Fara í efni

Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2005

Nýr bæjarlistamaður Seltjarnarness var útnefndur þann 8. janúar s.l. í hófi sem haldið var í nýju og glæsilegu húsnæði Bókasafns Seltjarnarness. Fyrir valinu varð Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari sem tekur við nafnbótinni af leikkonunni Margrét Helga Jóhannsdóttir.

Nýr bæjarlistamaður Seltjarnarness var útnefndur þann 8. janúar s.l. í hófi sem haldið var í nýju og glæsilegu húsnæði Bókasafns Seltjarnarness. Fyrir valinu varð Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari sem tekur við nafnbótinni af leikkonunni Margréti Helgu Jóhannsdóttur.

Auður er fædd árið 1965. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983 aðeins 17 ára gömul. Hún stundaði framhaldsnám við New England Conservatory í Boston og lauk Bachelor of Music gráðu með hæstu einkunn. Auður lauk Master of Music gráðu árið 1991 frá University of Minnesota.

Auður Hafsteinsdóttir hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir leik sinn. Árið 1985 fékk hún C.D. Jackson verðlaunin sem framúrskarandi strengjaleikari á hinni alþjóðlegu tónlistarhátíð í Tanglewood og 1988 fyrstu verðlaun í The Schubert Club Soloist Competition í Minneapolis. Auður var jafnframt konsertmeistari í Óperuhljómsveit Minnesota frá 1989-1991. Árið 1991 var hún valin borgarlistamaður Reykjavíkurborgar til þriggja ára og 1996 voru henni úthlutuð listamannalaun til þriggja ára frá menntamálaráðuneytinu. Auður hefur stundað kennslu í fiðluleik við Tónlistarháskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands undanfarin ár.

Hún hefur víða komið fram sem einleikari og í kammermúsík á alþjóðlegum vettvangi, m.a. í Bandaríkjunum, Kanada og víða á meginlandi Evrópu. Hún tekur reglulega þátt í tónlistarhátíðum hérlendis og hefur margoft komið fram á erlendum tónlistarhátíðum. Einnig hefur hún farið í tónleikaferðir til Japan og Kína. Auður hefur leikið inn á fjölda geisladiska fyrir innlend og erlend útgáfufyrirtæki.

Hinn nýi bæjarlistamaður lagði í umsókn sinni áherslu á að efla enn frekar tónlistarmenningu á Seltjarnarnesi. Það hyggst listamaðurinn gera með tónlistartengdum viðburðum fyrir eldri sem yngri aldurshópa. Sérstaklega má nefna hugmynd um nokkra tónleika í Seltjarnarnes-kirkju, þar sem kirkjan er frábær vettvangur fyrir tónleikahald. Þar er átt við einleikstónleika en einnig fengi hann til liðs við sig aðra tónlistarmenn. Fyrirhugað er að heimsækja skólana og öldrunarheimilið á Seltjarnarnesi með tónlistarkynningar. Þar er ætlunin að fá lengra komna nemendur listamannsins úr Tónlistarskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, með í för og sameinast um að halda stutta tónleika og ræða um tónlistina.

Með þessum verkefnum vill listamaðurin miðla tónlistinni til yngri kynslóðarinnar, sem og hinnar eldri, stuðla að enn öflugra tónlistarstarfi í bænum og ríkari tónlistarflóru.

Hjá hinum nýja bæjarlistamanni eru ýmis verkefni framundan. Bæði einleiks og kammertónleikar hér á landi og á meginlandi Evrópu. Einnig er fyrirhuguð vinna og tónleikar í tengslum við upptöku á geisladisk.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?