Hann var þéttsetinn bekkurinn í Gallerí Gróttu í gærkvöldi þegar að íbúum var boðið upp á kynningarfund Umhverfisnefndar um tillögu að nýjum friðlýsingarskilmálum Gróttu og Seltjarnar og nýrri afmörkun friðlandsins við Gróttu.
Grétar Dór Sigurðsson formaður umhverfisnefndar Seltjarnarness stýrði fundinum og hélt í upphafi kynningu á tillögunni, aðdraganda hennar, fyrri ákvarðanir, verndargildið og hvað tillagan kann að fela í sér. Jóhann Óli Hilmarsson fuglavísindamaður hélt í framhaldi erindi um fuglalífið á svæðinu, verndargildi þess m.t.t. fæðuöflunar fugla, hvíldarstað þeirra í Seltjörninni sem og sagði hann frá sjaldgæfum fjörumó og setlögum sem finnast á svæðinu.
Davíð Örvar Hansson hjá Náttúruverndarstofnun fór að lokum nánar yfir friðlýsingarferlið og tillöguna sem liggur til samþykktar hjá bæjarstjórn. Upplýsti um næstu skref hvort sem að tillagan eins og hún liggur fyrir verður samþykkt eða henni hafnað af bæjarstjórn. Verði tillagan samþykkt og friðlandið stækkað þá heldur friðlýsingarferlið áfram og endar með staðfestingu Umhverfis- og auðlindaráðherra. Verði framlagðri tillögu (með Seltjörn) hins vegar hafnað af bæjarstjórn þá verður sú tillaga sem felur í sér endurskoðun á núverandi friðlýsingarskilmálum, miðað við núgildandi afmörkun friðlandsins Gróttu frá 1984, lögð fyrir bæjarstjórn til samþykktar.
Að kynningunum loknum var boðið upp á spurningar frá fundargestum sem framsögumenn leituðust við að svara. Fjölmargir spurðu og sköpuðust miklar umræður enda ljóst að skoðanir bæjarbúa eru mjög skiptar í þessu máli. Allir voru þó sammála um að kynningin í heild sinni var greinargóð og afar nauðsynleg enda um að ræða málefni er varðar Seltirninga og Seltjarnarnes til framtíðar.




