Fara í efni

Skólanefnd

325. fundur 29. mars 2023

325. (148) fundur skólanefndar var haldinn miðvikudaginn 29. mars 2023, kl. 08:15 í sal bæjarstjórnar Seltjarnarness.

Mættir voru: Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir, Grétar Dór Sigurðsson, Karen María Jónsdóttir, Eva Rún Guðmundsdóttir, Margrét Gísladóttir, leikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness, Áslaug Jóhannsdóttir, fulltrúi starfsmanna Leikskóla Seltjarnarness, Kristjana Hrafnsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Seltjarnarness, Harpa Frímannsdóttir, fulltrúi kennara Grunnskóla Seltjarnarness, Skúli Eiríksson, fulltrúi foreldra við Grunnskóla Seltjarnarness og Baldur Pálsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs.

Gestir fundarins undir 4. dagskrárlið: Fanný S. Axelsdóttir mannauðs- og samskiptastjóri og Jón Axelsson framkvæmdastjóri hjá Skólamat ehf.

Fundi stýrði: Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir

Fundargerð ritaði: Baldur Pálsson

Dagskrá fundar:

1. 2023030176 - Inntaka barna í leikskóla á Seltjarnarnesi skólaárið 2023-2024 
Sviðsstjóri fjölskyldusviðs og leikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness gerðu grein fyrir horfum varðandi inntöku barna haustið 2023.

2. 2023010251 - Sumarlokun í Leikskóla Seltjarnarness 2023
Skólanefnd staðfestir fjögra vikna sumarlokun Leikskóla Seltjarnarness.

Margrét Gísladóttir og Áslaug Jóhannsdóttir viku af fundi og Kristjana Hrafnsdóttir, Harpa Frímannsdóttir og Skúli Eiríksson komu til fundar kl. 8:45.

3. 2023030174 - Úthlutun til Grunnskóla Seltjarnarness skólaárið 2023-2024
Sviðsstjóri fjölskyldusviðs gerði grein fyrir úthlutun til Grunnskóla Seltjarnarness fyrir skólaárið 2023-2024.
Skólanefnd samþykkir tillögu að úthlutun til Grunnskóla Seltjarnarness fyrir skólaárið 2023- 2024 með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.

Bókun fulltrúa Samfylkingar og óháðra:
Tilefni er til þess að endurskoða úthlutunarlíkan grunnskólans og reikniforsendur þess með það fyrir augum að efla nám og kennslu enn frekar. Líta má meðal annars til LOI stuðulsins (Learning Opportunity Index), sem víða er innbyggður í úthlutunarmótdel en hann tekur tillit til ýmissa félagslegra þátta og breytna í skólastarfinu. Fjármagninu sem úthlutað er til skóla er þannig beitt til að aðlaga skólastarfið að félagslegum breytileika, þannig að hægt sé að mæta að fullu þörfum nemendahópsins fyrir aukin tækifæri til náms.
Eva Rún Guðmundsdóttir og Karen María Jónsdóttir

 

Fanný S. Axelsdóttir og Jón Axelsson frá Skólamat komu til fundar kl. 9:15.


4.  2023010348 - Erindi frá foreldrafélagi Grunnskóla Seltjarnarness vegna skólamáltíða
Skólanefnd þakkar foreldrafélaginu fyrir erindið og hvetur til frekara samtals um skólamáltíðir.
Fanný og Jón gerðu grein fyrir þjónustu sem Skólamatur ehf. hefur upp á að bjóða.

Bókun Samfylkingar og óháðra:
Minnihlutinn tekur undir málflutning foreldrafélagsins. Taka þarf upp samninginn við Skólamat og endurskoða einstaka ákvæði hans, standi til að framlengja samninginn eins og heimild er til. Leggja þarf áherslu á gæðaeftirlit, sem ekki eru tilgreind í núverandi samningi að innra eftirliti fyrirtækisins sjálfs undanskildu. Mikilvægt er að setja skýrari ákvæði um gæðaeftirlit s.s. að þjónustukönnun sé framkvæmd með reglubundnum hætti meðal nemenda enda eru þeir hinn raunverulegi notandi þjónustunnar, en foreldrar kaupandi hennar. Einnig þarf í útboðsgögnun undir val á tilboði, ekki aðeins að tilgreina tæknilegar forsendur sem þarf að uppfylla heldur einnig gæði og hvað það þýðir. Verð/gæði ratio þarf að vera til staðar sem er ekki er tilfellið í dag, til að hægt sé að gera kröfur til gæða á samningstímabilinu og viðhalda virkt gæðaeftirliti. Einnig verður að taka og fylgja nýrri tilskipun Evrópusambandsins um sjálfbærni og græn opinber útboð sem taka sérstaklega á mat.
Eva Rún Guðmundsdóttir og Karen María Jónsdóttir.

 

Bókun fulltrúa Sjáfstæðisflokks:
Fulltrúar meirihluta Skólanefndar þakka fyrir erindið. Við höfum kynnt okkur málið, m.a. með viðtölum við fyrirsvarsmenn Skólamatar, sviðsstjóra og skólastjórnendur. Við teljum mikilvægt að tilhögun á rekstri mötuneyta í skólum bæjarins sé stöðugt til skoðunar á grundvelli málefnalegrar gagnrýni. Einn liður í því er að viðsemjandi bæjarins fái tækifæri til að bregðast við gagnrýni og eftir atvikum ráðast í viðeigandi úrbætur á þjónustu. Við tökum undir með foreldrafélaginu að ákvarðanir sem málið varða verði teknar í samráði við nemendur eftir því sem frekast er unnt en slíkt samráð verður þó að byggjast á gagnreyndum aðferðum. Þá verður að gera þann fyrirvara að sviðsstjórar, skólastjórnendur og kennarar hljóta að vera betur til þess fallnir að meta þætti eins og þjónustustig, getu til að bregðast við óvæntum aðstæðum, hagkvæmni, matarsóun, fjölbreytni o.s.frv.
Við erum tilbúin til að taka frekara samtal við foreldrafélagið um frekari könnun á tilhögun skólamáltíða ef eftir því er óskað.
Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir, Grétar Dór Sigurðsson

 

Kristjana Hrafnsdóttir, Harpa Frímannsdóttir og Skúli Eiríksson viku af fundi kl. 10:20

 

5. 2019010209 - Endurskoðun skólastefnu Seltjarnarnesbæjar 
Sviðsstjóri gerði grein fyrir sögu, stöðu og framgangi verkefnisins.

Bókun fulltrúum Samfylkingar og óháðra:
Í janúar 2019 samþykkti skólanefnd Seltjarnarness að hefja endurskoðun á skólastefnu bæjarins. Stefnumótuninni er ennþá ekki lokið en rúmlega fjögur ár eru því liðin síðan samráðsfundir með hagaðilum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi hófust. Í millitíðinni hafa gríðarlegar breytingar orðið í samfélaginu öllu og áskoranir heimins miklar. Ekkert útlit er fyrir því að hægja taki á þeirri þróun. Talið er að 85% þeirra starfa sem standa munu útskrifanemum úr háskóla til boða árið 2030 hafi ekki enn verið fundin upp. Við erum hér að tala um börnin okkar sem útskrifast úr 10. bekk grunnskóla Seltjarnarness í vor og næstu árin. Verkefni nefndarinnar er að búa til stefnu sem undirbýr börnin okkar undir framtíð, sem við eigum flest erfitt með að ímynda okkur hvernig líta mun út, en er samt svo skammt undan! Samfylkingin og óháðir hvetja til þess að eldri gögn verði sett til hliðar og byrjað verði upp á nýtt, enda þarf stefnumótunin að undirbúna börnin okkar undir framtíð sem ekki var til staðar við upphaf vinnunnar. Nýta verður öll tækifæri til kerfislegrar nýsköpunar og vera framsækin við val á leiðarljósi við þróun alls náms og skólastarfs.
Eva Rún Guðmundsdóttir og Karen María Jónsdóttir

Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Meirihluti skólanefndar telur ekki ástæðu til að leggja þá vinnu sem liggur fyrir til hliðar og hvetur frekar til þess að kallað verði eftir sjónarmiðum frá haghöfum varðandi það hvort tilefni sé til að yfirfara fram komnar ábendingar. Aðeins ár er liðið frá íbúaþingi um nýja menntastefnu og meirihluti nefndarinnar telur mikilvægt að lokið verði við nýja stefnu sem fyrst.
Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir, Grétar Dór Sigurðsson.

 

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum. Fundi slitið kl. 10:45.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?