Fara í efni

Umhverfisnefnd

163. fundur 18. desember 2003

Mættir voru: Ingimar Sigurðsson (IS), Margrét Pálsdóttir (MP), Stefán Bergmann (SB), Kristín Ólafsdóttir (KÓ) og Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), sem ritaði fundargerð. Auk nefndarmanna sátu Haukur Kristjánsson bæjartæknifræðingur og Hrafnhildur Sigurðardóttir leikskólafulltrúi, fundinn.
Dagskrá fundarins

1. Fundur settur
2. Staðardagskrá 21, tillögur vinnuhóps
3. Skýrsla um fuglaskoðun
4. Landfylling við Seltjörn
5. Bygggarðsvör
6. Önnur mál
7. Fundi slitið

1. IS setti fund kl. 17:06 og bauð fundarmenn velkomna.

2. Tillögur vinnuhóps um Staðardagskrá 21 ræddar. Eftirfarandi 15 tillögur samþykktar:

1. Hafist verði handa við framkvæmdir við dælustöð við Tjarnarstíg og framkvæmdum lokið fyrir lok september 2005.
2. Unnið verði að uppsetningu á fitugildrum hjá iðnfyrirtækjum fyrir mitt ár 2004, í samráði við heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis.
3. Bæjartæknifræðingur geri úttekt á frárennsliskerfum bæjarins og skili skýrslu fyrir 1. apríl 2004.
4. Mótuð verði stefna bæjarins vegna gjaldtöku á sorpi fyrir 1. apríl 2004. Stefnt að gjaldtöku fyrir sorp að lokinni kynningu, þann 1. september 2004.
5. Áfram skal stefnt að því að magns sorps minnki um amk 3% á ári.
6. Umhverfisvæn innkaupastefna bæjarins og stofnana hans verði mótuð og kynnt fyrir 1. júlí 2004.
7. Grænt bókhald verði fært frá og með 1. janúar 2004. Unnið verði að framkvæmd verkefnisins í samstarfi við framkvæmdastjóra fjárhags- og stjórnsýslusviðs.
8. Bæjarfulltrúar og nefndarmenn í umhverfisnefnd taki þátt í verkefninu “Vistvernd í verki” og verði þannig gott fordæmi fyrir aðra bæjarbúa.
9. Bæjarbúar hvattir til þess að halda bænum hreinum og fallegum og vitund hans um náttúrumengun verði stóraukin með markvissri miðlun upplýsinga, m.a. með greinaskrifum í Nesfréttir.
10. Efla kostnaðarvitund bæjarbúa um notkun á hreinu vatni.
11. Úttekt á vatns- og rafmagnsnotkun í íþróttamannvirkjum bæjarins hefur farið fram og vænta má skýrslu fyrir lok febrúar 2004.
12. Unnið verði að því að fá nema úr Háskóla Íslands til þess að vinna verkefni sem tengist kortlagninu náttúru- og menningarminja, rannsóknum og lýsingum á menningarminjum og gerð húsaskrár vegna byggingalistar og byggingarsögu.
13. Gerð verði áætlun um fornleifarannsóknir á Seltjarnarnesi og hún tilbúin fyrir 1. júlí 2004.
14. Öllum starfsmönnum bæjarins verði boðið upp á námskeið og fræðslu um umhverfismál og áætlun þar að lútandi mótuð og kynnt fyrir 1. maí 2004.
15. Nemendur leik- og grunnskóla hljóti sérstaka umhverfisfræðslu og henni gerð ítarleg skil í skólanámskrám.

3. Lögð fram skýrsla Jóhanns Óla Hilmarssonar um fuglaskoðun á Seltjarnarnesi sumarið 2003. Almenn ánægja með skýrsluna og niðurstöður hennar á meðal nefndarmanna. Stefnt að næstu talningu og sambærilegri skýrslu árið 2005.

4. Lagt fram erindi Golfklúbbs Ness um landfyllingu við Suðurnes og Seltjörn, sem vísað var til nefndarinnar frá skipulagsnefnd til umsagnar. Eftirfarandi bókun var samþykkt:

Til Skipulags –og mannvirkjanefndar

Umsögn um tillögu um landfyllingu í Seltjörn

Í tilefni af fram kominni tillögu um landfyllingu í Seltjörn vegna nýs golfvallar minnir Umhverfisnefnd á, að ítarleg gögn eru til um náttúrufar og lífríki á utanverðu Seltjarnarnesi og þá stefnu sem sem mörkuð hefur verið. Stefnumörkunin varðar mikilvægi þessara svæða og lífríkis þeirra og birtist í friðlýsingu Gróttu (1974 og 1984) og Bakkatjarnar með nánasta umhverfi (2001), upptöku fjöru og strandlengju frá Bakka að Bygggarði á náttúruminjaskrá frá 1978 vegna búsvæða fugla, landslagsheildar vestursvæðanna og einstakra náttúruminja eins og fjörumós og jarðlaga frá ísöld. Þannig hafa bæjarstjórnir allt frá árinu1974 mótað þessa stefnu.

Tillaga að náttúruverndaráætlun hefur jafnframt verið lögð fram á Alþingi og þar er svæðið skilgreint sem hluti af stærra svæði við Skerjafjörð, sem aftur er liður í keðju verndarsvæða við vestanvert landið til verndar fuglalífi og búsvæðum fugla. Fjörurnar syðst við Seltjörn eru eitt af þremur mikilvægustu fuglasvæðunum við Seltjarnarnes (Náttúrufar á Seltjarnarnesi bls.44, 50-51, 57, 84-87 ) sem fæðufjörur vaðfugla og æðarfugls, set- og hvíldarstaðir fugla og til uppeldis unga einkum æðarfugls og kríu. Hin svæðin eru Gróttueiðið og fjörurnar við vestanverða Bakkavík.
Umhverfisnefnd telur að umrædd tillaga gangi gegn þessari stefnumörkun og stefni fjölbreytni lífríkisins í hættu og spilli ásýnd landsins til tjóns fyrir íbúa Seltjarnarness til frambúðar. Umhverfisnefnd mælir því gegn hugmyndum um landfyllingar í Seltjörn.


5. Rætt um mögulegan fjárstuðning vegna Bygggarðsvarar. Margréti og Kristínu falið að ganga frá umsókn um styrk til Ferðamálaráðs í framhaldi af auglýsingu ráðsins. Rætt um forgangsmál verkefna en umsókn miðist við áætlaðan heildarkostnað verksins.

6. Önnur mál:
a) Lögð fram tillaga að fundartímum næsta árs. Sama fyrirkomulag samþykkt fyrir næsta ár, þ.e. síðasti fimmtudagur í hverjum mánuði.
b) Hrafnhildur greindi frá því að á morgun kl. 18:00 verður kveikt á lýsingu á Gróttuvita.
c) Haukur gerði grein fyrir vegvísun-göngustígakerfi höfuðborgarsvæðisins og þátttöku Seltjarnarness í því. Umhverfisnefnd mælir með áframhaldandi þátttöku í verkefninu.
d) Rætt um næsta Græna horn í Nesfréttum.

7. Fleira ekki rætt. Fundargerð upplesin og samþykkt. Fundi slitið klukkan 18:55.

Magnús Örn Guðmundsson Ingimar Sigurðsson Margrét Pálsdóttir fundarritari
(sign.)                                     (sign.)                       (sign.)

Stefán Bergmann Kristín Ólafsdóttir
(sign.)                     (sign.)Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?