Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

163. fundur 15. maí 2025 kl. 08:15 - 09:17 fundarsal bæjarstjórnar að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi

Mættir: Svana Helen Björnsdóttir sem stýrði fundi, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Örn Viðar Skúlason, Karen María Jónsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson.

Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi.

Dagskrá:

1. 2025050018 – Látraströnd 24 - fyrirspurn um sólskála

Eigandi spyr hvort heimilað verði að byggja sólskála yfir pallinn á suðurhlið Látrastrandar 24. Um er að ræða ca. 27-30 fermetra. á Húsið er raðhús sem stendur á sameiginlegri lóð húsanna Látraströnd 16 -26.

Afgreiðsla: Nefndin er jákvæð gagnvart erindinu. Áskilið er samþykki meðlóðarhafa. Að því fengnu getur eigandi látið vinna óverulega deiliskipulagbreytingu á sinn kostnað og leggja fyrir nefndina.

2. 2025050081 – Víkurströnd 2 - fyrirspurn um nýjan bílskúr

Spurt er hvort heimilað verði að gera nýjan ca 70 fermetra bílskúr á lóðinni Víkurströnd 2.

Eldri skúr sem er 14,5 fm. verður rifinn. Nýr skúr yrði 72 fm og stendur innan byggingarreits.

Nýtingarhlutfall lóðar að nýjum skúr meðtöldum verður 0,4 en er í um 0,34 í dag.

Afgreiðsla: Synjað. Nefndin telur ljóst á grundvelli gagna að ekki er um bílskúr að ræða og hafnar erindinu. Vakin er athygli á að skipulag hverfisins gerir ráð fyrir einu íbúðarhúsi á hverri einbýlishúsalóð.

3. 2025050082 – Úttekt á skólalóðum, leikskólalóðum og róluvöllum

Borist hefur úttekt á skólalóðum, leikskólalóðum og róluvöllum innan sveitarfélagsins. Mjög víða er úrbóta þörf og bent er á tvo staði sem eru hættulegir og brýnt að laga þá án tafar. Um er að ræða þrjú handrið sem eru byggð í samræmi við eldra útgáfu byggingarlaga sem voru í fullu gildi þegar handriðin voru sett upp. Eitt handriðanna er áfast leiktæki á leikskólalóð Sólbrekku/Mánabrekku og hin á lóð Mýrarhúsaskóla.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til starfsmanna sviðsins að unnið verði jafnt og þétt að þeim úrbótum sem beðið er um og umrædd handrið verði lagfærð án tafar. Jafnframt er því beint til bæjarráðs að nægjanlegu fjármagni verði veitt til verkefnisins á næstu árum þannig að uppfæra megi leiksvæðin í samræmi við ábendingar úttektar sem gerð var á á skólalóðum, leikskólalóðum og róluvöllum innan sveitarfélagsins.

4. 20250401112 - Verkefnalisti umhverfissviðs og eignasjóðs

Lögð eru fram drög að lista yfir verkefni umhverfissviðs og eignasjóðs í samræmi við tillögu formanns nefndarinnar á síðasta fundi. Þá var samþykkt að tekin verði upp formleg verkefnastjórnsýsla við undirbúning, forgangsröðun og framkvæmd verkefna innan sviðsins.

Afgreiðsla: Lagt fram.

5. 2025050019 – Umsagnarbeiðni um vinnslutillögu í kynningu um breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna þéttingar byggðar í grónum hverfum

Milli funda gaf skipulagsfulltrúi umsögn um breytingu á rammahluta aðalskipulags Reykjavíkur vegna þéttingar byggðar í grónum hverfum. Um er að ræða fyrirhugaðar breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, sem varða uppbyggingu nýs íbúðarhúsnæðis innan gróinna hverfa. Áhersla er á uppbyggingarmöguleika á smærri vannýttum svæðum innan hverfanna, sem eru í eigu borgarinnar, ekki síst þar sem svigrúm er til fjölgunar nemenda í núverandi grunnskólabyggingum. Úttekt nýrra byggingarreita mun fyrst um sinn einkum beinast að reitum í Grafarvogi en síðar að þéttingarmöguleikum í öðrum hverfum borgarinnar.

Umsögn skipulagsfulltrúa var á þessa leið:

„Fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar er ekki gerð athugasemd við vinnslutillögu í kynningu um breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem fjallað er um uppbyggingu nýs íbúðarhúsnæðis innan gróinna hverfa.“

Afgreiðsla: Lagt fram.

6. 2024040061 – Umferðaslys á höfuðborgarsvæðinu frá 6. apríl

Lagðar fram skýrslur um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu frá 6. apríl 2025. Ekkert umferðarslys varð á Seltjarnarnesi.

Afgreiðsla: Lagt fram.

7. 2024100151 – Fundartími næsta fundar nefndarinnar

Lögð fram tillaga um að næsti fundur nefndarinnar verði þann 19. júní sem fellur á fimmtudag. Þetta er í samræmi við fyrri áætlun um fundi ársins.

Afgreiðsla: Samþykkt að næsti fundur verði þann 19. júní 2025.

 

Fundi slitið kl. 09:17

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?