Skóflustungur barnanna marka langþráð tímamót og framkvæmdir nú formlega hafnar við byggingu nýs leikskóla á Seltjarnarnesi
Mikil hátíðarstund var á Seltjarnarnesi í morgun þegar að leikskólabörn tóku fyrstu skóflustunguna að Undrabrekku, nýjum leikskóla á Seltjarnarnesi. Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri tók svo aðra skóflustunguna með börnunum og flutti nokkur orð bæði til barnanna og til eldri gesta sem fylgdust spenntir með athöfninni enda merk tímamót sem beðið hefur verið eftir í bæjarfélaginu. Að lokinni hátíðarathöfninni fóru börnin hvert á sína deildina og fengu ávaxtastangir í tilefni dagsins.
Árið 2018 var haldin hönnunarsamkeppni um byggingu nýs leikskóla sem að Andrúm arkitektar unnu og hefur vinningstillagan verið þróuð áfram. Nýr leikskóli verður byggður á núverandi leikskólalóð við Suðurströnd 1 og verður húsið um 1700 fermetrar að stærð. Það verður að hluta til á tveimur hæðum og kemur til með að tengjast núverandi leikskólabyggingu með tengigangi. Útboð vegna byggingar nýs leikskóla fóru fram í sumar og bárust fjölmörg tilboð í framkvæmdina. Að undangenginni áreiðanleikakönnun var tilboði verktakafyrirtækisins Aðalvík tekið en auk þess að vera með lægsta tilboðið hefur Aðalvík góða reynslu af byggingu leikskóla.
Með fyrstu skóflustungunni var framkvæmdinni formlega hrint af stað og mun bygging hússins taka um 2 ár en stefnt er að verklokum sumarið 2027.

Þór bæjarstjóri spjallaði við leikskólabörnin og sagði frá nýja leikskólanum sem mun rísa áður en að skóflustungan var tekin.

Fulltrúar bæjarins og leikskólastjórnendur fagna langþráðum tímamótunum ásamt fulltrúum Aðalvíkur, VSÓ og Andrúm arkitektum.


