128. fundur hjá Veitustofnun Seltjarnarness haldinn þriðjudaginn 16. janúar 2018 kl. 15:00 að Austurströnd 2.
Mættir: Ásgerður Halldórsdóttir, Guðmundur Jón Helgason, Lýður Þór Þorgeirsson, Magnús Dalberg og Axel Kristinsson.
Einnig sat fundinn Gísli Hermannsson sviðstjóri.
Undir lið nr. 1 sat Hrefna Kristmannsdóttir.
Dagskrá:
Mengun í neysluvatni á höfuðborgarsvæðinu
Í ljósi þeirrar mengunar sem greinst hefur í neysluvatni á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum dögum var boðað til aukafundar í Veitustjórn. Á fundinn mætti Gísli Hermannsson sviðstjóri og upplýsti að föstudaginn 12. janúar sl.var heilbrigðisfulltrúi Kjósarsvæðis fenginn til að taka sérstakt sýni úr inntaki neysluvatnsins á Seltjarnarnesi. Það var gert í framhaldi af tilkynningu frá Veitum um að þeir hefðu fundið hjá sér mengað sýni sem á þeim tíma var álitið að gæti mögulega verið gallað. Í sýninu sem hér var tekið mældist magn kuldakæragerla 110 sem er rétt yfir viðmiðunarmörkum en þau eru 100. Einnig var tekið sýni í inntakinu í Þjónustumiðstöðinni þar sem magn gerlanna var 85 eða vel innan marka. Ekki var um neina aðra gerla að ræða í vatninu. Þessi niðurstaða þótti því ekki gefa tilefni til aðgerða. Óskaði hann einnig eftir að sýni yrði tekið mánudaginn 15. janúar, niðurstöður höfðu ekki borist þegar fundurinn var haldinn.
Eftir umræður ákvað Veitustjórn eftirfarandi:
Að fela sviðstjóra að láta taka sýni daglega til að fylgjast með gæðum vatnsins í bænum eða alveg þar til ljóst er að allar mælingar verða komnar í eðlilegt jafnvægi. Einnig að bæjarbúum verði haldið upplýstum um stöðu mála eftir því sem þurfa þykir eða ef sérstakra aðgerða er þörf.
Fundi slitið kl. 15:45
Ásgerður Halldórsdóttir (sign.), Guðmundur Jón Helgason (sign.), Lýður Þór Þorgeirsson, Magnús Dalberg (sign.) Axel Kristinsson (sign.) og Gísli Hermannsson (sign.).