Fara í efni

Jóhann Helgason er bæjarlistamaður Seltjarnarness 2007

Jóhann Helgason var síðast liðinn laugardag útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness 2007. Jóhann er löngu landskunnur sem einn fremsti lagahöfundur og flytjandi landsins. Útgefin lög hans og textar eru vel yfir þrjú hundruð talsins, bæði í eigin flutningi og annarra.
Jóhann Helgason tónlistarmaður
Jóhann Helgason tónlistarmaður

Fjölmörg laga hans hafa náð víðtækri hylli svo sem Ástin og lífið, Karen, Ég gef þér allt mitt líf, Ástin og lífið, Seinna meir og Í Reykjavíkurborg. Þá hefur lag hans Söknuður verið hljóðritað a.m.k. 47 sinnum á hljómplötur og diska með fjölbreyttum hópi flytjenda. Jóhann á að baki farsælan sólóferil en einnig hefur hann starfað með ýmsum hljómsveitum og flytjendum s.s. Magnús og Jóhann, Change, Poker, Þú og Ég. Jóhanni hafa hlotnast ýmsar viðurkenningar og verðlaun hér á landi og erlendis á ferli sínum og var fyrstur íslenskra tónlistarmanna til að skrifa undir höfundarsamning erlendis.

Í ræðu sinni sagði Sólveig Pálsdóttir formaður menningarnefndar Seltjarnarness Jóhann hafa unnið að list sinni af einurð og lítillæti. Hann hefði náð þeim árangri að verk hans væru gjarnan valin til að hugga fólk á mestu sorgarstundum lífs þess sem og til að fagna hinum stærstu hamingjustundum. Enda hefðu mörg þeirra fest rætur í þjóðarsálinni.

Jóhann Helgason hefur búið á Seltjarnarnesi frá árinu 1981. Við athöfnina frumflutti hann ásamt Reyni Jónassyni og Bjarna Sveinbjörnssyni nýtt lag sem ber heitið Seltjarnarnesið. Textinn er eftir Kristján Hreinsson en Kristján á ættir að rekja á Nesið. Laginu sem var sérstaklega samið fyrir þetta tilefni var einstaklega vel tekið og voru viðstaddir ekki lengi að læra viðlagið. Varð mörgum að orði að Seltirningar væru búnir að eignast sinn eigin þjóðsöng.

Texti lagsins er svona:

SELTJARNARNESIÐ

Hér mannlífið var fjörugt forðum daga,
hér fæddist bæði löng og markverð saga,
þá réru menn til sjós frá Vesturvík.
Hér lifði fólkið indæl ævintýri
við Odda, Bygggarð, Teig og Grænumýri.
Á Nesinu var ævin engu lík.
Er fortíð í sædjúpi sefur
og sögurnar mannfólkið les
þá tilgang í heiminum hefur
hið himneska Seltjarnarnes.

Því þó að stundum norðanbálið blési
var besta veðrið jafnan út' á Nesi,
þá heyrðist vel í gargönd eða álft.
Svo bjó í öllu fólki himnesk hlýja
er heiðríkjuna skreytti fjörug kría.
Við tjarnir mátti líta lífið sjálft.
Er fortíð í sædjúpi sefur
og sögurnar mannfólkið les
þá tilgang í heiminum hefur hið himneska Seltjarnarnes.

Hér komu menn á land með væna veiði
í víkurnar hjá Sækambi og Eiði,
hér fundu menn í hugsjón mikinn mátt.
Og ennþá lifir von sem gefur gæsku
og glæsta framtíð veitir þeirri æsku
sem núna skynjar heimsins hjartaslátt.
Er fortíð í sædjúpi sefur
og sögurnar mannfólkið les
þá tilgang í heiminum hefur
hið himneska Seltjarnarnes.

Við sjáum rætast draum að degi og nóttu
er drifhvít skýin læðast yfir Gróttu.
Í huga vonarljósið lifir skært,
að börnin megi fagna fögru lífi,
að fuglar himins yfir Nesið svífi,
að dafni það sem okkur er svo kært.
Er fortíð í sædjúpi sefur
og sögurnar mannfólkið les
þá tilgang í heiminum hefur
hið himneska Seltjarnarnes.

Lag Jóhann Helgason / Ljóð Kristján Hreinsson

 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?