Fara í efni

Messíana Tómasdóttir Bæjarlistamaður Seltjarnarness 2001

MESSÍANA Tómasdóttir hefur verið valin bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2001. Þetta er í sjötta sinn sem valinn er bæjarlistamaður Seltjarnarness, en menningarnefnd Seltjarnarness stendur fyrir vali bæjarlistamannsins.

Tilgangurinn með vali bæjarlistamanns er að styðja listamenn búsetta á Seltjarnarnesi til frekari dáða á menningar- og listasviðinu og veita þeim viðurkenningu fyrir framlag sitt til bæjarfélagsins með listsköpun sinni.

Messíana Tómasdóttir er mjög fjölhæfur listamaður sem hefur á ferli sínum sett upp fjölmargar leiksýningar og leikstýrt, haldið myndlistasýningar ásamt því að hanna leikmyndir og búninga í fjöldamargar sýningar í leikhúsum.

Messíana er fædd árið 1940. Hún stundaði nám í grafík, textíl, leikmyndateiknun og almennri myndlist í Færeyjum, Danmörku og hér á Íslandi á árunum 1965-1970. Hún hefur sett upp eigin leiksýningar og óperur, haldið einkasýningar og samsýningar á skúlptúrum úr plexígleri og japanpappír með akríllitum, auk þess að hanna leikmyndir og búninga í u.þ.b. 60 sýningum í leikhúsum hér á landi og erlendis.

Ferilsskrá Messíönu er löng og glæsileg og hún hefur hlotið fjölmarga styrki og viðurkenningar m.a. borgarlistamaður Reykjavíkurborgar árið 1983.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?