Fara í efni

Ungmennaráð - Kynningarfundur

Miðvikudaginn 29. mars kl. 20.00 verður í Selinu haldinn kynningarfundur um Ungmennaráð Seltjarnarness fyrir öll áhugasöm, skoðanasterk og drífandi ungmenni á aldrinum 15+. Tekið verður á móti fundargestum með léttum veitingum og góðri stemningu.

Ungmennaráð sveitarfélaga eru vettvangur fyrir ungt fólk til að koma skoðunum sínum er varða sveitarfélagið á framfæri, auk þess að vera vettvangur þar sem ungmenni geta haft áhrif á þau málefni sem þau telja mikilvæg.

Í Æskulýðslögunum er lögð sérstök áhersla á að hvetja börn og ungmenni til virkrar þátttöku og frumkvæðis og þar segir að mikilvægt sé að stofna ungmennaráð í þeim tilgangi að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi.

Í innleiðingu Barnvæns samfélags er lögð rík áhersla á að Seltjarnarnesbær starfi eftir Barnasáttmálanum, sem fjallar um réttindi barna. Sáttmálinn skiptist niður í fjórar meginstoðir. Þær eru réttur til að þroskast og læra, réttur til lífs, réttur til þátttöku og réttur til verndar. Réttur til þátttöku er ein af grunnstoðum ungmennaráða og rétt barns til að mynda sér eigin skoðanir, tjá þær og fá áheyrn.

Nú stendur til að Seltjarnarnesbær endurveki starfsemi Ungmennaráðs, í sveitarfélaginu er saga um öflugt og virkt Ungmennaráð sem hlaut töluvert vægi í ákvörðunum innan bæjarins.

Kynningarfundur, miðvikudaginn 29. mars kl. 20:00 í Selinu fyrir öll áhugasöm, skoðanasterk og drífandi ungmenni á aldrinum 15+. Tekið verður á móti fundargestum með léttum veitingum og góðri stemningu. 

 

Örfá dæmi um hvað ungmennaráð á Íslandi hafa gert:

  • Komið á bættri aðstöðu í sveitarfélaginu.
  • Látið bæta við ljósastaurum.
  • Stofnað æskulýðssjóð þar sem ungmenni geta sótt um styrk.
  • Opnað og starfrækt ungmennahús.
  • Bætt aðstöðu í félagsmiðstöðvum og skólum.
  • Komið af stað fleiri viðburðum fyrir ungmenni.
  • Staðið fyrir viðburðum fyrir eldri borgara.
  • Bætt samgöngur, til dæmis tímaáætlanir Strætó.
  • Barist fyrir breytingum.
  • Fengið áheyrnarfulltrúa í nefndir sveitarfélagsins.
  • Stuðlað að ódýrari afþreyingu fyrir ungt fólk.
  • Talað fyrir breyttum kennsluháttum.
  • Spornað við plastpokanotkun.
  • Haldið ráðstefnur.
  • Heimsótt önnur ungmennaráð innlendis og erlendis.
  • Tekið þátt í verkefnum og ráðstefnum innlendis og erlendis

Nánari upplýsingar veitir Ása Kristín Einarsdóttir, verkefnastjóri frístunda- og forvarnarstarfs Seltjarnarnesbæjar


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?