Fara í efni

Guðrún Einarsdóttir myndlistarkona Bæjarlistamaður Seltjarnarness 1999

GUÐRÚN Einarsdóttir, myndlistarkona, hefur verið valinn bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 1999. Þetta er í fjórða sinn sem valinn er bæjarlistamaður Seltjarnarness en menningarnefnd Seltjarnarness stendur fyrir vali bæjarlistamannsins.

Tilgangurinn með vali bæjarlistamanns sé að styðja listamenn búsetta á Seltjarnarnesi til frekari dáða á menningar- og listasviðinu og veita þeim viðurkenningu fyrir framlag sitt til bæjarfélagsins með listsköpun sinni. Tilnefningu bæjarlistamanns fylgir 400 þúsund króna starfsstyrkur.

Verk Guðrúnar eru abstrakt landslagsmyndir, ekki frásagnir af landslagi heldur hlutgervi sjálfrar náttúrunnar. Guðrún hefur skapað sér sérstakan og persónulegan stíl við túlkun náttúrunnar og þeim græðandi og gefandi krafti sem í henni er. Í undirbúningi hjá henni er vinna að þrívíðari verkum samhliða málverkinu úr ólíkum efnum, s.s. gifsi, steypu og járni.

Guðrún Einarsdóttir hefur getið sér gott orð sem myndlistarkona og er verk hennar víða að finna. Hún er fædd árið 1957. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík árin 1984- 1986 og við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984-1989, við málaradeild og fjöltæknideild. Guðrún hefur stundað myndlist síðustu 10 ár. Guðrún hefur haldið fjölmargar sýningar á verkum sínum, bæði einka- og samsýningar hér á landi og erlendis. Framundan er samsýning "Carnegie Art Award-Nordic Painting" á málverkum eftir norræna myndlistarmenn í Oslo, Helsinki, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Reykjavík, auk Lundúna. Einnig hefur henni verið boðin þátttaka í "Nordisk Kunst í Kína" í Bejjing og Shanghai á næsta ári.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?