Mættir: Inga Hersteinsdóttir, Ingimar Sigurðsson, Þórður Ó. Búason, Gunnar Örn Gunnarsson, Stefán Bergmann og Einar Norðfjörð byggingafulltrúi. Auk þess sat Hlín Sverrisdóttir fundinn.
Fundargerð ritaði Ingimar Sigurðsson.
Dagskrá:
1. Fundur settur
2. Deiliskipulag Hrólfsskálamels og Suðurstrandar. Niðurstaða atkvæðagreiðslu og næstu skref.
3. Umsókn frá Sigmari Guðbjörnssyni og Jóhönnu Ástvaldsdóttur um byggingu garðstofu við húsið að Látraströnd 11. Niðurstaða grenndarkynningar.
4. Erindi frá Gunnari Birgissyni bæjarstjóra í Kópavogi varðandi breytingu á svæðisskipulagi.
5. Erindi frá Magnúsi Margeirssyni Nesbala 1 varðandi göngustíg milli Nesbala og Sævargarða.
6. Tekin fyrir að nýju niðurstaða grenndarkynningar um byggingu 4ra íbúða húss að Melabraut 27 frá síðasta fundi. Á fundinn mætir Valdís Bjarnadóttir arkitekt.
7. Tekin fyrir tillaga Neslistans um samráðsferli í skipulagsmálum sem vísað var til nefndarinnar á 617. fundi bæjarstjórnar.
8. Tekin fyrir að nýju umsókn frá Kára Jónssyni, Melabraut 2 um lokun svala á húsinu að Melabraut 2.
9. Önnur mál
10. Fundi slitið
1. Fundur settur af formanni kl. 08:05
2. Niðurstöður atkvæðagreiðslu þeirrar sem skipulags- og mannvirkjanefnd stóð fyrir um tvo kosti varðandi staðsetningu gervigrasvallar, byggingarmagn og fyrirkomulag liggja nú fyrir. 1.727 greiddu atkvæði eða 52% atkvæðisbærra manna á Seltjarnarnesi.
Niðurstöður urðu þær að tillag S um staðsetningu gervigrasvallar á Suðurströnd og íbúðabyggð á Hrólfsskálamel hlaut 944 atkvæði og tillaga H um staðsetningu gervigrasvallar á Hrólfsskálamel og íbúðabyggð á Suðurströnd og Hrólfsskálamel hlaut 768 atkvæði. Gervigrasvelli verður því komið upp á Suðurströnd, þar sem núverandi malarvöllur er og íbúðabyggð verður skipulögð á Hrólfsskálamel. Niðurstöður kosningarinnar eru bindandi fyrir nefndina og bæjarstjórn. Í ljósi þessarar niðurstöðu leggur skipulags- og mannvirkjanefnd til við bæjarstjórn að tillaga að aðalskipulagi, sem auglýst var 23. júlí 2004 og tillaga að deiliskipulagi, sem auglýst var 30. júlí 2004 verði dregnar til baka.
Skipulags- og mannvirkjanefnd þakkar ráðgjöfum Alta fyrir að leiða málið farsællega til lykta. Nefndin þakkar einnig rýnihópnum fyrir fórnfúst starf og ráðgjöfum Horsteina og VSÓ fyrir dygga aðstoð.
Hlín Sverrisdóttir gerði grein fyrir mögulegum leiðum varðandi aðalskipulag Seltjarnarness, með hliðsjón af niðurstöðu kosningarinnar. Hlín falið að fá formlegt svar frá Skipulagsstofnun hvort gervigrasvöllur á Suðurströnd kalli á aðalskipulagsbreytingu. Þá var Hlín einnig falið að leggja fram tímaramma fyrir þá þrjá kosti sem koma til greina. Hlín vék af fundi.
3. Lögð fram niðurstaða grenndarkynningar vegna umsóknar frá Sigmari Guðbjörnssyni og Jóhönnu Ástvaldsdóttur um byggingu garðstofu við Látraströnd 11. Skipulagsnefnd getur fyrir sitt leyti fallist á að þak sólstofu fari allt að 60 cm yfir þakbrún hússins. Umsóknin samþykkt að öðru leyti og byggingafulltrúa falið að afgreiða málið í samræmi við umræður á fundinum.
6. Valdís Bjarnadóttir arkitekt var nú mætt á fundinn. Umsókn um byggingarleyfi fyrir húsið Melabraut 27 hefur verið dregin til baka, þar til samþykkt deiliskipulag vesturhverfis liggur fyrir. Stefnt er að kynningarfundi með íbúum hverfisins í Bókasafni Seltjarnarness, síðari hluta ágúst mánaðar. Valdís vék af fundi.
4. Lagt fram erindi frá Gunnari Birgissyni bæjarstjóra í Kópavogi varðandi breytingu á svæðisskipulagi. Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemdir við erindi Kópavogsbæjar.
5. Lagt fram erindi frá Magnúsi Margeirssyni Nesbala 1 varðandi göngustíg milli Nesbala og Sævargarða. Byggingafulltrúa falið að kanna með úrlausn.
7. Tekin fyrir tillaga Neslistans um samráðsferli í skipulagsmálum, sem vísað var til nefndarinnar á 617. fundi bæjarstjórnar. Nefndin er í grundvallaratriðum sammála um að halda áfram formlegu samráðsferli við íbúa en telur að móta þurfi tillöguna betur. Frestað til næsta fundar.
8. Tekin fyrir að nýju umsókn Kára Jónssonar, Melabraut 2, um lokun svala hússins að Melabraut 2. Fyrir liggur samþykki meðeigenda. Erindið samþykkt.
9. Önnur mál.
a. Tekin fyrir að nýju umsókn eigenda Selbrautar 20 til 30 um sólstofur á 2. hæð húsanna. Engar athugasemdir bárust úr grenndarkynningu og erindið því samþykkt.
10. Fundargerð upplesin og samþykkt, fleira ekki fyrir tekið og fundi slitið kl. 10:10
Inga Hersteinsdóttir (sign)
Ingimar Sigurðsson (sign)
Þórður Ó. Búason (sign)
Gunnar Örn Gunnarsson (sign)
Stefán Bergmann (sign)