340. fundur skólanefndar var haldinn miðvikudaginn 28. maí 2025, kl. 08:15 í sal bæjarstjórnar Seltjarnarness.
Fundinn sátu: Dagbjört S. Oddsdóttir (formaður), Grétar Dór Sigurðsson, Ragnhildur Jónsdóttir, Karen María Jónsdóttir og Halla Helgadóttir.
Fundarritari: Baldur Pálsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs og starfsmaður nefndar.
Gestir: Margrét Gísladóttir leikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness, Jelena Kuzminova, fulltrúi starfsfólks Leikskóla Seltjarnarness, Tryggvi Steinn Helgason, fulltrúi foreldraráðs Leikskóla Seltjarnarness, Selma Birna Úlfarsdóttir, leikskólastjóri Ungbarnaleikskóla Seltjarnarness og Kári Einarsson, skólastjóri Tónlistarskóla Seltjarnarness.
1. 2025050209 - Starfsáætlun Leikskóla Seltjarnarness skólárið 2025-2026.
Skólanefnd staðfestir starfsáætlun Leikskóla Seltjarnarness fyrir skólárið 2025-2026.
2. 2025050210 - Umsókn um stuðning við börn í Leikskskóla Seltjarnarness skólaárið 2025-2026.
Skólanefnd samþykkir umsóknir um stuðning við börn í Leikskóla Seltjarnarness fyrir skólaárið 2025-2026 með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.
Selma B. Úlfarsdóttir kom til fundar kl. 8:45.
3. 2024100215 - Tillaga að breytingum á opnunartíma, dvalartíma barna, skipulagi innri starfsemi
og gjaldskrám leikskóla á Seltjarnarnesi.
Umræða fór fram um tillögurnar.
Bókun:
Mótun fjárhagsáætlunar og ákvarðanir um niðurskurð felur í sér ákvörðun um bæði félagslega og efnahagslega forgangsröðun bæjarstjórnar. Vegna mismunandi stöðu ólíkra þjóðfélagshópa, sem birtist með margvíslegum hætti, hefur tekjuöflun og ráðstöfun opinbers fjár mismunandi áhrif á þessa hópa.
Til grundvallar þessum tillögum liggur Kópavogsmódelið svokallaða, en engar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum þessa nýja fyrirkomulags. Bent hefur til að mynda verið á að knappari opnunartími bitni á börnum og foreldrum þeirra sem vinna í framlínuþjónustu sem bundin er við 8 klukkustunda vinnudag, en hér er oft um láglaunastörf að ræða. Þessir foreldrar eru í allt annarri stöðu en börn foreldra sem vinna störf sem bjóða upp á sveigjanleika. Þá eru einstæðir foreldrar og foreldrar af erlendum uppruna í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Þar sem ekki er lagt fram með tillögunum mat á því hvort tillagan hafi jákvæð eða neikvæð jafnréttisáhrif, í hverju þau þá felast og séu þau neikvæð hvaða mótvægisaðgerðir séu ráðgerðar þá leggjast Samfylking og óháðir gegn niðurskurðartillögunum sem í styttri opnunartíma felast þangað til að slíkt mat hefur farið fram. Með greiningu á þessum áhrifum tryggjum við að fjárhagsáætlun eða niðurskurður á henni komi ekki niður á jafnrétti sem og réttlátri dreifingu fjármuna í þjónustu við útsvarsgreiðendur.
Karen María Jónsdóttir og Halla Helgadóttir, fulltrúar Samfylkingar og óháðra í skólanefnd.
Margrét Gísladóttir, Jelena Kuzminova og Tryggvi Steinn Helgason viku af fundi kl. 9:18.
4. 2025010211 - Ungbarnaleikskóli Seltjarnarness – ný leikskóladeild.
Leikskólstjóri ungbarnaleikskólans og sviðsstjóri greindu frá vinnunni við stofnun nýrrar deildar.
Selma B. Úlfarsdóttir vék af fundi og Kári Einarsson kom til fundar kl. 9:27.
5. 2025050211 - Skóladagatal Tónlistarskóla Seltjarnarness skólaárið 2025-2026.
Skólanefnd staðfestir skóladagatal Tónlistarskóla Seltjarnarness fyrir skólaárið 2025-2026.
Kári Einarsson vék af fundi kl. 9:40.
6. 2025040064 - Hagræðingartillögur apríl 2025.
Sviðsstjóri kynnti hagræðingartillögur á fræðslusviði, sem ákveðnar voru í bæjarráði 10.04.2025.
Bókun:
Grunnskóli
Mótun fjárhagsáætlunar og ákvarðanir um niðurskurð felur í sér ákvörðun um bæði félagslega og efnahagslega forgangsröðun bæjarstjórnar. Vegna mismunandi stöðu ólíkra þjóðfélagshópa, sem birtist með margvíslegum hætti, hefur tekjuöflun og ráðstöfun opinbers fjár mismunandi áhrif á þessa hópa.
Bent hefur verið á að stærð bekkjar sé síður en svo aðeins hausatalning. Litið sé til samsetningar hvers og eins nemendahóps, þeirra áskoranna sem innan hans eru og þeirra auðlinda sem til staðar eru innan skólans í starfsfólki til að takast á við aðstæður á sama tíma og sinna þarf kennslu og námi barnanna. Þá hefur verið bent á að skólastarfið sé komið að ákveðnum þolmörkum og að hætta sé á að sú ráðstöfun sem sé verið að boða með stækkun bekkjardeilda leiði til kostnaðar á öðrum stöðum innan kerfisins svo sem vegna aukinnar þarfar á sérfræði- eða sálfræðiþjónustu við börn og/eða veikinda starfsmanna.
Ekki er lögð fram með tillögunum mat á því hvort tillagan hafi jákvæð eða neikvæð jafnréttisáhrif, í hverju þau þá felast og séu þau neikvæð hvaða mótvægisaðgerðir séu ráðgerðar. Samfylking og óháðir leggjast því gegn niðurskurðartillögunum þangað til að slíkt mat hefur farið fram og tryggt er að fjárhagsáætlun eða niðurskurður á henni komi ekki niður á jafnrétti og réttlátri dreifingu fjármuna í lögbundna þjónustu við börn bæjarins.
Tónlistarskóli og listdanskennsla.
Það er sárt að þurfa að sjá eftir Forskóla II þar sem öll börn höfðu tækifæri til þess að ganga í tónlistarskóla, óháð fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Þar sem um viðbótarþjónustu er að ræða leggst Samfylking og óháðir ekki gegn þessari tillögu gegnt því að fjármunir séu tryggðir til tónmenntakennslu í Mýrarhúsaskóla þannig að hæfniviðmiðum fyrir tónmennt, eins og þau eru tilgreind í aðalnámskrá, séu uppfyllt.
Það er sárt að sjá eftir því góða samstarfi sem verið hefur við listdansskólann Óskandi um listdanskennslu. Samfylking og óháðir leggjast þó ekki gegn þessari tillögu svo framarlega sem að fjármunir séu tryggðir til danskennslu í Mýrarhúsaskóla þannig að hæfniviðmiðum fyrir sviðslistir - dans, eins og þau eru tilgreind í aðalnámskrá, séu uppfyllt.
Karen María Jónsdóttir og Halla Helgadóttir, fulltrúar Samfylkingar og óháðra í skólanefnd.
Bókun
Seltjarnarnesbær hefur verið meðal örfárra sveitarfélaga á landinu sem hafa boðið frítt tónlistarnám fyrir alla nemendur í 1. og 2. bekk. Þetta hefur verið mjög metnaðarfullt verkefni og að mörgu leyti til fyrirmyndar, en jafnframt kostnaðarsamt. Þessu fyrirkomulagi var komið á 2016-17 sem tilraunaverkefni og fól í sér að tónlistarskólinn annaðist tónmenntakennslu árgangsins. Áður var rukkað fyrir forskóla II og er því verið að hverfa til fyrra fyrirkomulags.
Vegna ófyrirséðs kostnaðarauka umfram áætlanir sem hlýst af nýgerðum kjarasamningum sveitarfélaga við aðildarfélög KÍ hefur bæjarfélagið þurft að bregðast við með sparnaðar- og hagræðingaraðgerðum. Til þess að vernda lögbundna þjónustu við börn var ákveðið að hætta rausnarlegri fjármögnun forskóla II frá og með haustinu 2025. Áfram verður boðið frítt nám í forskóla I fyrir nemendur í 1. bekk og þeir foreldrar sem vilja halda áfram með tónlistarnám barna sinna í forskóla II geta gert það með því að greiða skólagjöld.
Þess ber að geta að forskóli tónlistarskóla er ekki hluti af lögbundnu skyldunámi í grunnskóla þó svo gripið hafi verið til þess úrræðis á sínum tíma. Aðalnámskrá gerir kröfu um list- og verkgreinakennslu og Mýrarhúsaskóli ber áfram ábyrgð á að uppfylla þær kröfur. Skortur á sérmenntuðum tónmenntakennurum er áskorun en útfærsla viðeigandi list- og verkgreinakennslu er í höndum skólastjóra.
Við tökum heilshugar undir það sjónarmið að tónlistarnám hefur víðtæk og jákvæð áhrif á velferð barna. Það er því skiljanlegt að mörgum finnist breytingarnar erfiðar. Hér hefur þó verið reynt að vanda til verka við að taka ákvarðanir um hagræðingar og sem dæmi var ákveðið að halda áfram að bjóða upp á forskóla I, þrátt fyrir augljósa frekari hagræðingarþörf. Að sjálfsögðu verður að halda áfram að fylgjast með þróun mála og vera í nánu samstarfi við stjórnendur og tryggja að aðalnámskrá sé uppfyllt.
Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Ragnhildur Jónsdóttir og Grétar Dór Sigurðsson, fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skólanefnd.
Í lok fundarins var ákveðið að næsti fundur nefndarinnar verði haldinn mið. 18. júní nk.
Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum.
Fundi slitið kl. 10:14.