Mætt: Svana Helen Björnsdóttir, formaður nefndarinnar sem stýrði fundi, Dagbjört Oddsdóttir, Örn Viðar Skúlason, Karen María Jónsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson.
Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi.
Dagskrá:
1. 2018090165 – Umferðarmál og aðkoma að Vestursvæði og Snoppu
Árni Geirsson mætir á fundinn og ræðir ferðamannamál, umferðarmál og aðkomu að Vestursvæði og Snoppu en Árni og fyrirtæki hans Alta vann skýrslu um ferðamál á Seltjarnarnesi árið 2021. Opnun nýs náttúrufræðisafns leiðir til fjölgunar gesta og langferðabíla og mun væntanlega auka umferð bæði gangandi og akandi um vestursvæði Seltjarness. Þörf verður á uppbyggingu og breytingu á innviðum og umferðarskipulagi vegna þessa.
Afgreiðsla: Lagt fram, kynnt og rætt.
2. 2025100013 – Ferðamálastefna og samningur Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins 2026-2028
Bæjarráð beindi úrvinnslu ferðmálastefnu til nefndarinnar nýlega. Þegar fjallað var um málið á fundi ráðsins var eftirfarandi bókað: „Rætt um ferðamálastefnu bæjarins og mögulega styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Þá eru drög að sameiginlegum samningi sveitarfélaganna og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins fyrir árin 2026 – 2028 lögð fram til samþykktar en þau voru hluti af fundargögnum sem fylgdi dagskrárlið 3 í fundargerð nr. 612 frá SSH þann 01.09.2025, Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins - 2409009. Bæjarstjórn hefur þegar samþykkt framlögð drög á bæjarstjórnarfundi þann 17.09.2025.
Bæjarráð bókaði: „Bæjarráð samþykkir framlögð drög að sameiginlegum samningi sveitarfélaganna og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins vegna áranna 2026-2028 og veitir bæjarstjóra fullt umboð til undirritunar þeirra. Bæjarráð samþykkir ennfremur að láta klára vinnu við ferðamálastefnu bæjarins og vísar málinu áfram til úrvinnslu í skipulags- og umferðarnefnd.“
Afgreiðsla: Nefndin fór yfir samningsdrög sveitarfélaganna og Markaðsstofunnar. Engar athugasemdir voru gerðar við samninginn og mun nefndin vinna úr málefnum samningsins eins og þörf krefur og við á. Nefndin beinir því til bæjarstjóra að unnin verði drög að ferðamálastefnu Seltjarnarness og óskar eftir að hún verði lögð fyrir nefndina á febrúarfundi 2026.
3. 2025100266 – Fyrirspurn um heimild fyrir hleðslustöð í almennu bílastæði í götu
Íbúðareigandi spyr hvort hann megi setja upp hleðslustæði við Lindarbraut í almennu bílastæði við götuna. Hann er eigandi íbúðar á jarðahæð og hefur ekki rétt til að leggja innan lóðar en þar eru tvö bifreiðastæði sem tilheyra öðrum íbúðum í húsinu samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu hússins.
Afgreiðsla: Hafnað. Umsækjanda er bent á þann möguleika að húsfélagið staðsetji stæði og hleðslustöð innan sinnar lóðar.
4. 2025110060 – Selbraut 7 – fyrirspurn um þakskegg
Húseigendur spyrja hvort nefndin líti svo á að fyrirhugaðar breytingar á húsi þeirra við Selbraut 7 samræmist deiliskipulagi. Anddyri er stækkað þannig að það loki skoti sem verið hefur á húsinu og þakskeggið er stækkað út fyrir byggingarreit. Það má geta þess að þakskegg hússins nær nú þegar út fyrir byggingarreit á nokkrum stöðum. Í greinargerð með deiliskipulagi hverfisins, neðarlega á bls. 5, kemur eftirfarandi fram: „Einstaka minniháttar byggingarhlutar s.s. þakskegg, skyggni og gluggafrágangur mega þó skaga út fyrir byggingarreit.“.
Afgreiðsla: Nefndin telur að fyrirhugaðar breytingar samræmist gildandi deiliskipulagi. Fyrirspyrjendum er bent á að leggja fram byggingarleyfisumsókn.
5. 2025100079 – Steinavör 8 – óveruleg breyting á deiliskipulagi.
Óskað er eftir óverulegri breytingu á deiliskipulagi Melhúsatúns fyrir lóðina Steinavör 8. Um er að ræða tilfærslu á bílastæði og aukið byggingarmagn á lóðinni en nefndin tók jákvætt í fyrirspurn um málið á fundi sínum í mars á þessu ári. Þá var bókað: „Spurt er hvort heimilað verði að lóðareigandi láti gera deiliskipulagsbreytingu sem eykur byggingarmagn á lóðinni að Steinavör 8, úr nýtingarhlutfalli 0,4 samkvæmt núgildandi deiliskipulagi og upp í 0,48. Um er að ræða 20 % hækkun nýtingarhlutfalls.
Afgreiðsla nefndarinnar í mars: „Samþykkt. Lóðarhafi þarf að láta vinna óverulega deiliskipulagsbreytingu á sinn kostnað.“
Nú er lögð fram tillaga að deiliskipulagsbreytingu í samræmi við þetta. Einnig er óskað eftir að hækka hámarks hæðarkóta hússins en í deiliskipulaginu er hámarks „húshæð er 5,0 m og er gefin upp sem hámarkshæð byggingar yfir aðkomukóta“. Samkvæmt tillögunni er þessi hæð hækkuð um 20% í 5,8 m til að auðvelda frágang vegna flóðahættu við sjávarflóð.
Afgreiðsla: Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 2. málsgrein 43.og 44. greinar skipulagslaga. nr. 123/2010. Tillagan verði grenndarkynnt með bréfi til lóðarrétthafa eftirfarandi lóða: Steinavör 3, 4, 6, 10 og 12.
6. 2022100084 – Vallarbraut 3 – byggingarleyfi bílskúr
Sótt er um byggingarleyfi fyrir nýjum bílskúr við Vallarbraut 3. Einungis er sótt um leyfi fyrir öðrum bílskúrnum sem heimild er fyrir á lóðinni en þar er tveggja íbúða hús fyrir og byggingarreitur í skipulagi sem gerir ráð fyrir tveimur sambyggðum bílskúrum. Bílskúrinn sem sótt er um að byggja mun tilheyra íbúð 0201 á annarri hæð. Á síðasta fundi nefndarinnar var málinu frestað. Sveitarfélaginu hefur borist bréf frá þeim eiganda hússins sem ekki sækir um og þar kemur fram að hann er alfarið á móti framkvæmdinni.
Það er mat umsækjandans að samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu hússins frá 2013 eigi báðar íbúðirnar í húsinu rétt á því að byggja bílskúr og vill umsækjandinn nýta þann rétt sinn.
Byggingarmagn verður 0,4 sem er innan leyfilegs hámarks nýtingarhlutfalls sem er 0,43 samkvæmt deiliskipulaginu frá 2009 en það sýnir byggingarreit þar sem bílskúrinn verður.
Afgreiðsla: Frestað. Nefndin beinir því til sviðsstjóra að óska eftir viðbrögðum umsækjanda við ný framkomnum gögnum.
7. 2025040112 – Staða verkefna umhverfissviðs og eignasjóðs
Lagður fram uppfærður listi yfir verkefni umhverfissviðs og eignasjóðs Seltjarnarnesbæjar. Þar kemur fram forgangsröðun og staða verkefna innan sviðsins. Fyrir liggur samþykkt bæjarráðs á viðauka vegna úrbóta vegna 1. áfanga breytinga á Norðurströnd vegna umferðaröryggis sem nú er hægt að ráðast í. Einnig er mörgum verkefnum sem hafa verið í gangi í sumar og haust lokið. Þar má nefna tiltekt í Félagsheimili Seltjarnarness, ný gangbraut á skólaleið í Valhúsaskóla, breyting á kjallara kirkjunnar vegna ungbarnadeildar, miklar endurbætur sem hafa verið gerðar á skólalóð Mýrarhúsaskóla og að göngustígurinn meðfram Norðurströnd hefur verið lagfærður.
Afgreiðsla: Lagt fram til kynningar og nánari skoðunar. Nefndin felur skipulagsfulltrúa að koma verkefnayfirliti nefndarinnar til birtingar á heimasíðu bæjarins, þ.m.t. yfirliti um verkefni sem lokið er, verkefni sem eru í vinnslu og önnur verkefni sem eru á döfinni og hefur verið forgangsraðað miðað við núgildandi forsendur. Birtar verði upplýsingar um áætlaðan kostnað og raunkostnað allra þessara verkefna eins og við á.
8. Umferðaslys á höfuðborgarsvæðinu frá 28. september
Lagðar fram skýrslur um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu frá 28. september 2025. Ekkert umferðarslys varð á Seltjarnarnesi.
Afgreiðsla: Lagt fram.
9. 2024100151 – Fundartími næsta fundar nefndarinnar
Lögð fram tillaga um að næsti fundur nefndarinnar verði þann 18. desember 2025 sem fellur á fimmtudag. Fundartími klukkan 8:15-10:00. Þetta er í samræmi við það sem áður hefur verið ákveðið varðandi fundartíma nefndarinnar.
Afgreiðsla: Samþykkt að næsti fundur verði þann 18. desember 2025, kl 8:15.
Fundi slitið kl. 09:23