Fara í efni

Birna Hallgrímsdóttir bæjarlistamaður Seltjarnarness 2011

Birna Hallgrímsdóttir píanóleikari er bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2011.  Þetta er í fjórtánda sinn sem Seltirningar útnefna bæjarlistamann.

Birna Hallgrímsdóttir píanóleikari er bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2011.  Þetta er í fjórtánda sinn sem Seltirningar útnefna bæjarlistamann. Birna tók við nafnbótinni í dag við hátíðlega athöfn í Bókasafni Seltjarnarness þar sem Katrín Pálsdóttir formaður Menningar­nefndar Seltjarnarness afhenti henni heiðursskjal og starfsstyrk.

Þetta er í fjórtánda sinn sem Seltirningar útnefna bæjarlistamann, en það var gert fyrst árið 1996. Þá var það Gunnar Kvaran sellóleikari sem var bæjarlistamaður Seltjarnarness.

Birna Hallgrímsdóttir er fædd árið 1982. Hún hóf píanónám fimm ára gömul við Tónlistarskóla íslenska Suzuki sambandsins og Tónlistarskóla Kópavogs. Hún lauk námi við Listaháskóla Íslands vorið 2006. Eftir að hafa hlotið önnur verðlaun í Epta píanókeppninni á Íslandi sama ár þá lá leiðin til Lundúna, þar sem hún stundaði nám við Royal College of Music. Birna lauk meistaranámi árið 2009. Kennarar hennar í Lundúnum voru þeir Ian Jones og Gordon Fergus-Tompson. Á síðasta ári dvaldi hún í Noregi þar sem hún sótti tíma hjá Hakon Austbo.

Birna hélt fyrstu opinberu tónleika sína eftir námið í Lundúnum í Salnum í Kópavogi árið 2009. Þá hefur hún einnig haldið tónleika á Stokkalæk, í tónleikaröðinni Tónar við hafið og tónleika í Háskóla Íslands. Nýlega lék Birna Grieg píanókonsertinn með sinfóníuhljómsveit Unga fólksins.

Birna-vid-flygilinn

Birna hefur sótt sér þekkingu til heimsþekktra píanókennara á meistaranámskeiðum m.a. hjá Ann Schein, Nelitu True, Ian Hobson, Matti Reikallio, Stepan Houg, Einar-Steen Nokleberg og Staffan Scheja. Hún efur tekið þátt í alþjóðlegum píanókeppnum og tónlistarhátíðum og komið fram víðsvegar í Evrópu.

Birna-og-Katrin

Á þessu ári eru liðin tvöhundruð ár frá fæðingu ungverska tónskáldsins Franz Liszt og í fyrra var tvöhundruð ára fæðingarafmæli pólska tónskáldsins Frederik Chopins. Þessi tvö tónskáld eru í miklu uppáhaldi hjá Birnu Hallgrímsdóttur bæjarlistamanni Seltjarnarness. Hún hefur hug á því að kynna þessi tvö tónskáld fyrir Seltirningum á tónleikum á árinu.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?