Í ljósi þess óvissustigs sem nú er í gildi vegna kórónaveiru (2019-nCoV) funduðu fulltrúar Almannavarnanefndar SHS í vikunni með neyðarstjórn Seltjarnarnesbæjar sem fær reglulega upplýsingar um stöðu mála.
Þann 31. janúar sl. var neyðarstjórn Seltjarnarnesbæjar kölluð saman í framhaldi af fundi Almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins. Fundirnir voru haldnir að beiðni sóttvarnalæknis vegna þess óvissustigs sem nú er í gildi vegna kórónaveiru (2019-nCoV). Tilgangurinn var að hefja strax undirbúning að viðbrögðum vegna veirunnar og virkja viðbragðsáætlanir.
Mánudagsmorguninn 3. febrúar komu þau Jón Viðar Matthíasson Slökkviliðsstjóri og Þóra K. Ásgeirsdóttir deildarstjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins svo á fund neyðarstjórnar Seltjarnarnesbæjar til að fara betur yfir stöðu mála. Þau áttu sambærilega fundi með neyðarstjórnum allra sveitarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu. Á fundinum var fyrst og fremst verið að stilla saman strengi, tryggja að allir væru á sömu blaðsíðu er varðar óvissustigið, hvað í því felst og ef aðstæður myndu breytast til hins verra. Upplýsingamiðlun var rædd, með hvaða hætti hún ætti að vera sem og réttar boðleiðir og tengiliðir.
Bent er á heimasíðu Landlæknis https://www.landlaeknir.is/ en þar er að finna ítarlegar upplýsingar um kórónaveiruna, einkenni, forvarnir og fleira. Stöðugt uppfærð síða af hálfu Landlæknisembættisins.