Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

152. fundur 13. júní 2024 kl. 08:15

Mættir: Svana Helen Björnsdóttir sem stýrði fundi, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Hákon R. Jónsson, Bjarni Torfi Álfþórsson og Karen María Jónsdóttir.

Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs og starfsmaður nefndar.

Dagskrá:

1. 2024050185 – Byggingarleyfi Lindarbraut 43 breyting úti

Ívar Hauksson, byggingarverkfræðingur sækir um að setja dyr á vesturhlið hússins Lindarbraut 43 í samræmi við framlagðan uppdrátt. Burðarsúla er fjarlægð en önnur burðarvirki koma í stað hennar.

Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Byggingarleyfi verður gefið út þegar umsækjandi hefur skilað öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð 112/2012.

2. 2024040244 –Golfskáli Ness - byggingarleyfi

Sótt er um breytingar á golfskála Golfklúbbs Seltjarnarness sem Noland arkitektar hafa unnið. Um er að ræða teikningar af húsinu eins og það er eftir breytingar margra ára og auk þess nýlega útfærðar breytingum á eldhúsi og stækkun þess á kostnað geymslu.

Afgreiðsla: Samþykkt. Byggingarleyfi verður gefið út þegar umsækjandi hefur skilað öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð 112/2012.

3. 2024050174 – Byggingarleyfi Nesvegur 123 - Breyting á áður samþykktu byggingarleyfi

Sigríður Maack, arkitekt sækir um breytingar á áður samþykktu byggingarleyfi fyrir húsið Nesvegur 123. Árið 2021 var samþykkt 40 fermetra viðbygging við húsið en nú er hætt við svalir á risíbúð en í stað þeirra er sett björgunarop á risið ásamt flóttastiga niður á svalir 1. hæðar.

Afgreiðsla: Samþykkt.

4. 2024050186 – Barðaströnd 7 – Umsókn um viðbyggingu

Ívar Hauksson, byggingarverkfræðingur sækir um að byggja 46 fermetra við húsið Barðaströnd 7 á tveimur hæðum. Húsið er hluti af 7 húsa raðhúsalengju sem snýr að Norðurströnd.  Húsið er 221,2 fermetrar en verður 267,2 fermetrar við breytinguna eða stækkun um 20,8 %. Húsin í lengjunni standa á sameiginlegri lóð. Tilsvarandi viðbyggingar hafa áður verið samþykktar og byggðar við 2 hús í lengjunni.

Afgreiðsla: Samþykkt. Byggingarleyfi verður gefið út þegar umsækjandi hefur skilað öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð 112/2012.

5. 2024060022 – Barðaströnd 20 - Opið bílskýli

Hlynur Daði Sævarsson arkitekt, fyrir hönd húseiganda að Barðaströnd 20 leggur fram breytingu á deiliskipulagi sem heimilar að byggja opið bílskýli við húsið að lóðarmörkum nágranna. Bílskýlið er svokallað B rými sem þýðir að einungis er um skyggni að ræða, borið af súlum.  Nýlega var samþykkt stækkun á húsinu og er nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt því 0,37. Við breytinguna verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,4.  Í gildandi deiliskipulagi svæðisins er talað um að nýtingarhlutfall skuli vera á bilinu 0,3-0,4.

Afgreiðsla: Samþykkt að grenndarkynna tillöguna. Hún verð grenndarkynnt fyrir eigendum Barðastrandar 16 og 18 og Vesturströnd 29 og 31.

6. 2024030078 – Bygggarðar 1-5 lítilsháttar breyting á samþykktum uppdráttum

Tark arkitektar sækja um lítilsháttar breytingu á uppdráttum af Bygggörðum 1- 5 um er að ræða fjölbýlishús með 25 íbúðum og bílakjallara. Breytingin fellst í að nokkrum eldhúsinnréttingum er breytt lítillega og salerni í einni íbúð, sem hefur tvö salerni, er breytt í þvottahús.

Afgreiðsla: Samþykkt. Skipulags- og byggingarfulltrúa er heimilað að samþykkja tilsvarandi smábreytingar í framtíðinni án aðkomu nefndarinnar.

7. 2024050214 – Barðaströnd 12 - umsókn vegna girðingar

Sótt er um leyfi til að byggja grindverk á lóðarmörkum við húsið Barðaströnd 12. Fyrir var runni á lóðarmörkunum sem var að mestu dauður. Um er að ræða þær hliðar er snúa annars vegar a) út að göngustíg sem liggur frá Vesturströnd yfir á Barðaströnd og hins vegar b) út að gangstétt fyrir framan húsið okkar að Barðaströnd. Seltjarnarnesbær er landeigandi öðru megin við girðinguna þar sem er göngustígurinn er.  Girðingin er 1 m á hæð á horni göngustígsins út að götunni Barðaströnd til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi.

Afgreiðsla: Samþykkt í samræmi við grein 2.3.5. í byggingarreglugerð.

Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, vék af fundi meðan fjallað var um málið.

8. 2024060033– Erindi um sánavagn á bílastæði við enda Suðurstrandar

Sótt er um heimild til að staðsetja svokallaðan sánavagn á bílastæði við vesturenda Suðurstrandar.  Ætlunin er að bjóða upp á Sauna upplifun, þar sem að fólk kemur saman, upplifir hita sánunnar í þremur lotum og kælir úti undir berum himni, í sjó eða vatni á milli hverrar lotu.  Hver Sauna “gusa” sem leidd er af fagaðila hverju sinni tekur um u.þ.b eina klukkustund. Svona sauna “gusur” njóta mikilla vinsælla í Evrópu, m.a. í Finnlandi, Danmörku, Þýskalandi og Noregi og má sjá þær við hafnir í Kaupmannahöfn og Osló svo eitthvað sé nefnt.

Fordæmi fyrir slíkri starfsemi er í Reykjavík þar sem að ferða Sauna er rekin bæði við Skarfaklett sem og við Ægissíðu.

Afgreiðsla: Skipulagsnefnd vísar erindinu til umsagnar umhverfisnefndar.

9. 2022040251 – Hraðahindrun á Bakkavör við Melabraut - erindi frá íbúa

Íbúi sem sendir erindi hefur áður bent á þá hættu sem skapast við gangbraut sem liggur yfir Bakkavör. Íbúinn hefur áhyggjur af hraðri umferð og því að bílum er oft lagt upp við gangbrautina sem lokar á sjónlínur og leggur til að sett verði hraðahindrun eða aðrar ráðstafanir til að bæta öryggið á þessum stað.

Afgreiðsla: Nefndin þakkar erindið og felur skipulagsfulltrúa að endurskoða útfærslu gangbrautarinnar i samráði við sérfræðing í umferðaröryggismálum.

10. 2024030085 - Malbikunarframkvæmdir næstu misseri

Taka þarf ákvörðun um hvaða malbikunarframkvæmdir á að fara í sumarið 2024 í bænum og bóka verkataka til verksins tímanlega. Skipulagsfulltrúi hefur gert verðkönnun til viðmiðunar í malbikun Suðurstrandar og viðgerðir sem starfsmenn áhaldahúss sem þekkja vel til telja nauðsynlegar. Hæðarbraut er ein verst farna gata bæjarins en fyrir liggur að endurnýja þarf lagnir undir stórum hluta hennar.

Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 20.000.000 í heilmalbikun og 6.956.000 í viðhald gatna.

Samkvæmt verðkönnuninni kostar um 45.166.000 að heilmalbika um helming Suðurstrandar og 22.916 Þúsund að gera við þær skemmdir sem starfmenn telja nauðsynlegt eða samtals 68.000.000.

Afgreiðsla: Lagt er til að sumarið 2024 verði hluti Suðurstrandar malbikaður eða um 7000 fermetrar. Einnig verði ráðist í lagfæringar á öllum skemmdum á malbiki í bænum í samræmi við það sem starfsmenn telja nauðsynlegt.

Nefndin beinir því til bæjarráðs að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun til að brúa það bil sem er milli núverandi áætlunar og kostnaðar við þessi verk.

Nefndin leggur til að Hæðarbraut verði malbikuð þegar lagnavinnu og tilheyrandi greftri, sem fyrir liggur að þurfi að fara í, er lokið. Búast má við að það verði sumarið 2025.

11. 2024030085 – Umferðaröryggisáætlun

Umferðaröryggisáætlun 2018-2022 var unnin af VSÓ verkfræðiþjónustu og hefur verið fylgt. Af margvíslegum ástæðum hefur ekki allt komið til framkvæmda sem þar var lagt til og hefur gildistímaa hennar verið framlengdur um eitt ár í einu, tvisvar sinnum. Ljóst er að tími er kominn á að endurskoða hana þar sem margt hefur breytst síðan hún var unnin. Til dæmis sækja nú skólabörn skóla í bráðabirgðastofur, bæði við Austurströnd og í Eiðistorgi vegna mygluframkvæmda í báðum skólum bæjarins.

Afgreiðsla: Lagt til að skipulagsfulltrúi afli tilboða í endurskoðun áætlunarinnar og leggi upplýsingarnar fyrir næsta fund.

12. 2024060037 - Tillaga um að Gróttubyggð verði BREEAM-vottað deiliskipulag

Samfylkingin leggur til að nýju að deiliskipulagsáætlun fyrir Gróttubyggð fái BREEAM umhverfisvottun. Tillagan gerir ráð fyrir að verkefnið verði unnið í samráði við viðkomandi þróunarfélag, lóðarhafa, verktaka og önnur skipulagsyfirvöld eftir því sem við á. Leitað verði til sérfræðinga og verkfræðistofa til ráðgjafar og útfærslu. Í viðhengi er ítarlegt erindi með rökstuðningi fyrir tillögunni.

Þegar hefur verið gefið út byggingarleyfi fyrir fimm húsum með samtals 71 íbúð samkvæmt deiliskipulaginu sem tók gildi árið 2013 og var breytt árið 2020 og 2023.

Afgreiðsla: Skipulagsfulltrúa falið að skoða hvað í þessu felst og upplýsi nefndina á næsta fundi.

13. 2024020076- Umferðaröryggi á Norðurströnd

Umferðaröryggi á Norðurströnd hefur verið í umræðunni bæði í nefndinni og á samfélagsmiðlum. Gera þarf úrbætur sem fela í sér aðgreiningu á akstursstefnum við gatnamót.

Afgreiðsla: Lagt til að skipulagsfulltrúi afli tilboða í gerð tillögu um endurbætur á Norðurströnd með bætt umferðaröryggi að leiðarljósi.

14. 2024060036 - Hraðamæling á Nesvegi 14-5-2024
Lögð er fram skýrsla um hraðamælingu á Nesvegi sem fram fór 14.05.2024

Eftirfarandi kemur fram í skýrslunni:

Á tímabilinu frá kl. 13:40 til 14:50 þann 14.05.2024 var vöktuð umferð sem ekið var vestur Nesveg við Kolbeinsmýri. Þarna er 40 km hámarkshraði. Á ofangreindu tímabili vaktaði vélin 125 ökutæki og var meðalhraði þeirra 42 km. Af vöktuðum ökutækjum voru ljósmynduð 26 brot eða um 21%. Meðalhraði þeirra var 51 km og hraðast ekið á 62 km hraða

Afgreiðsla: Lagt fram. Nefndin óskar eftir að gerð verði sólarhringsmæling á hraða eftir Nesvegi, Norðurströnd og Suðurströnd.

15. 2024040061 - Umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu 5. maí til 1. júní.

Skýrslur um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu dagana 5. maí til 1. júní lagðar fram. Ekkert slys varð á Seltjarnarnesi.

Afgreiðsla: Lagt fram.

16. 2023120008 – Byggingarleyfi Skólabraut 1

Verkfræðistofan Strendingur sækir um byggingarleyfi fyrir breyttum uppdráttum að Skólabraut 1.  Um er að ræða breytingar í samræmi við endanlega útfærslu leikskólans Stjörnubrekku.

Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt.

 

Fundi slitið kl. 9:46

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?