Fara í efni

Helgi Hrafn Jónsson bæjarlistamaður Seltjarnarness 2015

Helgi Hrafn Jónsson tónlistarmaður var föstudaginn 13.febrúar útnefndur Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2015. Hann ánafnar verðlaunafénu til Tónlistarskóla Seltjarnarness.

Helgi Hrafn Jónsson tónlistarmaður var föstudaginn 13.febrúar útnefndur Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2015. Hann ánafnar verðlaunafénu til Tónlistarskóla Seltjarnarness.

Helgi Hrafn Jónsson er einn þeirra íslensku listamanna sem hefur átt mikilli velgengni að fagna í hinu alþjóðlega tónlistarumhverfi undanfarna áratugi og hefur starfað bæði í Evrópu og Norður Ameríku. Nú í febrúar var frumsýnt nýtt verk Falk Richters við Borgarleikhúsið í Frankfurt sem Helgi Hrafn samdi tónlist við í samstarfi við Valgeir Sigurðsson. Árið 2012 samdi Helgi Hrafn tónlist við verkið For the Disconnected Child, sem pantað var af Þjóðaróperunni í Berlín og er hann jafnframt einn þátttakenda í sýningunni sem söngvari og hljóðfæraleikari. Sýningin er nú að hefja sitt fjórða starfsár og hefur m.a. hlotið verðlaun sem besta leiksýningin í Berlín. 

Helgi Hrafn hefur gefið út sex plötur með eigin verkum þar sem hann syngur og leikur ýmist á gítar eða píanó. Eru það Glóandi (2005), Aska EP (2008), For the Rest of my Childhood (2008), Kví, kví EP (2009), Blindfolded EP (2010) og Big Spring (2011).

Á síðastliðnum sjö árum hefur Helgi komið fram á um það bil 300 tónleikum í Evrópu og Norður-Ameríku ásamt danskri eiginkonu sinni, Tinu Dickow. Í sameiningu hafa þau unnið að sjö hljómplötum og samið tónlist fyrir dönsku myndirnar Old Boys (2009) og Someone You Love (2014) sem færði þeim í tvígang dönsku kvikmyndaverðlaunin fyrir tónlistina.

Helgi hefur starfað með fjölmörgum hljómsveitum og tónlistarmönnum, bæði sem hljóðfæraleikari og söngvari en einnig sem meðhöfundur, útsetjari og upptökustjóri. Má þar nefna hljómsveitina Rökkurró, Kammerhljómsveit danska ríkisútvarpssins, Damien Rice, Dzihan & Kamien, Boy, Philipp Steinke, Glen Hansard, Ane Brun, Teitur, Nico Muhly, Funkstörung, Philipp Poisel, Sam Amidon, Ben Frost, Wild Birds and Peacedrums og Valgeir Sigurðsson.

Helgi Hrafn er nítjándi Seltirningurinn til að hljóta nafnbótina Bæjarlistamaður Seltjarnarness en hann hefur verið búsettur á Seltjarnarnesi frá unga aldri.

Við útnefninguna tilkynnti Helgi Hrafn að hann hyggðist ánafna verðlaunafénu að upphæð einni milljón króna til Tónlistarskóla Seltjarnarness, sem lagt hefur hornstein að þeim ferli sem hann á að baki sem tónlistarmaður. Þá tilkynnti hann einnig að hann og eiginkona hans Tina Dickow myndu halda tónleika á Seltjarnarnesi í apríl. Aukinheldur hyggst hann semja tónlist og standa að flutningi hennar á Menningarhátíð Seltjarnarness í október næstkomandi.

Að mati menningarnefndar Seltjarnarness er Helgi Hrafn Jónsson afar vel að útnefningu Bæjarlistamannsins kominn. Jafnframt er það mikið fagnaðarefni að hann skuli, þrátt fyrir glæstan frama í hinum alþjóðlega tónlistarheimi, enn halda tryggð við samfélagið sem ól hann upp og mótaði. Þá er Helga Hrafni sérstaklega þakkað hið höfðinglega framlag hans  sem ungt og efnilegt tónlistarfólk við Tónlistarskóla Seltjarnarness mun án efa njóta góðs af. Enn fremur sýnir hann bæjarfélaginu mikinn heiður með smíðum og frumflutningi á nýju tónverki á árinu auk tónleikahalds í bænum með hinni einstöku söngkonu Tinu Dickow.

Helgi Hrafn Jónsson
Helgi Hrafn Jónsson fæddist í Reykjavík árið 1979 og hóf 6 ára gamall tónlistarnám við Tónlistarskóla Seltjarnarness þar sem hann lærði á básúnu, lengst af undir handleiðslu Kára Einarssonar. Ásamt því að taka virkan þátt í starfi Lúðrasveitar Seltjarnarness var Helgi frá tíu ára aldri meðlimur í hljómsveitinni Bossanova-bandið. Þrátt fyrir ungan aldur hljómsveitarmeðlima náðu þeir talsverðum vinsældum og fengu ótal tækifæri til að koma fram bæði hér heima og erlendis sem var þeim gott veganesti.

Fjórtán ára gamall hóf Helgi Hrafn nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Oddi Björnssyni básúnuleikara. Þaðan útskrifaðist hann með einleikarapróf vorið 1999, þá nítján ára gamall og lék af því tilefni básúnukonsert Henri Tomasi með Sinfóníuhljómsveit Íslands. 
Á þessum árum söng Helgi Hrafn með Hamrahlíðarkórnum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur og lék verkið Íslenskt Rapp fyrir básúnu og kór eftir Atla Heimi Sveinsson bæði hér heima og á kórferðum erlendis.

Haustið 1999 fluttist Helgi Hrafn til Austurríkis þar sem hann átti eftir að dvelja næstu átta árin. Hann nam básúnuleik við Tónlistarháskólann í Graz, hjá Prof. Carsten Svanberg og Prof. Ed Neumeister og útskrifaðist þaðan með Magistergráðu vorið 2004. Á námsárunum sínum hóf Helgi að starfa með ýmsum tónlistarmönnum og hljómsveitum. Ber þar að nefna Jazz Big Band Graz og hljómsveitina Beefolk, en sú síðarnefnda gerði það gott á tónleikaferðum um Evrópu og hélt einnig tónleika í Asíu og tvívegis á Íslandi.

Árið 2005 var vendipunktur í ferli Helga Hrafns þegar hann gaf út sína fyrstu sólóplötu sem söngvari og lagahöfundur. Árin 2005 til 2010 ferðaðist hann mikið með eigin tónlist og hljómsveitum á borð við Sigur Rós, færeyska tónlistarmanninum Teiti og íslensku útgáfunni Bedroom Community.

Helgi býr nú og starfar á Seltjarnarnesi ásamt konu sinni Tinu Dickow og tveimur ungum börnum. Hann vinnur nú m.a. að nýrri sóló plötu sem kemur út um mitt árið.

Tina Dickow og Helgi Hrafn Jónsson


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?