342. fundur skólanefndar var haldinn miðvikudaginn 27. ágúst 2025, kl. 08:15 í sal bæjarstjórnar Seltjarnarness.
Fundinn sátu: Dagbjört S. Oddsdóttir (formaður), Grétar Dór Sigurðsson, Ragnhildur Jónsdóttir, Karen María Jónsdóttir og Sigurþóra Bergsdóttir.
Fundarritari: Baldur Pálsson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs og starfsmaður nefndar.
Gestir: Selma Birna Úlfarsdóttir leikskólastjóri Ungbarnaleikskóla Seltjarnarness, Margrét Gísladóttir leikskólastjóri Leikskóla Seltjarnarness og Tryggvi Steinn Helgason, fulltrúi foreldraráðs Leikskóla Seltjarnarness, sátu fundinn undir 1. dagskrárlið. Helga Þórdís Jónsdóttir, skólastjóri Valhúsaskóla, Hilmar Bjarni Hilmarsson, fulltrúi kennara við grunnskóla á Seltjarnarnesi og Áslaug Eva Björnsdóttir, fulltrúi foreldra við grunnskóla á Seltjarnarnesi, sátu fundinn undir 2.-7. dagskrárlið. Helga Sigríður Eiríksdóttir, námsráðgjafi Valhúsaskóla, sat fundinn undir 6. dagskrárlið.
1. 2025080241 - Skólabyrjun í leikskólum á Seltjarnarnesi skólaárið 2025-2026.
Leikskólastjórar Leikskóla Seltjarnarness og Ungbarnaleikskóla Seltjarnarness gerðu grein fyrir skólabyrjun í leikskólunum, stöðu mönnunar og mögulegum upphafstíma aðlögunar nýrra barna.
Selma Birna Úlfarsdóttir, Margrét Gísladóttir og Tryggvi Steinn Helgason viku af fundi og Helga Þórdís Jónsdóttir, Hilmar Bjarni Hilmarsson og Áslaug Eva Björnsdóttir komu til fundar kl. 08:35.
2. 2025080242 - Skólabyrjun í grunnskólum á Seltjarnarnesi skólaárið 2025-2026.
Helga Þórdís Jónsdóttir gerði grein fyrir skólabyrjun í grunnskólum á Seltjarnarnesi.
3. 2025080214 - Foreldrafélag Mýrarhúsaksóla - Tillaga varðandi forskóla II.
Tillaga foreldrafélags Mýrarhúsaskóla: Stjórn foreldafélags Mýrarhúsaskóla leggur til að fallið verði frá ákvörðun bæjarráðs, dags. 20. maí 2025, um að innheimta nú gjald fyrir forskóla II við Tónlistarskóla Seltjarnarness. Þá er lagt til að skólanefnd komi málinu í viðeigandi farveg innan stjórnkerfi bæjarins og að gjaldfrjálst blokkflautunám verði tryggt fyrir 2. bekk Mýrarhúsaskóla á núverandi skólaári líkt og tíðkast hefur síðast liðinn áratug.
Lagt fram.
Skólanefnd hafnar tillögunni, en felur sviðsstjóra að afla upplýsinga um útfærslu list- og verkgreinakennslu á yngsta stigi Mýrarhúsaskóla og sjá til þess að hún verð kynnt foreldrum við fyrsta tækifæri.
Bókun: Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skólanefnd þakka foreldrafélaginu fyrir áskorunina. Seltjarnarnesbær hefur verið meðal tveggja eða þriggja sveitarfélaga á landinu sem hafa boðið frítt tónlistarnám fyrir alla nemendur í 1. og 2. bekk. Fulltrúarnir styðja ákvörðun bæjarráðs í ljósi aðstæðna og þess að forgangsraða þurfi verkefnum þannig að grunnþjónusta sé tryggð. Þetta hefur verið mjög metnaðarfullt verkefni og að mörgu leyti til fyrirmyndar, en jafnframt kostnaðarsamt. Tónlistarnám hefur ótvírætt jákvæð áhrif á velferð barna og mikilvægt er að hvetja til slíkrar þátttöku. Tilraunaverkefnið var innleitt á árunum 2016–2017 og fól í sér að Tónlistarskólinn annaðist tónmenntakennslu tveggja árganga. Áður var rukkað fyrir forskóla II og því er verið að hverfa til fyrra fyrirkomulags. Vegna mikilla og ófyrirséðra launahækkana og til að tryggja lögbundna þjónustu við börn hefur bæjarfélagið ákveðið að hætta rausnarlegri fjármögnun forskóla II frá og með haustinu 2025. Í þeim aðstæðum var ákveðið að horfa til verkefna sem ganga lengra en lögbundin þjónusta, og þar á meðal er forskóli II. Forskóli tónlistarskóla er ekki hluti af lögbundnu skyldunámi í grunnskóla, þó svo gripið hafi verið til þess úrræðis á sínum tíma. Áfram verður boðið upp á gjaldfrjálsan forskóla I fyrir nemendur í 1. bekk og foreldrar geta nýtt frístundastyrk til að mæta kostnaði vegna forskóla II, líkt og tíðkast í öðrum sveitarfélögum. Fulltrúarnir skilja að breytingar sem þessar vekja viðbrögð og taka sjónarmið foreldra alvarlega. Fylgst verður með framkvæmd kennslu í list- og verkgreinum í Mýrarhúsaskóla og tryggt að börnin fái áfram fjölbreytt og metnaðarfullt skólastarf í samræmi við lög og aðalnámskrá.
Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Grétar Dór Sigurðsson og Ragnhildur Jónsdóttir, fulltrúar sjálfstæðisflokks í skólanefnd.
Bókun: Það er sárt að þurfa að sjá eftir Forskóla II þar sem öll börn höfðu tækifæri til þess að ganga í tónlistarskóla, óháð fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Þar sem um viðbótarþjónustu er að ræða, og í ljósi þess að bærinn hefur um árabil verð á kúpunni, hafnar Samfylking og óháðir með trega fyrirliggjandi tillögu. Mikilvægt er þó að tryggja ákvörðunni hafi ekki neikvæð jafnréttisáhrif en slík áhrif ber að meta samkvæmt 18.gr. um kynjaða fjárlagagerð og jafnrétti í lögum um opinber fjármál nr. 123/2015 . Tillögunni er því hafnað með þeim fyrirvara að bæjarráð tryggi að fjármunir séu tryggðir til tónmenntakennslu í Mýrarhúsaskóla í fjárhagsáætlun næsta árs þannig að skólastjóri hafi nauðsynlegar auðlindir til að útfæra nám og kennslu svo að hæfniviðmiðum fyrir tónmennt, eins og þau eru tilgreind í aðalnámskrá, séu uppfyllt. Einnig að útfærsla á tónmenntakennslu í Mýrarhúsaskóla verði tilbúin fyrir lok september og kynnt foreldrum, auk þess að vera útlistuð í Skólanámsskrá þessa skólaárs eins og aðalnámskrá kveður á um.
Karen María Jónsdóttir og Sigurþóra Bergsdóttir, fulltrúar Samfylkingar og óháðra í skólanefnd.
4. 2025020108 - Úthlutun til Mýrarhúsaskóla fyrir skólaárið 2025-2026.
Skólanefnd samþykkir tillögu að úthlutun til Mýrarhúsaskóla fyrir skólaárið 2025-2026 með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.
5. 2025020109 - Úthlutun til Valhúsaskóla fyrir skólaárið 2025-2026.
Skólanefnd samþykkir tillögu að úthlutun til Valhúsaskóla fyrir skólaárið 2025-2026 með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.
Helga Sigríður Eiríksdóttir kom til fundar kl. 09:30.
6. 2025060108 - Skýrsla námsráðgjafa Valhúsakóla, skólaárið 2024-2025.
Helga Sigríður Eiríksdóttir kynnti skýrslu námsráðgjafa Valhúsaskóla fyrir skólaárið 2024-2025 og svaraði spurningum.
Helga Sigríður Eiríksdóttir kom til fundar kl. 09:50.
7. 2025060109 - Lykiltölur í skólastarfi, skólaárið 2024-2025.
Sviðsstjóri kynnti lykiltölur í skólastarfi skólaárið 2024-2025.
Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum. Fundi slitið kl. 10:15