Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

169. fundur 16. október 2025 kl. 08:15 - 10:05 fundarsal bæjarstjórnar að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi

Mætt:  Svana Helen Björnsdóttir sem stýrði fundi, Dagbjört Oddsdóttir, Örn Viðar Skúlason, Karen María Jónsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson. 

Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi.

Dagskrá:

1. 2025100078 – Betri samgöngur - kynning á hjólastíg á Nesvegi

Katrín Halldórsdóttir og Þóra Kjarval frá Betri samgöngum og Hannibal Guðmundsson frá verkfræðistofu Bjarna Viðarssonar mættu á fundinn undir þessum dagskrárlið. Þau kynntu forhönnun á hjólreiðastíg sem nær frá Hofsvallagötu að Suðurströnd og tengist strandstígnum meðfram Norðurströnd. Verði af verkefninu sem þarf að samþykkja það bæði í borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Seltjarnarness þar sem stígurinn er innan beggja sveitarfélaganna.

Gera þarf viðeigandi breytingar þarf nokkrum deiliskipulögum á svæðinu í tengslum við stígagerðina.

Afgreiðsla: Lagt fram til kynningar.

Katrín Halldórsdóttir, Þóra Kjarval og Hannibal Guðmundsson yfirgáfu fundinn.

2. 2022100084 – Vallarbraut 3 - byggingarleyfi bílskúr

Sótt er um byggingarleyfi fyrir nýjum bílskúr við Vallarbraut 3. Einungis er sótt um leyfi fyrir öðrum bílskúrnum sem heimild er fyrir á lóðinni en þar er tveggja íbúðahús fyrir og byggingarreitur í skipulagi sem gerir ráð fyrir tveim bílskúrum. Bískúrinn sem sótt er um að byggja mun tilheyra íbúð 0201 á annarri hæð.

Rétt er að geta þess að samþykki eiganda hins eignarhlutans á lóðinni, íbúðar 0101 liggur ekki fyrir. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu frá 2013 eiga báðar íbúðirnar í húsinu rétt á því að byggja bílskúr og eigandinn sem nú sækir um vill nýta þann rétt sinn.

Byggingarmagn verður 0,4 sem er innan leyfilegs hámarks nýtingarhlutfalls sem er 0,43 samkvæmt deiliskipulaginu frá 2009 og það sýnir byggingarreit þar sem bílskúrinn verður.

Afgreiðsla: Frestað.

3. 2025040112 – Staða verkefna umhverfissviðs og eignasjóðs

Lagður fram uppfærður listi yfir verkefni umhverfissviðs og eignasjóðs Seltjarnarnesbæjar. Þar kemur fram forgangsröðun og staða verkefna innan sviðsins.

Afgreiðsla: Lagt fram til kynningar og nánari skoðunar.

4. 2025100079 - Upplýsingar frá Náttúruhamfaratryggingum Íslands.

Lagt er fram bréf frá Náttúruhamfaratryggingum Íslands sem sent var allra sveitarfélaga á Íslandi. Í bréfinu er bent á lagalega stöðu og ábyrgð sveitarfélaga varðandi takmarkanir á vátryggingarvernd og bótarétti skv. 16. grein laga nr. 55/1992 þegar byggt er á svæðum með fyrir fram þekkta náttúruvá, einkum vegna vatns- og sjávarflóða.

Afgreiðsla: Lagt fram.

5. 2025100080 – Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum

Lagt er fram frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum sem sveitarfélaginu barst eftir að boðað var til síðasta fundar. Frumvarið fjallar um breytingu vegna svæðisskipulags, auk þess sem sveitarfélagið Álftanes er fellt út úr upptalningu á sveitarfélögum af augljósri ástæðu.

Í kynningu á frumvarpinu kemur eftirfarandi fram:

„Í 2. mgr. 22. gr. er að finna sérákvæði um svæðisskipulag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en þar er kveðið á um þá skyldu þeirra að gera með sér svæðisskipulag, ólíkt því sem gildir um önnur sveitarfélög. Af því leiðir að sú staða getur og hefur komið upp að eitt sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu getur bundið hendur allra hinna sem vilja gera breytingar á gildandi svæðisskipulagi, sem þeim er öllum skylt að eiga aðild að hvort sem það hugnast þeim eður ei. Svæðisskipulag tekur eðli máls samkvæmt til ákveðins tímabils sem telur jafnvel áratugi og er byggt á tilteknum forsendum hverju sinni. Þær forsendur geta hins vegar hæglega brostið og verða sveitarfélög að eiga raunhæfa möguleika á því að uppfæra svæðisskipulag sitt í samræmi við breyttar forsendur. Þegar svo ber við er eðlilegast að aukinn meiri hluti ráði, þ.e. að a.m.k. fimm af sjö sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu geti kallað fram endurskoðun á svæðisskipulaginu fremur en að eitt sveitarfélag geti þvingað öll hin til þess að lúta áfram skipulagi sem er í andstöðu við framtíðarsýn þeirra. Í frumvarpinu er því lagt 2 til að við breytingar á lögbundnu svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sé nóg að fyrir liggi samþykki aukins meiri hluta þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að skipulaginu.“

Skipulagsfulltrúi gerði ekki athugasemd við frumvarpið.

Afgreiðsla: lagt fram.

6. 2025100013 - Ábending um hraðakstur við Lindarbraut og hraðamæling í framhaldinu

Lögreglan fékk nýverið ábendingu frá íbúa um hraðakstur á Lindarbraut. Lögreglan brást við með því að mæla hraða á Lindarbraut miðvikudaginn 1. október milli kl 14:20 - 15:20 með myndavélabíl.

Niðurstaðan var eftirfarandi:

Á tímabilinu frá kl. 14:20 til 15:20 þann 01/10/25 var vöktuð umferð með hraðamyndavél sem ekið var suður Lindarbraut við hús nr. 23.

Þarna er 40 km hámarkshraði. Á ofangreindu tímabili vaktaði vélin 54 ökutæki og var meðalhraði þeirra 35 km. Af vöktuðum ökutækjum voru ljósmynduð 1 brot eða um 2%.

Ók viðkomandi á 51 km hraða á klst.

Í svari segir lögreglan segir þetta um niðurstöðuna:

„Í ljósi mælingunnar er ekki hægt að segja að meðalhraði sé hár á Lindarbraut (meðalhraði 35 km/klst). Við munum halda áfram að fylgjast með hraðakstri á Seltjarnarnesi líkt og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu….“

Afgreiðsla: Lagt fram.

7. 2024060035 – Umferðaröryggi á Norðurströnd

Lögð fram tillaga um að hafist verði handa við hönnun og útfærslu umferðareyju á Norðurströnd sem þolir umferð snjóruðningstækja, strætisvagna og slökkvibifreiða. Leita skal umsagna strætó og slökkviliðs á lausn og staðsetningu umferðareyja. Byrjað verði á einni eyju við gatnamót Norðurstrandar og Barðastrandar, þar sem flest umferðaróhöpp hafa orðið skv. slysaskýrslum. Þegar umsagnir liggja fyrir verði hafist handa við framkvæmd. Skipulagsfulltrúa falið að útbúa viðauka upp á 7,5 m.kr. sem er áætlaður kostnaður við hönnun og framkvæmd vegna einnar eyju.

Afgreiðsla: Samþykkt.

8. 2024100151 – Fundartími næsta fundar nefndarinnar

Lögð fram tillaga um að næsti fundur nefndarinnar verði þann 20. nóvember sem fellur á fimmtudag. Fundartími klukkan 8:15-10:00. Þetta er í samræmi við það sem áður hefur verið ákveðið varðandi fundartíma nefndarinnar.

Afgreiðsla: Samþykkt að næsti fundur verði þann 20. nóvember 2025 kl 8:15.

Fundi slitið kl. 10:05

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?