Fara í efni

Skólanefnd

192. fundur 14. maí 2007

192. (15) fundur skólanefndar Seltjarnarness haldinn mánudaginn 14. maí 2007, kl. 17:00 í fundarsal bæjarstjórnar, Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Sigrún Edda Jónsdóttir, Gunnar Lúðvíksson, Þórdís Sigurðardóttir, Jón Þórisson, Kristján Þorvaldsson, Gylfi Gunnarsson, skólastjóri Tónlistarskóla, Sigfús Grétarsson skólastjóri Grunnskóla, Olga B. Þorleifsdóttir og Þórunn Halldóra Matthíasdóttir fulltrúar kennara, Birna Helgadóttir og Sigurlína M. Magnúsdóttir fulltrúar foreldra og Óskar J. Sandholt, framkvæmdastjóri sviðs.  

Fundi stýrði Sigrún Edda Jónsdóttir.

Fundargerð ritaði Óskar J. Sandholt.

 

Þetta gerðist:

Dagskrá:

1.      Gjaldskrá Tónlistarskóla Seltjarnarness 2007/2008. Málsnúmer 2007050023.
Gjaldskrá Tónlistarskóla Seltjarnarness fyrir skólaárið 2007-2008 lögð fram. Samþykkt samhljóða.

2.      Málefni Tónlistarskóla Seltjarnarness. Málsnúmer 2007050024.
Skólastjóri kynnti stöðu skólastarfs og innritana og lagði fram tillögu að skóladagatali sem er í samræmi við skóladagatal annarra skóla á Seltjarnarnesi. Farið yfir stöðu húsnæðismála. Skólalúðrasveitin á 40 ára afmæli á þessu ári og verður þess minnst á næsta skólaári.

 

Gylfi Gunnarsson vék af fundi kl. 17:40 og Sigfús Grétarsson, Olga B. Þorleifsdóttir, Þórunn Halldóra Matthíasdóttir, Birna Helgadóttir og Sigurlína M. Magnúsdóttir komu á fundinn.

 

3.      Erindisbréf skólanefndar. Málsnúmer 2003020049.
Nýtt erindisbréf skólanefndar er samþykkt var í bæjarstjórn 11. apríl lagt fram. Skólanefnd bendir á að í erindisbréfinu er getið um grunnskólafulltrúa en enginn gegni því starfi hjá bænum.

4.      Námsleyfi grunnskólakennara 2007/2008. Málsnúmer 2007030056.
Lagt fram yfirlit yfir þá kennara við Grunnskóla Seltjarnarness er fengið hafa námsleyfi á næsta skólaári.

5.      Ráðning aðstoðarskólastjórnenda. Málsnúmer 2007030045.
Á grundvelli faglegs mats Capacent hafa Baldur Pálsson og Ólína Thoroddssen sem metin voru hæfust umsækjenda verið ráðin í störf aðstoðarskólastjórnenda Grunnskóla Seltjarnarness. ÞHM, fulltrúi kennara í Valhúsaskóla lýsti yfir óánægju með ráðninguna, störf skólastjóra og skólanefndar. Einnig óskar fulltrúinn eftir  fundi með skólanefnd. Fulltrúar foreldra lýsa yfir áhyggjum af óánægju starfsfólks skólans. Skólanefnd staðfestir ráðningu Baldurs Pálssonar og Ólínu Thoroddssen samhljóða.

6.      Skóladagatal 2007/2008. Málsnúmer 2007040031.
Skóladagatal vegna næsta skólaárs lagt fram. Skólanefnd beinir því til skólastjóra að gert verði átak í notkun Mentor við alhliða upplýsingagjöf til foreldra, þ.m.t. vegna skóladagatals, prófadaga og fleira. Skóladagatal samþykkt samhljóða og óskað eftir að það verði kynnt íþróttafélagi og öðrum hagsmunaaðilum sem fyrst.

7.      Byggingarnefnd Mýrarhúsaskóla. Málsnúmer 2007010049.
Fundargerðir byggingarnefndar lagðar fram. GL formaður nefndarinnar gerði grein fyrir framgangi verksins. Miðað við kostnaðarmat og fyrirliggjandi tilboð mun kostnaður vegna breytinganna nema um 60-63 milljónum króna.

8.      Mötuneyti í Valhúsaskóla. Málsnúmer 2006100069.
GL gerði grein fyrir þeirri vinnu sem farið hefur fram vegna undirbúnings á sölu heitra skólamáltíða í Valhúsaskóla. Óskað er eftir að vinnuhópurinn skoði vandlega hvaða bráðabirgðaúrræði í matarmálum verði hægt að grípa til vegna næsta skólaárs.

9.      Niðurstöður starfshóps um fyrirkomulag kennslu 5 ára barna. Málsnúmer 2006110025.
Lögð fram greinargerð hópsins. Tillaga hópsins er að 5 ára börnum verði áfram kennt í leikskólum bæjarins en að skerpt verði á samstarfi við grunnskóla, samræmingu og faglegri útfærslu. Tillagan samþykkt samhljóða.

10.  Endurgerð skólalóða. Málsnúmer 2007020007.
Fundargerðir starfshóps um endurgerð skólalóða Grunnskólans lagðar fram. SEJ gerði grein fyrir starfi hópsins og því sem framundan er.

11.  Eineltismál – staða. Málsnúmer 2007010023.
Skólastjóri upplýsti um framvindu við endurskoðun eineltisáætlunar skólans. Því er beint til skólastjóra að skráð verði og haldið utan um þróun og fjölda eineltismála á öllum skólastigum.

12.  Endurskoðun skólanámskrár – staða. Málsnúmer 2006050086.
Skólastjóri gerði grein fyrir stöðu verksins.

13.  Auglýsing þróunarsjóðs grunnskóla 2007. Málsnúmer 2007050016.
Auglýsingin lögð fram til kynningar. Í samræmi við starfsáætlun fræðslu-, menningar- og þróunarsviðs er sérstaklega óskað eftir verkefnum er tengjast námskrárgerð og samskiptum við foreldra.

 

Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:15.

 

Sigrún Edda Jónsdóttir (sign)

Gunnar Lúðvíksson (sign)

Jón Þórisson (sign)

Þórdís Sigurðardóttir (sign)

Kristján Þorvaldsson (sign)

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?