Fara í efni

Kristín G. Gunnlaugsdóttir er bæjarlistamaður Seltjarnarness 2008

Kristín G. Gunnlaugsdóttir myndlistamaður var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness 2008 við hátíðlega athöfn á Bókasafni Seltjarnarness laugardaginn 12. janúar.

Það er menningarnefnd Seltjarnarness sem stendur fyrir valinu á bæjarlistamanni Seltjarnarness og er Kristín tólfti listamaðurinn sem hlýtur nafnbótina. Fyrri bæjarlistamenn eru Gunnar Kvaran sellóleikari, Herdís Tómasdóttir veflistakona, Ragna Ingimundardóttir leirlistakona, Guðrún Einarsdóttir myndlistarkona, Messíana Tómasdóttir myndlistarkona, Bubbi Morthens tónlistarmaður, Margrét Helga Jóhannsdóttir leikkona, Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari, Sigríður Þorvaldsdóttir leikkona og Jóhann Helgason tónlistarmaður sem er fráfarandi bæjarlistamaður.

Í ávarpi Sólveigar Pálsdóttur, formanns menningarnefndar kom fram að þær umsóknir sem bárust nefndinni hefðu verið margbreytilegri nú en oft áður og stóð nefndin frammi fyrir vandasömu vali á milli fjölhæfra listamanna. Í umsögn sinni um verk Kristínar Gunnlaugsdóttur sagði Sólveig verkin jarðnesk og ójarðnesk í senn í fegurð sinni. Í þeim væru skýrar línur, hreinir litir, kyrrð, staðar-og tímaleysi, rökfærsla á eigin forsendum. Sólveig kvað það einlæga von menningarnefndar að viðurkenningin myndi efla, styrkja og hvetja Kristínu til enn frekari dáða.

Er Kristín tók við viðurkenningunni ásamt 600 þúsund króna fjárstyrk sagðist hún ætla að heimsækja skóla bæjarins með það fyrir augum að kynna börnum og unglingum hvernig myndlistarmaður vinnur. Sýna þeim hvernig maður býr til málverk frá grunni, blandar liti og hugsar sér mynd. Hvernig hugmyndir fæðast og þroskast, hvernig þær eru unnar og færðar yfir á myndflötinn. Erfiðleikana í vinnslunni, áhættuna sem þarf að taka og hvernig maður þarf að vera sjálfum sér trúr. Sýna þeim inn í raunveruleika listamannsins, fjárhagslega áhættu og félagslega einsemd.

Kristín er fædd á Akureyri þann 15. apríl 1963. Foreldrar hennar voru Gunnlaugur P. Kristinsson fræðslufulltrúi Kaupfélagi Eyfirðinga á Akureyri og Gunborg Kristinsson bókavörður, fædd í Svíþjóð. Kristín hefur verið starfandi myndlistarmaður í 20 ár. Hún hefur búið og unnið að list sinni á Seltjarnarnesi frá vori 2004.

Kristín stundaði nám við Myndlistarskólann á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands, nam ikonamálun í eitt ár í klaustri í Róm áður en við tók 5 ára nám við Ríkisakademíuna í Flórens á Ítalíu (sjá nánar í meðfylgjandi fylgiskjali).

Verk Kristínar fjalla einna helst um stöðu mannsins í samfélaginu við aðra menn og vegferð hans í gegnum lífið, sálarlíf og þörf fyrir æðri tilgang.

Nánari upplýsingar á vefsíðu Kristínar: www.kristing.is

Við athöfnina komu einnig fram Björg Þórhallsdóttir óperusöngkona og Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari.

Kristín G. Gunnlaugsdóttir Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2008

Menntun:

1975 - 1983 Námsskeið í myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri.

1983 - 1984 Fornámsdeild í Myndlistaskólanum á Akureyri.

1984 - 1987 Myndlista- og handíðaskóli Íslands.

1987 - 1988 Íkonagerð í klaustri í Róm, Ítalíu.

1988 - 1993 Ríkisakademían í Flórens, Ítalíu.

Oro e colore, Laboratorio scuola, Flórens Ítalíu.

Einkasýningar:

1989 Kapella Akureyrarkirkju.

1991 Listasalnum Nýhöfn, Reykjavík.

1992 Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.

1994 Íkonasýning í Hallgrímskirkju.

1995 Listasafn Reykjavíkur, Kjarvalsstaðir.

1996 Gallerí Gangurinn, Reykjavík.

Listasafnið á Akureyri.

Slunkaríki, Ísafirði.

2000 Hallgrímskirkja.

2005 Listasafn Reykjanesbæjar.

Helstu samsýningar:

1987 "Þrír ungir myndlistarmenn" Skemman, Akureyri.

1990 Kirkjulistavika í Akureyrarkirkju.

1992 Ríkisakademían í Flórens.

1993 Opnun á Listasafni Akureyrar.

1994 "Expo", Fiera di Bari, Ítalíu.

Barbagianni, Toscanahérað, Ítalíu.

Íslensk portrett, Hafnarborg, Hafnarfirði.

1997 Nordic Institute for Contemporary Art, Vigeland museum, Oslo.

1998 Sýning um Þorlák helga, Hallgrímskirkja, Reykjavík.

1998 ic-art, Los Angeles,U.S.A.

2000 Gerðuberg "Þetta vil ég sjá".

2000 Kjarvalsstaðir "Gullni pensillinn".

2001 Vídalínskirkja, Garðabæ.

2002 "Akureyri í myndlist" Listasafn Akureyrar.

2002 Carnegie Art Award 2002, Reykjavík, Osló, Kaupmannahöfn, London, Helsinki, Gautaborg.

2002 Gullpenslarnir, Listasafn Reykjanesbæjar.

Styrkir og viðurkenningar:

1987 Listasjóður Kaupfélags Eyfirðinga, Akureyri.

1991 Styrkur frá Menntamálaráðuneyti v/freskunáms við Ríkisakademíuna í Flórens.

1992 Listamannalaun frá Menntamálaráðuneytinu.

1995 Vann samkeppni um verk í Vesturbæjarapóteki.

1996-1997 Listamannalaun sem bæjarlistamaður Akureyrar.

1997 Styrkur úr minningarsjóði Svavars Guðnassonar.

1999 Listamannalaun frá Menntamálaráðuneytinu.

2002-2003 Listamannalaun frá Menntamálaráðuneytinu.

Verk í eigu:

Listasafn Íslands. Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Akureyrar,

Listasafn Háskólans, Listasafn Hallgrímskirkju, Listasafn Reykjanesbæjar,

Landsspítalinn, Landakotsspítali, Sjúkrahús Reykjavíkur, Hjúkrunarheimili Kópavogs, Flugmálastjórn,Flugleiðir, Stykkishólmskirkja og fjölda einstaklinga og fyrirtækja.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?