Fara í efni

Skólanefnd

195. fundur 29. ágúst 2007

195. (18) fundur skólanefndar Seltjarnarness haldinn miðvikudaginn 29. ágúst 2007, kl. 08:00 í fundarsal bæjarstjórnar, Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Sigrún Edda Jónsdóttir, Gunnar Lúðvíksson, Jón Þórisson, Þórdís Sigurðardóttir, Kristján Þorvaldsson, Sigfús Grétarsson skólastjóri Grunnskóla, Olga B. Þorleifsdóttir og Þórunn Halldóra Matthíasdóttir fulltrúar kennara, Birna Helgadóttir og Sigurlína M. Magnúsdóttir fulltrúar foreldra og Óskar J. Sandholt, framkvæmdastjóri sviðs.

Fundi stýrði Sigrún Edda Jónsdóttir.

Fundargerð ritaði Óskar J. Sandholt.

Þetta gerðist:

 1. Skýrslur sálfræðings, námsráðgjafa og deildarstjóra sérkennslu vegna skólaársins 2006/2007. Málsnúmer 2007060015.
  Ofantaldar skýrslur lagðar fram til kynningar. Skólanefnd telur óviðunandi að biðlisti sé eftir sálfræðiþjónustu við lok skólaárs og beinir því til skólastjóra að hugað verði að skipulagi sálfræðiþjónustu skólans.

 2. Niðurstöður foreldra-, nemenda- og starfsmannakannana skólaársins 2006/2007. Málsnúmer 2007060015.
  Skólastjóri kynnti niðurstöður kannana er framkvæmdar voru á síðustu önn. Niðurstöður í heildina eru jákvæðar og er mikill meirihluti foreldra ánægður með Grunnskólann og starfið þar. Könnunin er þó að sumu leyti gölluð og vantar í hana samanburð. Því beint til skólastjóra að skoðaðar verði spurningar sem Reykjavíkurborg hefur þróað til nota í grunnskólum Reykjavíkur. Nemendur eru sömuleiðis jákvæðir en svörun þess hluta könnunarinnar er ekki marktæk. Mikill meirihluti starfsmanna hefur jákvæða afstöðu til vinnustaðarins og starfsins í skólanum. Fulltrúar kennara benda á að óánægja með kjör sé áberandi hjá kennurum og beina þeir því til skólanefndar að skoðað verði hvort hægt sé að greiða kennurum tímabundið álag líkt og leikskólakennurum. Einnig benda þeir á að almennt samskiptaleysi ríki á milli bygginga sem hafi skapað vandamál við röðun í bekki.

 3. Framhald tilraunaverkefnis um NemaNet. Málsnúmer 2007060005.
  Rætt um framgang verkefnisins síðast liðið ár. Reynsla verkefnisins hefur verið misjöfn en þó hafa borist jákvæðar umsagnir frá skóla, nemendum, foreldrum og kennurum. Rætt um hvort ástæða sé til að útvíkka verkefnið þannig að það nái til allra nemenda á Seltjarnarnesi óháð skólastigi. Samþykkt samhljóða að beina því til fjárhags- og launanefndar að skoða möguleika á að leita samninga við NemaNet um eins árs aðgang fyrir alla íbúa sveitarfélagsins.

  Birna Helgadóttir vék af fundi kl. 08:55.

 4. Beiðni um styrk vegna heimasíðunnar Tákn með tali. Málsnúmer 2007070037.
  Fjallað um styrkbeiðnina. Hafnað.

 5. Staða framkvæmda við Mýrarhúsaskóla. Málsnúmer 2007010049.
  Skólastjóri og Gunnar Lúðvíksson, formaður byggingarnefndar, fóru yfir stöðu framkvæmda. Búist er við að þeim verði að mestu lokið fyrir mánaðarmót en lokafrágangur við skólaeldhús mun eitthvað dragast vegna vandamála hjá verktaka.

 6. Reglur um námsvist í grunnskólum utan lögheimilissveitarfélags. Málsnúmer 2007080019.
  Lögð fram tillaga skólanefndar um breytingu á samþykkt skólanefndar frá 1997. Breytingarnar miða að því að staðfesta valfrelsi Seltirninga um val á grunnskólum. Samþykkt samhljóða.

 7. Staðan við upphaf skólaárs. Málsnúmer 2007030042.
  Skólastjóri fór skýrði frá stöðu og breytingum eftirfarandi atriða:

  • Fjöldi nemenda í árgöngum – breytingar.
   Nemendum hefur fækkað um 30 frá síðasta skólaári.

  • Mönnun skólans.
   Skólinn er nær fullmannaður og hefur gengið ágætlega að fá fólk til starfa en þó vantar skólaliða í nokkur störf. Allir sem sótt hafa um Skólaskjól ættu að fá pláss frá mánaðarmótum. Enn vantar starfsfólk í mötuneyti ásamt kennara í 9 kennslustundir í náttúrufræði. Vonast er til að þau mál leysist á næstu vikum. Skólanefnd lýsir yfir áhyggjum yfir hversu seint gengur að ráða í stöður ófaglærðra í skólum og beinir því til fjárhags- og launanefndar að ráðningarskilmálar þessara starfsmanna verði skoðaðir.

  • Fyrirkomulag mötuneytis í Valhúsaskóla.
   Boðið verður upp á heitan mat þrjá daga vikunnar í Valhúsaskóla en mat með sama fyrirkomulagi og áður hina tvo. Yfirmaður mötuneytis Mýrarhúsaskóla mun sjá um matinn í Valhúsaskóla. Áfram er unnið að skipulagi framtíðarfyrirkomulags mötuneytisins.

  • Skólanámskrá.
   Verið er að leggja lokahönd á nýja útgáfu skólanámskrár og verður hún tilbúin í september.

  • Samræming stundaskráa við Tónlistarskóla og íþróttafélag.
   Samræming hefur gengið ágætlega frá því í vor og hafa forstöðumenn stofnanana verið í sambandi vegna þessa undanfarið.

Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 09:36.

Sigrún Edda Jónsdóttir (sign)

Gunnar Lúðvíksson (sign)

Jón Þórisson (sign)

Þórdís Sigurðardóttir (sign)

Kristján Þorvaldsson (sign)

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?