Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

04. júní 2010

Fundargerð 146. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar 4. júní 2010, kl. 8:00 að Austurströnd 1.

Mættir: Ólafur Egilsson formaður, Þórður Ó. Búason, Stefán Bergmann, Erna Gísladóttir og Friðrik Friðriksson. Einnig sátu fundinn Stefán Eiríkur Stefánsson bæjarverkfræðingur, starfandi skipulagsstjóri, og Örn Þór Halldórsson. Ólafur Melsteð var forfallaður.

Ragnhildur Ingólfsdóttir stýrihópsfulltrúi og Valdís Bjarnardóttir skipulagsráðgjafi tóku þátt í afgreiðslu deiliskipulags Bakkahverfis .

Fundargerð ritaði Stefán Eiríkur Stefánsson

Fundur settur af formanni kl. 08:15

Þetta gerðist:

1. Skipulagsmál:

  1. Deiliskipulag Bakkahverfis (2008110018). Gerð var grein fyrir nýjustu breytingum á uppdrætti og drögum svara við athugasemdum. Skipulagsráðgjafa falið að ganga frá lokabreytingum á uppdrætti og svörum í samræmi við umræður og niðurstöður nefndarinnar. Deiliskipulagið, ásamt svörunum, samþykkt með 4 atkvæðum til afgreiðslu bæjarstjórnar, af hálfu Stefáns Bergmann með fyrirvörum varðandi Unnarbraut 19, Valhúsabraut 19 og Melabraut 20, sbr. bókun undirritaða af honum og Ragnhildi Ingólfsdóttur (sjá fylgiskjal 1). Erna Gísladóttir sat hjá.

  2. Vallarbraut 24 (2010010095) – breyting á deiliskipulagi – niðurstaða grenndarkynningar. Engar athugasemdir bárust. Samþykkt.

2. Byggingamál:

  1. Bygggarðar 8a (2010060006) – niðurstaða grenndarkynningar. Ein athugasemd barst frá Þyrpingu ehf. Nýr aðaluppdráttur fyrir borholuhús og stýringar hitaveitu lagður fram og samþykktur til grenndarkynningar.

  2. Lyfjagrasagarður við Nesstofu ( 2010060007) – umsókn um byggingarleyfi. Útgáfa leyfis samþykkt enda verði höfð samráð við umhverfisnefnd um framkvæmdina.

3. Önnur mál:

  1. Eiðistorg 13-15 (2010040008) – Rauða ljónið. Lagt fram til kynningar bréf tæknisviðs til veitingarleyfishafa um úrbætur varðandi eldvarnir og frágang flóttaleiðar í framhaldi af kvörtun íbúa.

  2. Nesvegur 107 (2010030045) - sjóvarnir / ath.s. v/girðingar-mannvirkja á lóðamörkum. Lagt fram til kynningar bréf tæknisviðs til lóðareiganda þar sem ítrekað er að sjóvarnargarður verði færður í viðunandi horf og óleyfileg mannvirki fjarlægð. Nefndin áréttar málið og ennfremur að frágangur stígs við lóðina verði með þeim hætti að mörk stígs og lóðar séu ljós.

  3. Suðurströnd-húsnúmer. Lögð fram tillaga að númeringu húsa við Suðurströnd (sjá fylgiskjal 2). Samþykkt.

  4. Götuheiti. Samþykkt með 4:1 (Erna Gísladóttir á móti) að leggja til við bæjarstjórn að gatan Norðurströnd verði framvegis látin heita Gróttubraut til að undirstrika mikilvægi helsta kennileitis bæjarins.

Þetta var síðasti fundur skipulags- og mannvirkjanefndar á kjörtímabilinu. Formaður vék að nokkrum helstu málum sem nefndin hefur unnið að og mikilvægum áföngum sem náðst hafa. Lét hann í ljós ánægju með gott samstarf og færði nefndarmönnum og starfsmönnum tækni- og umhverfissviðs bæjarins bestu þakkir. Stefán Bergmann þakkaði formanni af hálfu nefndarmanna.

Fundi slitið kl. 10:00

Ólafur Egilsson (sign.), Þórður Ó. Búason (sign.), Stefán Bergmann (sign.), Erna Gísladóttir (sign.), Friðrik Friðriksson (sign.).

 

Fylgiskjal 1 með 146. fundargerð skipulags- og mannvirkjanefndar 4. júní 2010.

Bókun Stefáns Bergmann og Ragnhildar Ingólfsdóttur (dagskrárliður 1a.)

Bókun Neslistans vegna svara við athugasemdum vegna Unnarbrautar 19 og Valhúsabrautar 19/Melabrautar 20 í Bakkahverfi:

Neslistinn lét afstöðu sína koma fram með bókun í bæjarstjórn Seltjarnarness 23.09.09:
„Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn geta ekki samþykkt fyrirliggjandi deiliskipulag Bakkahverfis til auglýsingar. Lausnir sem lagt er til við Unnarbraut eru ekki góðar. Það orkar einnig tvímælis að gefa ekki ákveðna forsögn með aðkomu að lóð eins og gert er við nýbyggingar við Valhúsabraut 19 og Melabraut 20.“

Þessi afstaða er áréttuð hér og jafnframt tekið skýrt fram að svör við mótmælum við tillögu að auglýstu deiliskipulagi Bakkahverfis ganga ekki nógu langt í bæta aðstöðu mála gagnvart íbúum hverfisins hvað varðar þær þrjár lóðir sem hér um ræðir. Við getum því ekki samþykkt svörin sem varða þær.

Mikilvægt er að bera virðingu fyrir núverandi íbúum og gera sér grein fyrir þeim væntingum þeirra. Þó er rétt að árétta að útsýni er ekki „keypt“ í bæ eða borg en mikilvægt er að hafa hagsmuni allra aðila að leiðarljósi þegar skipulagt er. Réttur einstaklinga skal ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Skýringar vegna Unnarbr.19:

Stærð lóðar er 971 fm og byggingarmagn á henni 320,2 fm. Nýtingarhlutfallið er því 0,33. Byggingarreiturinn miðast við núverandi hús.

Samþykkt um breytta nýtingu á þessari lóð var kærð til Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi byggingarleyfi úr gildi vegna verulegra grenndaráhrifa og vöntunar á deiliskipulagi. sbr. úrskurð dags. 28. feb. 2008 (mál 164/2007begin_of_the_skype_highlighting              164/2007      end_of_the_skype_highlighting Unnarbraut) “Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 8. nóvember 2007, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar hinn 14. nóvember 2007, um að veita leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni nr. 19 við Unnarbraut.“

Mótmælin vegna síðari tillagna að deiliskipulagi að Unnarbrautar 19 ganga út á það að fólk missir ákveðið andrými, þar sem nýr byggingarreitur er lengri en núverandi bygging og við bætist 64 fm bílskúr við lóðarmörk húsanna nr. 17 og 19 við Unnarbraut með tengibyggingu milli húss og bílskúrs og langri hallandi innkeyrslu sem verður til við það á lóðinni.

Eftir breytingar nú sem fram koma í svörum við mótmælum verður stærð lóðar sú sama, viðbótar byggingarmagn um 126,5 fm, byggingarmagn alls 446,7 fm. og nýtingarhlutfall 0,46.

Fordæmi eru fyrir því að bílskúrar séu á lóðarmörkum í hverfinu en það er ekki algilt. Þetta fyrirkomulag er afar óheppilegt á þessum stað þó svo að fordæmi séu fyrir slíku. Svo háttar til að húsið er í grónu hverfi og íbúar hafa gert sér ákveðnar væntingar til nærumhverfis síns.

Tillögur um aðrar leiðir:

Við teljum að vinna hefði mátt útfrá eftirfarandi forsendum til að finna lausn á málum:

1. Miða við að nýtingarhlutfallið yrði 0,4 eins og var í auglýstri tillögu að deiliskipulagi og byggingarreiturinn færður aftur um 3 m samsvarandi núverandi húsi. Þá væri hægt að byggja a.m.k . 390 fm hús og jafnræðis gætt og ekki traðkað á hagsmunum nágranna.

2. Stærð byggingarreits yrði 18,5 x 11 = 203,5 fm x 2 = 407 fm. Nýtingarhl. 0,42 . Með því yrði jafnræðis gætt og lífsgæði nágranna ekki skert.

Segja má að það sé gamaldags skipulag að skipuleggja hús með bílskúr lengst inn í lóð og að lóðamörkum annarra lóða, þar sem innkeyrslur að bílskúrum verða afar langar og mótandi í umhverfinu. Í Bakkahverfinu og því miður eru dæmi um slíkar innkeyrslur. Því má segja að eðlilegra væri að gera ráð fyrir að hafa bílskúr á nýbyggingarlóð innbyggðan eða sambyggðan húsinu með aðkomu frá Unnarbraut.

Skýringar vegna Valhúsabrautar 19/ Melabrautar 20:

Með tillögu að deiliskipulagi og svara vegna athugasemda sem bárust við auglýstri tillögu, er fyrst og fremst verið að koma til móts við eigendur lóðanna nr. 20 við Melabraut og nr. 19 við Valhúsabraut . Síðustu hugmyndir um stöllun húsanna getur þó verið til bóta til að koma til móts við íbúana.

Augljóst að verið er að troða of mörgum íbúðum og of miklu byggingarmagni á lóðirnar þegar nauðsynlegt reynist að leyfa innkeyrslur inn á lóð frá tveimur götum. Gagnvart gangandi vegfarendum, sérstaklega börnum, er neikvætt þegar innkeyrslur inn á eina lóð eru frá tveimur stöðum. Bíllinn er tekinn fram fyrir börnin. Einnig má benda á að með því að samþykkja fleiri bílastæði á lóð fækkar almenningsbílastæðum í götu og lýtir umhverfið

Aðrir möguleikar:

Við leggjum áherslu á eftirfarandi:

Ekki skal skapa vond fordæmi með of miklu byggingarmagni. Minnka ætti því byggingarmagnið og samþykkja færri íbúðir á lóðunum, eða hafa færri bílastæði á íbúð og/eða bílakjallara. Einnig er nauðsynlegt að afmarka bílastæðin á uppdrætti.

Ragnhildur Ingólfsdóttir Stefán Bergmann

 

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?