Fara í efni

Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2024

Sigríður Soffía Níelsdóttir dansari, danshöfundur og þverfaglegur listamaður var í gær útnefnd Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2024 við hátíðlega athöfn á Bókasafni Seltjarnarness.
Sigríður Soffía Níelsdóttir, dansari, danshöfundur og þverfaglegur listamaður, Bæjarlistamaður Seltj…
Sigríður Soffía Níelsdóttir, dansari, danshöfundur og þverfaglegur listamaður, Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2024

SIGRÍÐUR SOFFÍA NÍELSDÓTTIR – BÆJARLISTAMAÐUR SELTJARNARNESS 2024

Sigríður Soffía danshöfundur og þverfaglegur listamaður var útnefndur Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2024 við hátíðlega athöfn á Bókasafni Seltjarnarness þriðjudaginn 13. febrúar.

Þetta er í 28unda sinn sem bæjarlistamaður Seltjarnarness er útnefndur en Menningarnefnd Seltjarnarness sér um val bæjarlistamanns ár hvert. Í heiðursathöfninni veitti Þórdís Sigurðardóttir formaður menningarnefndar Sigríði Soffíu viðurkenningingarskjal ásamt starfsstyrk að upphæð 1.000.000 kr. sem fylgir nafnbótinni.

Sigríður Soffía á langan feril í eigin listsköpun og er óhrædd við að flakka á milli listforma í bland við nýsköpun, vöruhönnun og ritstörf. Hún útskrifaðist með BA-gráðu sem listdansari frá Listaháskóla Íslands árið 2009 og sótti skiptinám í loftfimleikum við einn fremsta sirkusskóla Evrópu; Ecole Superior des Arts de Cirque í Brussel. Sigríður Soffía útskrifaðist með MBA gráðu frá HR 2020 og er með einkaflugmannspróf frá Flugskóla Íslands frá 2015. Hún stofnaði sitt eigið nýsköpunarfyrirtæki, Eldblóm árið 2020 sem býður upp á vörur og upplifanir tengdar hreyfingu. Hefur sinnt í ýmsum stjórnarstörfum í gegnum tíðina og er t.a.m. núverandi stjórnarformaður Íslenska dansflokksins.

Sigríður Soffía hefur starfað hérlendis og erlendis sem dansari, hefur samið dans og danssýningar og tekið að sér leikstjórn ýmissa verka. Hún hefur m.a. hannað flugeldasýningar á menningarnótt og fyrir borgarhátíð í Barcelona og hannað listaverk. Verk hennar Eldblóm, dansverk fyrir flugelda og flóru opnaði á Listahátíð í Reykjavík 2020 í Hallargarðinum og var sett upp í þriðja sinn árið 2023 en þá sérstaklega til styrktar Krabbameinsfélaginu og bleiku slaufunni. Blómainnsetningin var afar táknræn og vakti verðskuldaða athygli en um var að ræða 8.000 bleik blóm sem sprungu út allt sumarið.

Sigríður Soffía gaf út sína fyrstu ljóðabók „Til hamingju með að vera mannleg“ í apríl 2023 og frumsýndi í framhaldi dansverk byggt á bókinni sem flutt var á stóra sviði Þjóðleikhússins af 7 leikkonum og dönsurum við tónlist frumsamda af Jónasi Sen. Verkið hlaut mikið lof og þrjár tilnefningar til Grímunnar. Þessu til viðbótar hefur Sigríður Soffía hlotið margar viðurkenningar á sínum ferli og sem dæmi þá hlaut verk hennar Svartar fjaðrir þrjár tilnefningar til Grímunnar árið 2015, hún hlaut menningarverðlaun DV fyrir eldar, fyrsta flugeldaverk sitt, vann til verðlauna á dansmyndahátíð í Bilbao á Spáni fyrir bestu dansstuttmyndina og hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2022, menningarverðlaun þvert á listgreinar, sem veitt voru af Forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni.

Sigríður Soffía sem búið hefur á Seltjarnarnesi ásamt fjölskyldu sinni í um fimm ár eru færðar innilegar hamingjuóskir með heiðursnafnbótina, Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2024 og munu Seltirningar að sjálfsögðu fá að njóta hæfileika hennar á árinu.

Þórdís Sigurðardóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarness, Sigríður Soffía Níelsdóttir Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2024 og Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri.

Á Bókasafni Seltjarnarness hefur verið sett upp örsýning til heiðurs Sigríði Soffíu Níelsdóttur sem mun standa út næstu viku og eru bæjarbúar hvattir til að líta við á safninu á næstu dögum og skoða áhugaverðar myndir og greinar um feril bæjarlistamannsins okkar árið 2024.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?