknin var kynnt íbúum Lindarbrautar 11, 15, 15a, 14, 16 og 18 og Nesbala 21, 23 og 25 einnig var óskað eftir frekari gögnum frá umsækjanda um afgreiðslutíma gististaðar og fjölda áætlaðra bílastæða fyrir starfsemina. Engar athugasemdir bárust frá íbúum og umsækjandi hefur gert grein fyrir afgreiðslutíma gesta milli 11:00 og 14:00 daglega og bílastæði sé fyrir gesti innan lóðar.

Með vísan til þess, þ.e. ef komur og brottfarir eru almennt á dagvinnutíma, þ.e. að starfsemin hafi ekki í för með sér aukna umferð eða ónæði utan dagvinnutíma, telur meirihluti nefndarinnar ekki forsendur til að leggjast gegn umsókninni að svo komnu enda eigi móttaka ferðamanna og brottfarir sér aðallega stað á dagvinnutíma. Framangreint er algjör forsenda þess að meirihluti nefndarinnar leggst ekki gegn umsókninni. Breytist móttöku- eða brottfarartími ferðamanna miðað við þetta almennt eða verði verulegt ónæði af starfseminni bresta forsendur fyrir jákvæðri afstöðu meirihluta nefndarinnar til starfseminnar. Áskilur nefndin sér rétt til að bregðast við á viðeigandi hátt m.a. með tilkynningu þar um til sýslumanns sem væntanlega tekur þá til skoðunar hvort forsendur fyrir leyfisveitingunni séu brostnar.

Vísað til staðfestingar í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar.

8. 2023010382 - Mörkun Samgöngusáttmálans

Lögð fram til kynningar drög að mörkun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Skipulags- og umferðarnefnd frestar erindinu.

9. 2023010434 - Norðurströnd - Vöktun umferðar

Lögð fram vöktun umferðarhraða á Norðurströnd unnin af Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 31. janúar 2023.

Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að skoða hraðaminnkandi aðgerðir í samræmi við gildandi umferðaröryggisáætlun.

10. 2021090228 – Gatnamót Nesvegar og Suðurstrandar

Kynnt virkni umferðarljósa sem stýra umferð um gatnamót Suðurstrandar og Nesvegar, ljósin voru nýlega uppfærð í því skyni að auka umferðaröryggi, ekki síst fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem þvera gatnamótin.

Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að leggja fram tillögur að mögulegum lausnum á næsta fundi nefndarinnar.

11. 2022110134 - Gangbraut við Skólabraut

Umræður um T-gatnamót við Skólabraut gegnt Tónlistarskóla Seltjarnarness.

Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að loka hliði við bílastæði Valhúsaskóla meðan umferðaröryggismál eru skoðuð á svæðinu.

 

Fundi slitið 09.50

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?