Fara í efni

Margrét Helga Jóhannsdóttir, leikkona, valin bæjarlistamaður Seltjarnarness fyrir árið 2004

Nýr bæjarlistamaður Seltjarnarness var útnefndur þann 10. janúar s.l. í hófi sem haldið var í nýju og glæsilegu húsnæði Bókasafns Seltjarnarness. Fyrir valinu varð Margrét Helga Jóhannsdóttir leikkona sem tekur við nafnbótinni af tónlistarmanninum Bubba Morthens.

Margrét Helga sagði m.a. í þakkarræðu sinni að hún liti svo á að ekki væri aðeins verið að heiðra hana heldur einnig þá listgrein sem hún stendur fyrir. Leiklistin hefði á stundum verið hálfgerð hornreka þegar kæmi að viðurkenningum á borð við þessa enda list augnbliksins. Hún þakkaði síðan enn frekar fyrir sig með því að syngja ásamt Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur dúett úr söngleiknum Chicago sem frumsýndur verður innan skamms í Borgarleikhúsinu.

Í máli Sólveigar Pálsdóttur, formanns menningarnefndar Seltjarnarness kom fram að valið hefði staðið á milli margra framúrskarandi listamanna. Margrét Helga sem búsett hefur verið á Seltjarnarnesi í 6 ár hefur leikið hátt í 200 hlutverk á sviði, í útvarpi, sjónvarpi og í kvikmyndum. Þá hefur hún leikið fleiri hlutverk í verkum Halldórs Laxness en nokkur annar leikari. Margrét Helga fékk Eddu-verðlaunin 1999 fyrir leik sinn í kvikmyndinni Englar alheimsins. Sólveig sagði markmiðið með útnefningu bæjarlistamanns vera að hvetja, styrkja og efla listamanninn til frekari dáða í list sinni, sem og að þakka fyrir framlag hans. Þá er þess vænst að listamaðurinn leggi sitt af mörkum til að efla listalíf bæjarins á því ári sem hann ber titilinn.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?