Sterkur grunnrekstur Seltjarnarnesbæjar þrátt fyrir áskoranir í mikilvægum málaflokkum. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðu Seltjarnarnesbæjar verði jákvæð um 115 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 920 m.kr. á samstæðuna.
Helstu atriði:
- Gjörbylting í leikskólamálum með nýjum leikskóla árið 2027
- Endurnýjun skólahúsnæðis grunnskólanna á lokastigi eftir mygluframkvæmdir
- Gert er ráð fyrir 115 milljón króna jákvæðri niðurstöðu A- og B-hluta árið 2026
- Veltufé frá rekstri samstæðu er 920 milljónir króna, eða 11,1%
- Fasteignaskattar eru 0,166 % sem er með því lægsta á landinu
- Sterkar útsvarstekjur þrátt fyrir lægstu útsvarsprósentu á landinu
- Skuldaviðmið verður 91% en má mest vera 150%
- Bætt afkoma veitustofnana bæjarins
- Í undirbúningi er uppbygging á þróunarreit við Suðurströnd og Eiðistorg
- Fyrirhuguð er sala á bæjarskrifstofum að Austurströnd 2 og flutt hefur verið í hentugra húsnæði
- Áframhaldandi áhersla á trausta og góða grunnþjónustu fyrir jafnt yngstu sem elstu íbúa bæjarins
Lágir skattar en sterkur grunnrekstur:
Lágar álögur og sterkur grunnrekstur einkennir fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2026. Á höfuðborgarsvæðinu er útsvarsprósentan lægst hjá Seltjarnarnesbæ og álagningarstuðull fasteignaskatts jafnframt einn sá lægsti á landinu. Veltufé frá rekstri er áætlað 920 milljónir króna sem gefur svigrúm til áframhaldandi uppbyggingar. Skuldahlutfall er áætlað 114% sem er töluvert undir viðmiðum laga. Afkoma samstæðu bæjarins er áætluð 115 milljónir króna en reynt verður að gera enn betur með frekari hagræðingu. Þá er gert ráð fyrir lántökum samfara byggingu nýs og glæsilegs leikskóla, Undrabrekku, sem verður tekinn í notkun haustið 2027.
Hér eftir sem áður er lögð höfuðáhersla á hagkvæman rekstur með ábyrgð og virðingu fyrir skattfé bæjarbúa að leiðarljósi. Við höfum frá upphafi þessa kjörtímabils leitað leiða til að hagræða í rekstri og ber fjárhagsáætlun þess merki áfram næstu árin. Þessar aðgerðir hafa styrkt grunnrekstur bæjarfélagsins til muna á sama tíma og kröfur um þjónustu fara vaxandi.
Í skólamálum er horft til áframhaldandi eflingar á þjónustu og innleiðingar nýrra úrræða til að styrkja nám og vellíðan barna, meðal annars með samræmdum stöðu- og framvinduprófum fyrir alla nemendur í 4.-10. bekk og nýju fyrirkomulagi í leikskólunum sem ætlað er að bæta náms- og starfsumhverfið, styrkja samkeppnishæfni þeirra og tryggja stöðu þeirra í fremstu röð.
Í málaflokki eldri borgara er og verður áfram lögð áhersla á að efla hreyfingu og almenna vellíðan, til dæmis með hinu vel heppnaða verkefni Frísk í Gróttu. Einnig höfum við eflt matarþjónustu eldri borgara. Breyting verður gerð á sorphirðugjaldi í samræmi við lagasetningu og greiða heimili og stofnanir eftir fjölda íláta.
Áframhaldandi uppbygging:
Ráðist var í byggingu nýs leikskóla á árinu. Þetta er langstærsta verkefni bæjarins á komandi ári. Tilgangur þessa langþráða verkefnis er margþættur. Með nýjum leikskóla verður mögulegt að lækka inntökualdur, fækka starfsstöðvum og sameina leikskólann á eitt svæði. Þetta mun gjörbreyta aðstöðu nemenda og starfsfólks. Áætluð verklok eru sumarið 2027. Kostnaður næsta árs vegna framkvæmdarinnar er áætlaður 730 milljónir króna og heildarkostnaður verksins um 1,5 milljarðar króna.
Gert er ráð fyrir að undirbúningur að þróun á byggingarreitum bæjarins við Austurströnd og Eiðistorg hefjist innan tíðar. Unnið verður áfram að viðhaldi á húsnæði bæjarins, leiksvæðum og skólalóðum. Bæjarskrifstofur hafa flutt að Austurströnd 5 og hefur eldra húsnæði verið sett á sölu. Eftir áramót opnar félagsmiðstöðin Selið á nýjum stað í kjallara Valhúsaskóla og ríkir mikil ánægja með þá breytingu. Umferðaröryggismál hafa verið í brennidepli á kjörtímabilinu. Gatnalýsing bæjarins hefur verið endurnýjuð og LED-vædd. Unnið er að breytingum á Norðurströnd sem munu auka umferðaröryggi þar til mikilla muna.
Á næsta ári verður áfram unnið að viðhaldi gatna og stíga ásamt nauðsynlegum endurbótum á veitukerfum bæjarins. Þá verður áfram veittur öflugur stuðningur við íþróttafélög bæjarins.
Horfum bjartsýn til framtíðar:
„Áætlun ársins sýnir áfram þann viðsnúning sem er að eiga sér stað í rekstri bæjarins eftir áskoranir síðustu missera. Verðbólga og vextir eru að lækka og kjarasamningaviðræður eru til lykta leiddar sem dregur úr óvissu næstu ára. Við sjáum fyrir endann á endurnýjun beggja skólabygginga grunnskólanna og hafin er metnaðarfull uppbygging nýs leikskóla auk innleiðingar breytts leikskólalíkans í takti við breyttar aðstæður.
Við göngum stolt inn í árið 2026 með ábyrg fjármál og útsjónarsemi að leiðarljósi. Árið 2026 er kosningaár og erum við bjartsýn á hagsæld bæjarfélagsins. Markmið okkar er að íbúar séu ánægðir með veitta þjónustu og störf okkar fyrir bæinn. Við munum gera okkar allra besta til að svo megi verða áfram" segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri.