Fara í efni

Herdís Tómasdóttir Bæjarlistamaður Seltjarnarness 1997

HERDÍS Tómasdóttir, myndlistarmaður, hefur verið valin bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 1997. Herdís er annar Seltirningurinn sem hlýtur þessa viðurkenningu en það er Lista­ og menningarsjóður Seltjarnarness sem stendur fyrir vali bæjarlistamanns.

Herdís er annar Seltirningurinn sem hlýtur þessa viðurkenningu, en í fyrra var Gunnar Kvaran sellóleikari valinn bæjarlistamaður. Það er Lista­ og menningarsjóður Seltjarnarness sem stendur fyrir vali bæjarlistamanns, en í ár sóttu 11 manns um viðurkenninguna. Valur Valsson er formaður Lista­ og menningarsjóðs Seltjarnarness.

Tilgangurinn með vali bæjarlistamanns er að styðja listamenn búsetta á Seltjarnarnesi til frekari dáða á menningar­ og listasviðinu. Bæjarlistamaður ársins hlýtur 400 þúsund króna starfsstyrk úr bæjarsjóði. Styrkinn hyggst Herdís nota til þess að vinna áfram að útfærslu á hugmyndum sínum, sem byggðar eru á hefðbundnum vefnaði, sem hún hefur sýnt t.d. með svokölluðum "transparent" vefnaði, tvöföldum vefnaði og notkun nýrra efna við vefnað. Hún ætlar að kynna árangurinn með myndlistarsýningu.

Herdís Tómasdóttir hefur getið sér gott orð sem veflistarmaður og hefur verið virk í myndlistarlífi landsmanna í fjölda ára. Undanfarin ár hefur hún unnið mest við myndvefnað. Hún er fædd í Reykjavík árið 1945 og hefur lagt stund á myndlistarnám í ýmsum skólum, þ.á m. var hún í textíl­ og vefnaðarkennaradeild Myndlista­ og handíðaskóla Íslands á árunum 1981 til 1985. Árið 1992 lauk Herdís BA prófi frá Háskóla Íslands í bókasafns­ og upplýsingafræði, þjóðfræði og listasögu. Herdís hefur tekið þátt í mörgum samsýningum á Íslandi og erlendis.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?