Mættir: Svana Helen Björnsdóttir sem stýrði fundi, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Örn Viðar Skúlason, Karen María Jónsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson.
Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi.
Gestur: Ívar Pálsson, lögmaður mætti á fundinn undir 1. dagskrárlið.
Dagskrá:
1. 2024120141 – Lambastaðabraut 14 úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála
Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndár umhverfis- og auðlindamála vegna kæru eiganda Lambastaðabrautar 12 vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa um að hafna „beitingu þvingunarúrræða til að koma á lögmætu ástandi á lóð nr. 14 við Lambastaðabraut.“
Málavextir eru raktir í úrskurðinum, en skipulagsnefnd samþykkti byggingaráformin að Lambastaðabraut 14 þann 15. janúar 2020.
Afgreiðsla: Nefndin felur byggingarulltrúa að afgreiða málið að nýju að teknu tilliti til ábendinga og athugasemda í greindum úrskurði að höfðu samráði við lögmann sveitarfélagsins.
Ívar Pálsson, lögmaður, sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
2. 2025060103 – Selbraut 74 - umsókn um byggingarleyfi
Sótt er um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið Selbraut 74. Umsóknin er í samræmi við deiliskipulag. Byggt er við húsið til suðurs og gert grein fyrir nýjum lóðarveggjum á uppdráttum.
Eftir breytinguna verður húsið 238 m2 en er nú 211,2 samkvæmt fasteignaskrá HMS. Nýtingarhlutfall lóðar sem er 1.098 m2 verður 0,22 eftir breytinguna.
Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Byggingarleyfi verður gefið út þegar umsækjandi hefur skilað inn öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012.
3. 2025060106 – Sævargarðar 2 - umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu
Sótt er um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið Sævargarðar 2. Einnig er gert grein fyrir áður byggðum lóðarveggjum. Byggt er við húsið að norðanverðu og er innangengt milli íbúðar og viðbyggingar.
Eftir breytinguna verður húsið 318,2 m2 en var 230 m2 samkvæmt fasteignaskrá HMS. Nýtingarhlutfall lóðar sem er 1.501 m2 verður 0,21 eftir breytinguna.
Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Byggingarleyfi verður gefið út þegar umsækjandi hefur skilað inn öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012.
4. 2025060117 - Umsókn ON um að fá að setja upp hleðslustæði stæði við sundlaug
Orka náttúrunnar (ON) óskar eftir að setja upp hverfahleðslu (hleðslustöðvar fyrir rafbíla) við sundlaug Seltjarnarness. Þar er mögulega ónotuð heimtaug sem væri hægt að nýta í þetta verkefni.
Þau sjá fyrir sér aukna þjónustu við viðskiptavini, bæjarbúa og starfsfólk bæjarins.
Þau vilja nýta köldu stæðin (óvinsælustu stæðin) sem hleðslustæði. Uppsetning hleðslustöðva í litlum hluta stæðanna fjærst inngagni.
Að setja upp hleðslustöðvar við bílastæði fækkar ekki bílastæðum, heldur eykur þjónustu við þau sem keyra um á rafbíl. Um 32% skráðara bíla Seltjarnarnesi eru rafbílar sem er nokkru hærra en landsmeðaltal.
Afgreiðsla: Hafnað.
5. 2025060118 – Skerjabraut 9 - Hleðslustöð í götu við fjölbýlishús
Húsfélagið í fjölbýlinu Skerjabraut 9 óskar eftir að setja upp heimahleðslustöð fyrir utan bygginguna við stæði í götu sem eru á landareign bæjarins.
Afgreiðsla: Hafnað. Umsækjanda er bent á þann möguleika að staðsetja stæði og hleðslustöð innan sinnar lóðar innan marka skipulags.
6. 2024040061 – Tjarnarstígur 11 - fyrirspurn um tilfærslu á bílskúrsreit
Óskað er eftir því að færa byggingarreit bílskúrs frá norðaustur horni lóðarinnar, til norðvesturs. Ekki er óskað eftir stækkun, einungis tilfærslu og einnig að aðkoma að bílskúr sé frá Tjarnarbóli, líkt og fordæmi er fyrir á lóð Tjarnarstíg 1. Núverandi byggingarreitur bílskúrs er 74m2 með aðkomu frá Tjarnarstíg. Samkvæmt tillögunni er ekki gert ráð fyrir bifreiðastæðum fyrir framan bílskúrinn.
Afgreiðsla: Hafnað, þar sem ekki er gert ráð fyrir stæði framan við bílskúrinn.
7. 2024040061 –Unnarbraut 6 - fyrirspurn um viðbyggingu
Húseigandi spyr hvort heimilað verði að byggja við húsið Unnarbraut 6. samkvæmt deiliskipulagi er heimilað að byggja hæð ofan á húsið en gert er ráð fyrir að viðbyggingin komi í stað hennar ef hún verður heimiluð. Viðbyggingin er utan byggingarreits samkvæmt gildandi deiliskipulagi
Afgreiðsla: Nefndin er jákvæð gagnvart erindinu. Umsækjandi er bent á að virða byggingarlínu og götumynd. Umsækjandi þarf að láta vinna óverulega deiliskipulagsbreytingu sem verði lögð fyrir nefndin til samþykktar.
8. 2025060121 – Miðbraut 2 - fyrirspurn um lóðarvegg
Spurt er fyrir hönd meirihluta eiganda í húsinu Miðbraut 2 hvort reisa megi 1,8 metra lóðarvegg á horni Miðbrautar og Suðurstrandar/Unnarbrautar. Bent er á að munur er á útfærslu Unnarbrautar í deiliskipulagi og þeirri útfærslu sem er í raunveruleikanum á horninu. Þannig hafi veggurinn ekki áhrif á sjónlínur skv. útfærslu deiliskipulagsins.
Afgreiðsla: Hafnað. Lóðarveggur samræmist ekki viðmiðunarreglum hvað varðar hæð veggjar að safngötum eða opnum svæðum sem er 150 cm. Bent er á að gæta skal að sjónlínum á hornum.
9. 2025060122 – Húsnæðisáætlun 2025
Húsnæðisáætlun 2025 lögð fram.
Afgreiðsla: Nefndin beinir áætluninni til bæjarstjórnar til samþykktar.
10. 2025060124 – Hraðamæling á Nesvegi 20.05.2025
Lögð fram skýrsla um hraðamælingu á Nesvegi sem var gerð 20. maí 2025.
Á tímabilinu frá kl. 10:05 til 11:05 var vöktuð umferð sem ekið var vestur Nesveg við Kolbeinstaðamýri. Þarna er 40 km hámarkshraði. Á ofangreindu tímabili vaktaði vélin 112 ökutæki og var meðalhraði þeirra 44 km/klst.
Af vöktuðum ökutækjum voru ljósmynduð 17 brot eða um 15%. Meðalhraði þeirra var 54 km/klst og hraðast ekið á 64 km/klst hraða.
Afgreiðsla: Lagt fram.
11. 2024040061 – Umferðaslys á höfuðborgarsvæðinu frá 27. apríl
Lagðar fram skýrslur um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu frá 27. apríl 2025. Ekkert umferðarslys varð á Seltjarnarnesi.
Afgreiðsla: Lagt fram.
12. 2024100151 – Fundartími næsta fundar nefndarinnar
Lögð fram tillaga um að næsti fundur nefndarinnar verði þann 24. júlí sem fellur á fimmtudag. Þetta er í samræmi við fyrri áætlun um fundi ársins.
Afgreiðsla: Samþykkt að næsti fundur verði þann 24. júlí 2025.
Fundi slitið kl. 09:50