Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

166. fundur 24. júlí 2025 kl. 08:15 - 09:50 Fundarsal á Bæjarskrifstofu Seltjarnarness

Mætt: Svana Helen Björnsdóttir sem stýrði fundi, Örn Viðar Skúlason, Karen María Jónsdóttir og Garðar Svavar Gíslason.

Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi.

Dagskrá:

1. 2025040099 – Melabraut 15, grenndarkynning - nýjar svalir og hurðir

Sótt er um að setja svalir á 2. og 3. hæð hússins Melabraut 15 og gera gönguhurð á 1. hæð á vesturhlið hússins. Jafnframt er sótt um að gera nýtt handrið á aðkomutröppur á austurhlið hússins. Samþykki allra eiganda hússins liggur fyrir. Nefndin fjallaði um fyrirspurn um málið á fundi 22. apríl 2025 en þá bókaði nefndin:

Spurt er hvort heimilað verði að gera svalir á 2. og 3. hæð hússins Melabraut 15 í samræmi við uppdrátt sem Atrium arkitektar hafa unnið. Rétt er að geta þess að byggingareglugerð gerir kröfur um svalir á íbúðum af öryggisástæðum en litið er á þær sem mikilvæga undankomuleið við bruna.

Afgreiðsla aprílfundar: Nefndin tekur jákvætt í erindið og óskar eftir uppdráttum svo hægt sé að grenndarkynna áformin í samræmi við 2. málsgrein 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna erindið í samræmi við 2. málsgrein 43.og 44. greinar skipulagslaga. nr. 123/2010. Tillagan verði grenndarkynnt með bréfi til lóðarrétthafa eftirfarandi lóða: Melabraut 13, 14, 16 og 17 og Miðbraut 16 og 18.

 

2. 2025070062 – Valhúsabraut 35 – byggingarleyfi fyrir áður útfærðum breytingum

Sótt er um byggingarleyfi fyrir áður útfærðum breytingu á húsinu Valhúsabraut 35. Fyrir allmörgum árum hafa „skotum“ á fjórum stöðum í húsinu verið lokað, meðal annars milli bílskúrs og íbúðar. Einnig hefur þakformi verið breytt lítillega til að losa regnvatn út fyrir útveggi. Við það eykst rúmmál hússins lítillega. Húsið var 291,9 fermetrar samkvæmt fasteignaskrá en verður 310,3 fermetrar.

Nýtingarhlutfall lóðar er 0,26 samkvæmt núgildandi samþykktum uppdráttum af húsinu en verður 0,28 við breytinguna. Hámarks nýtingarhlutfall lóðarinnar skv. deiliskipulagi er 0,4.

Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Byggingarfulltrúa falið að leiðrétta skráningu hússins að því tilskildu að öllum gögnum, þar á meðal þeim sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefst, hafi verið skilað.

 

3. 2024030060 – Hofgarðar 16, breyting á áður samþykktum uppdráttum

Sótt er um breytingu á áður samþykktum uppdráttum fyrir húsið Hofgarðar 16 en bygging hússins hófst nýverið. Húsið er lækkað í landi um 24 sentímetra og fært til vesturs innan byggingarreits um 35 sentímetra.

Óánægja er meðal nágranna hvað varðar umfang hússins og voru skrifleg mótmæli þeirra kynnt fyrir nefndinni á fundi hennar 16. janúar 2025. Lögmaður hefur sent byggingarfulltrúa bréf fyrir hönd mótmælanda með áskorun um að fella byggingarleyfið úr gildi. Eru breytingarnar viðleitni lóðareigandans til að koma til móts við mótmælin.

Afgreiðsla: Framlögð breyting á byggingaráformum samþykkt.

 

4. 2024040061 –Unnarbraut 6 – Óveruleg breyting á deiliskipulagi

Sótt er um að stækka byggingarreit til suðurs á lóðinni Unnarbraut 6 með óverulegi breytingu á deiliskipulagi. Byggingarreitur og fótspor hússins stækkar um 21 m2 við breytinguna. Fyrirspurn um málið fékk jákvæð afgreiðslu á júnífundi nefndarinnar. Þá var bókað:

Húseigandi spyr hvort heimilað verði að byggja við húsið Unnarbraut 6. samkvæmt deiliskipulagi er heimilað að byggja hæð ofan á húsið en gert er ráð fyrir að viðbyggingin komi í stað hennar ef hún verður heimiluð. Viðbyggingin er utan byggingarreits samkvæmt gildandi deiliskipulagi

Afgreiðsla júnífundar nefndarinnar: Nefndin er jákvæð gagnvart erindinu. Umsækjandi er bent á að virða byggingarlínu og götumynd. Umsækjandi þarf að láta vinna óverulega deiliskipulagsbreytingu sem verði lögð fyrir nefndin til samþykktar.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna erindið í samræmi við 2. málsgrein 43.og 44. greinar skipulagslaga. nr. 123/2010. Tillagan verði grenndarkynnt með bréfi til lóðarrétthafa eftirfarandi lóða: Unnarbraut 3, 4, 5 og 8. Einnig Bakkavör 3 og 5.

 

5. 2025020217 - Sæbraut 4, niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísað nýlega frá máli varðandi þaksvalir á Sæbraut 4, þar sem bæjarstjórn hafði ekki sérstaklega staðfest synjun nefndarinnar á óverulegri deiliskipulagsbreytingu.

Skipulagsnefnd synjaði eigendum Sæbrautar 4 um að gera þaksvalir á bílskúr á 153. fundi 17. júlí 2024. Óveruleg breyting á deiliskipulagi hafði verið kynnt og nágrannar mótmælt en tekið var tillit til mótmælanna.

Eigandinn kærði úrskurðinn til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en málinu var vísað frá í nefndinni þar sem niðurstaðan var að bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi ættu eftir að ljúka afgreiðslu málsins með staðfestingu bæjarstjórnar.

Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að afgreiðsla hennar á 153. fundi 17. júlí 2024 verði staðfest sérstaklega í samræmi við ábendingu úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála frá 4. júlí 2025.

 

6. 2025060117 – Hleðslulausnir rafbíla í bænum

Skipulagsfulltrúi ásamt formanni nefndarinnar hafa að undanförnu skoðað hvaða möguleikar liggja fyrir varðandi hleðslulausnir fyrir rafbílaeigendur. Í fylgiskjali má sjá kort af bænum þar sem æskilegar staðsetningar hleðslustæða koma fram.

Orka náttúrrunnar hefur boðist til að setja upp hleðslustæði á fjórum stöðum í bænum.

Í boði er að ON geri stæði við bæjarskrifstofurnar við Austurströnd, sundlaugina við Suðurströnd, tónlistarskólann við Skólabraut og sambýlið á Kirkjubraut bænum að kostnaðarlausu.

Afgreiðsla: Skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram.

 

7. 2025040112 – Staða verkefna umhverfissviðs og eignasjóðs

Lagður fram uppfærður listi yfir verkefni umhverfissviðs og eignasjóðs Seltjarnarnesbæjar. Þar kemur fram forgangsröðun og staða verkefna innan sviðsins.

Afgreiðsla: Lagt fram til kynningar og nánari skoðunar.

 

8. 2024040061 – Umferðaslys á höfuðborgarsvæðinu frá 1. júní

Lagðar fram skýrslur um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu frá 1. júní 2025. Ekkert umferðarslys varð á Seltjarnarnesi.

Afgreiðsla: Lagt fram.

 

9. 2024100151 – Fundartími næsta fundar nefndarinnar

Lögð fram tillaga um að næsti fundur nefndarinnar verði þann 21. ágúst sem fellur á fimmtudag. Þetta er í samræmi við fyrri áætlun um fundi ársins.

Afgreiðsla: Samþykkt að næsti fundur verði þann 21. ágúst 2025.

 

Fundi slitið kl. 09:50

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?