Fara í efni

Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2022

Þórdís Erla Zoëga myndlistarmaður var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness 2022 við hátíðlega athöfn á Bókasafni Seltjarnarness,
Þórdis Erla Zoëga bæjarlistamaður 2022
Þórdis Erla Zoëga bæjarlistamaður 2022

ÞÓRDÍS ERLA ZOËGA  – BÆJARLISTAMAÐUR SELTJARNARNESS 2022

Þórdís Erla Zoëga myndlistarmaður var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness 2022 við hátíðlega athöfn á Bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 25. mars 2022.

Þetta í 26ta sinn sem bæjarlistamaður Seltjarnarness er útnefndur en Menningarnefnd Seltjarnarness sér um val bæjarlistamanns ár hvert. Í heiðursathöfninni veitti Guðrún Jónsdóttir formaður menningarnefndar Þórdísi Erlu viðurkenningingarskjal ásamt starfsstyrk að upphæð 1.000.000 kr. sem fylgir nafnbótinni.

Þórdís Erla Zoëga er fædd og uppalin á Seltjarnarnesi. Hún útskrifaðist með BFA gráðu úr Audio Visual deild Gerrit Rietveld Academy í Amsterdam þar sem hún stundaði nám á árunum 2008-2012.

Árið 2017 útskrifaðist hún með diplómu í Vefþróun úr Vefskólanum. Þórdís hefur rannsakað myndheim skynjunar og sjónrænnar villu í innsetningum sínum sem eru oft staðsettar milli skúlptúrs og hreyfimyndar, sér í lagi hvað varðar notkun hennar á litbreytifilmu. Filman myndar ljósbrot og sýnir marga mismunandi liti, sem ráðast af því hvernig ljós brýst í gegnum hana þannig að hún endurvarpar sumum litum en hleypir öðrum í gegn.

Þórdís Erla var tilnefnd til Grímunnar árið 2016 fyrir Búninga ársins í verkinu Dada Dans sem var unnið í samvinnu við Íslenska Dansflokkinn. Hún stofnaði nýverið hönnunarstúdíóið Stúdíó Flötur ásamt manni sínum og grafíska hönnuðinum Kristjáni Jóni Pálssyni. Stúdíó Flötur sérhannar vínylmottur í takmörkuðu upplagi og hugsa rými heimilisins fyrir listaverk á nýjan hátt.

 Þórdís Erla hefur haldið myndlistarsýningar víða um heim t.a.m. í Amsterdam, Stokkhólmi, Berlín, Basel og Tékklandi.  Á Íslandi hefur hún gert verk fyrir Listahátíð í Reykjavík, Gerðarsafn,  Konsúlat Hótel, Canopy Hilton hótel og sýnt í D-sal Hafnarhússins. Einnig var hún meðlimur í listahópnum Kunstschlager og hélt uppi víðtækri  sýningardagskrá með þeim í Kunstschlager Stofu Hafnarhússins. Nýlegar sýningar eru Embrace (Norrtälje konsthall, Svíþjóð, 2021), Hyper Cyber (Þula, 2020), og Harmony (Geysir Heima Kjallarinn, 2019) auk þess sem nýlegarsýningar eftir hana opnuðu í Listasafni Akureyrar og Listasafni Árnesinga. Í tilefni af útnefningu Þórdísar sem bæjarlistamanns var sett upp sýning á Bókasafni Seltjarnarnesi sem fólk er hvatt til að skoða á næstu dögum.

Þórdísi Erlu eru færðar innilegar hamingjuóskir með heiðursnafnbótina, Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2022 og munu Seltirningar að sjálfsögðu fá að njóta hæfileika hennar á árinu

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, Þórdís Erla Zoëga bæjarlistamaður Seltjarnarness 2022 og Guðrún Jónsdóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarnesbæjar.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?