Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

162. fundur 22. apríl 2025 kl. 08:15 - 09:20 fundarsal bæjarstjórnar að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi

Mættir: Svana Helen Björnsdóttir sem stýrði fundi, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Örn Viðar Skúlason, Karen María Jónsdóttir og Garðar Svavar Gíslason.

Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi.

Dagskrá:

1. 2025030125 – Þurrsalerni við golfvöll.

Golfklúbbur Ness óskar eftir heimild til að setja upp þurrsalerni við golfvöllinn. Fjallað hefur verið um málið og það fengið jákvæða afgreiðslu í umhverfisnefnd sveitafélagsins.

Afgreiðsla: Samþykkt. Byggingarfulltrúa heimilað að veita stöðuleyfi fyrir salernunum.

2. 2025040097 – Uppfærsla á auglýsingaskiltaturni við Eiðistorg.

Íþróttafélagið Grótta óskar eftir heimild til að uppfæra auglýsingaskiltaturn sem stendur í vegsvæði við bílastæðið hjá Eiðistorgi. Turninn er orðinn lúinn og hugmyndin er að uppfæra einnig sjálfan auglýsingastandinn þannig að hægt sé að fjarstýra auglýsingum. Um er að ræða umtalsverða tekjuöflun fyrir félagið. Við samningagerð hefur félagið lagt áherslu á að skiltið gæti þurft að víkja ef bærinn breytir nýtingu bílastæðanna við Eiðistorg eða ef byggingaframkvæmdir fara af stað þar.

Afgreiðsla: Samþykkt með þeim fyrirvara að skiltið gæti þurft að víkja ef bærinn breytir nýtingu bílastæðanna við Eiðistorg eða ef byggingaframkvæmdir fara af stað þar. Bent er á reglur sveitarfélagsins um auglýsingaskilti á Seltjarnarnesi.

3. 2025040099 – Melabraut 15 - fyrirspurn um svalir.

Spurt er hvort heimilað verði að gera svalir á 2. og 3. hæð hússins Melabraut 15 í samræmi við uppdrátt sem Atrium arkitektar hafa unnið. Rétt er að geta þess að byggingareglugerð gerir kröfur um svalir á íbúðum af öryggisástæðum en litið er á þær sem mikilvæga undankomuleið við bruna.

Afgreiðsla: Nefndin tekur jákvætt í erindið og óskar eftir uppdráttum svo hægt sé að grenndarkynna áformin í samræmi við 2. málsgrein 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.

4. 2025040100 – Umsókn um leyfi fyrir viðburði - The Distinguished Gentleman’s Ride

Óskað er eftir leyfi fyrir hópakstri mótorhjólafólks um Seltjarnarnes sunnudaginn 18. maí 2025. Þá fer fram svokallað „The Distinguished Gentleman’s Ride“ (Hefðarfólk á Hjólum), sem er hluti af alþjóðlegum góðgerðarviðburði þar sem að mótorhjólafólk kemur saman, snyrtilega klætt og keyrir stuttan hring í fylgd lögreglu um miðbæ Reykjavík og Seltjarnarnes á gamaldags og klassískum mótorhjólum.

Þar sem að hluti hópakstursins fer um Nesið er óskað eftir leyfi til að aka um eftirfarandi götur á milli kl. 14:00 og 14:20 þennan dag:

- Norðurströnd

- Lindarbraut

- Suðurströnd

- Nesvegur

Afgreiðsla: Samþykkt.

5. 2025040101 - Flóðavarnir með fram strönd Seltjarnarness

Þónokkrar skemmdir urðu á varnargörðum meðfram strönd Seltjarnarness í stórviðrinu fyrir nokkrum vikum. Starfsmenn bæjarins hafa unnið þrekvirki við hreinsun og viðgerðir á stígum. Næst á dagskrá er viðgerð á varnargarðinum sem umlykur bæinn en nokkur skörð komu í hann.

Ekki er til mikið efni í bænum og nokkur kostnaður felst í að flytja hentugt grjót til bæjarins og þarf að sitja um það þar sem það fellur til og geyma það svo innan bæjarmarkanna meðan unnið er að viðgerðum. Finna þarf safngrjóti í varnargarða hentugan geymslustað innan Seltjarnarness.

Það er svo verkefni til lengri tíma að styrkja og hækka sjóvarnargarða umhverfis Seltjarnarness. Athuga þarf sérstaklega þau strandsvæði þar sem íbúar hafa staðið gegn varnargörðum vegna útsýnissjónarmiða. Í stórviðrinu fyrir nokkrum vikum flæddi inn í nokkur hús þar sem varnargarðar voru ófullnægjandi og mega sjónarmið um útsýni á haf út ekki vega þyngra en öryggissjónarmið er varða líf fólks, heilsu þess og eignir.

Afgreiðsla: Starfsmönnum er þakkað fyrir starfið undanfarnar vikur og þeir eru hvattir til dáða og til að hafa allar klær úti til að safna hentugu efni í varnargarða. Nefndin vísar því til umhverfisnefndar að koma með tillögu um hentugan stað innan bæjarmarkanna fyrir tímabundna geymslu á efni. Mikilvægt er að huga að styrkingu sjóvarna til lengri tíma og að verkefnið verið verði hluti af samgönguáætlun ríkisins.

6. 2024060034 – Umferðaröryggisáætlun

Farið yfir stöðu umferðaröryggisáætlunar. Rætt um ástand Norðurstrandar, fyrirhugaðar viðgerðir og malbikunarframkvæmdir á götunni, útfærslur á gangbrautareyjum til að koma í veg fyrir hraðakstur og framúrakstur.

Afgreiðsla: Sviðstjóri upplýsti nefndina um stöðu málsins.

7. 2025040112 – Verkefnastjórnsýsla skipulags- og umhverfissviðs

Formaður skipulags- og umferðarnefndar leggur til að tekin verði upp formleg verkefnastjórnsýsla við undirbúning, forgangsröðun og framkvæmd verkefna innan sviðsins. Meginreglan skal vera sú að verkefni séu skráð, þau kostnaðarmetin, þeim áfangaskipt eftir atvikum og áætlun gerð um verktíma og kostnað. Ábati verks, verklok og raunkostnaður sé einnig skráður þannig að unnt sé að draga lærdóm af framkvæmd verka.

Afgreiðsla: Lagt fram.

8. 2024040061 – Umferðaslys á höfuðborgarsvæðinu frá 9. mars

Lagðar fram skýrslur um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu frá 9. mars 2025. Ekkert umferðarslys varð á Seltjarnarnesi.

Afgreiðsla: Lagt fram.

9. 2024100151 – Hraðamæling við Suðurströnd 9-4-2025

Á tímabilinu frá kl. 09:25 til 10:25 þann 09/04/25 var vöktuð umferð með hraðamyndavél sem ekið var austur Suðurströnd við íþróttamiðstöð. Þarna er 30 km hámarkshraði. Á ofangreindu tímabili vaktaði vélin 135 ökutæki og var meðalhraði þeirra 38 km. Af vöktuðum ökutækjum voru ljósmynduð 59 brot eða um 44%. Meðalhraði þeirra var 45 km og hraðast ekið á 64 km hraða.

Afgreiðsla: Lagt fram.

 

10. 2024100151 – Fundartími næsta fundar nefndarinnar

Lögð fram tillaga um að næsti fundur nefndarinnar verði þann 15. maí sem fellur á fimmtudag. Þetta er í samræmi við fyrri áætlun um fundi ársins.

Afgreiðsla: Samþykkt að næsti fundur verði þann 15. maí 2025.

Fundi slitið kl. 9:20

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?